20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2923 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Áður en ég kem að þeirri brtt. sem ég hef lagt fram í þessu máli, sem hér er til umræðu, vildi ég segja örfá orð um orkuverðið í landinu, en eitt af brýnustu hagsmunamálum landsmanna er að það verði jafnað. Það getur ekki gengið að stór hluti landsmanna verði að greiða raforku allt að helmingi hærra verði en þeir sem við bestan kost búa í þessum efnum.

Á 7. áratugnum stefndi í 25% ójöfnuð í raforkuverði. Þá var lagt 13% verðjöfnunargjald sem notað var til að minnka þennan mismun. Á 8. áratugnum, verðbólgu­áratugnum, hefur þessi þróun stöðugt orðið óhagstæðari með hverju ári sem liður. Því veldur að ríkisstj. til margra ára hafa ekki tekið á þessu máli. Fyrir löngu hefði átt að vera búið að afmarka svokallaðar félagslegar framkvæmdir í orkudreifingarmálum og að ríkið, eigandi Rafmagnsveitna ríkisins, greiddi þær sérstaklega af al­mannafé í stað þess að notendur hafa þurft að greiða hin óhagstæðu verðtryggðu lán jafnóðum í hinu háa orku­verði. Á síðasta ári var svo verðjöfnunargjald á rafmagni hækkað úr 13 í 19%. En eins og þetta var vafalaust rétt leið á 7. áratugnum, þegar mismununin var minni og verðbólgan hóflegri en síðar, þá sjá allir að sú leið er nú komin til enda, þar sem með henni hækkar raforkuverð mest þar sem það var hæst fyrir. Eina leiðin í þessu máli er að eigandi Rafmagnsveitna ríkisins komi þarna til móts, að fé í þessu skyni verði veitt á fjárlögum úr sam­eiginlegum sjóði landsmanna.

Á fjárlögum í fyrra var í fyrsta sinn veitt smáfjárveit­ing inn í þetta stóra dæmi og öðru sinni á fjárlögum þessa árs. En þarna hefur því miður verið allt of skammt gengið hvað upphæð snertir, þótt virðingarvert sé. Því var það á öndverðu þessu þingi, að ég lagði fram frv. þar sem reynt var að taka á þessu máli. Þar lagði ég til að tekjur Byggðasjóðs yrðu auknar og hann veitti fjármagn til jöfnunar á rafmagnsverði í landinn. Að sjálfsögðu má deila um hvort sú leið var sú rétta að féð færi í gegnum Byggðasjóð, enda var mér það út af fyrir sig ekkert kappsmál. Aðalatriðið er að fá menn til að viðurkenna þetta vandamál og leysa það með því að veita fé úr sameiginlegum sjóði landsmanna, annars ve~;ar til að leiðrétta strax óréttlætið og hins vegar til að gera rekstr­argrundvöll Rafmagnsveitna ríkisins eðlilegan.

Því miður snerust umr. um frv. hér á Alþ. meira um formsatriði en vandann sjálfan. En á þessu stórmáli verður að taka við næstu fjárlagagerð. Hér er ekki aðeins um að ræða erfiðleika notenda er búa við miklu hærra rafmagnsverð til heimilisnotkunar, heldur býr og atvinnureksturinn á þessum stöðum við óviðunandi að­stæður að þessu leyti. Verði hér ekki spyrnt við fótum og lagfært stefnir í alvarlega byggðaröskun, því að fólkið leitar þangað sem ódýrast er að lifa.

Þetta, sem ég hef hér rifjað upp, vildi ég sagt hafa áður en ég kem að því máli sem hér er til umr. Við undirbún­ing þess kom ég því á framfæri, að rafhitun mundi verða dýrari en olíuhitun í vissum tilfellum, þegar tekið væri tillit til hins breytta olíustyrks. Þessi skoðun mín fékk ekki undirtektir. Því var það, að ég beitti mér fyrir því að gerð var sérfræðileg könnun á þessu. Var hún gerð af verkfræðistofunni Fjarhitun h/f. Könnunin sýnir einmitt að þessi skoðun mín hafði við rök að styðjast. Þar kemur fram að rafmagnshitun verður mun dýrari en olíuhitun þar sem stór fjölskylda býr tiltölulega þröngt. Sem dæmi má nefna að hjón með fimm börn, sem búa í fjögurra til fimm herbergja íbúð, 120 m2 eða 350 m3 að stærð, verða að greiða 55% meira fyrir rafmagnshitun en fyrir olíu­hitun þegar hinn hækkaði olíustyrkur er kominn til framkvæmda. Annað dæmi er að hjón með tvö börn, sem búa í tveggja herbergja íbúð 65m2 og 200 m3 að stærð, verða að greiða 115% meira fyrir rafmagnshitun en olíuhitun. Dæmið snýst við þar sem fáir búa í stórum íbúðum.

Með þessu frv. er verið að jafna húshitunarkostnað í landinu. Það væri því hrópleg mistök ef jöfnunin næði ekki til þeirra er minnst mega sín. Ég hef alveg nýverið fengið þessa skýrslu í hendur og hefur því ekki unnist tími til að fá Þjóðhagsstofnun til að reikna stærð vandans. Því hef ég valið þá leið að flytja svo hljóðandi brtt. við frv., að aftan við 17. gr. bætist svo hljóðandi ákvæði til bráðabirgða:

.,Í þeim tilvikum, sem upphitunarkostnaður með raf­orku reynist hærri en hitunarkostnaður með olíu að frá­dregnum olíustyrk, er ríkisstj. heimilað að jafna þennan mismun með sérstökum styrk.“

Ég vonast til að hv. þm. fallist á þessi sjónarmið og samþykki brtt. og hæstv, ríkisstj. noti þessa heimild þannig að komið sé móts við það ranglæti sem frv. óbreytt mundi leiða af sér.

Við umr. núna hefur komið fram, að hv. n. vill ekki taka undir till. mína, en tekur þó undir þau sjónarmið sem í henni felast. Hér er um heimild að ræða, og komi það í ljós við athugun að útreikningar þeir sem brtt. byggir á, reynist ekki réttir verður þessi heimild að sjálfsögðu í samræmi við það sem kom fram hjá frsm. minni hl., að það gæti komið meira fjármagn út úr þeim tekjustofni, sem lögfestur var til þessara hluta, en búist var við, og m. a. með það í huga vonast ég til að hv. þm. skoði þetta mál, veiti ríkisstj. þessa heimild og sjái þannig um að samþykkt þessa frv. leiði ekki til ójöfnunar í vissum tilfellum, eins og ég hef lýst áður.