20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

Umræður utan dagskrár

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sighvati Björgvinssyni fyrir að ítreka fsp. sem ég bar fram í eldhúsdagsumræðunum í gær til hæstv. forsrh., en hann kaus þá að svara ekki. Ég spurði hæstv. forsrh. tvenns: Annars vegar var spurningin sú, hvort ríkisstj. ætlaði sér með brbl. að breyta fyrirkomulagi á greiðslu verðbóta til launþega miðað við næstu mánaðamót. Engin svör. Ég benti á, að áður hefði það komið fram hér í þingsölunum við afgreiðslu skattalagafrv., að einn stuðningsmanna ríkisstj., hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, flýtti sér vestur til Stykkishólms við örlagaríka atkvgr. Spurning mín er sú, hvort nú væri ætlunin að láta sér ekki nægja að senda hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson vestur til Stykkishólms, heldur skyldi nú senda þingheim allan brott af þingi vegna þess að ríkisstj. ætlaði sér að setja brbl.

Svör hæstv. forsrh. áðan voru engin svör. Ég vil undirstrika að það væri algjörlega ósæmilegt og vanvirðing við Alþ. og alþm. ef Alþ. ætti að ljúka í þessari viku eða næstu, en þó fyrir mánaðamótin maí/júní, og þeir dagar, sem á milli væru, væru nýttir til að gefa út brbl. Ef sú brýna nauðsyn er til staðar að gefa út brbl. ætti sú nauðsyn að vera ljós þegar í dag. Ríkisstj. er skylt þess vegna að gera upp hug sinn áður en þingi er slitið, hvort hún ætlar sér að gera breytingar á greiðslu verðbóta á laun um næstu mánaðamót og framvegis eða ekki. Þm. eiga kröfu til þessa.

Ég vil svo ítreka aðra fsp., sem ég flutti í ræðu minni í gærkvöld og fékk engin svör við. Það var fsp. um hverjar fyrirætlanir ríkisstj. væru varðandi greiðslu verðbótaþáttar af skuldum og innlánum í innlánsstofnunum. Eins og kunnugt er var engin breyting í þessum efnum gerð síðast þegar til stóð að gera slíkar breytingar samkv. ákvæðum efnahagslaga, sem samþykkt voru hér í aprílmánuði á s. l. ári, laga nr. 13 frá 1979, ef ég man rétt, svokallaðra Ólafslaga. Í fréttatilkynningu Seðlabankans, sem dags. er 29. febr. 1980, segir:

„Miðað við þær reglur, sem notaðar hafa verið við útreikning verðbólgustigs og ákvörðun verðbótaþáttar, ætti verðbótaþáttur vaxta að hækka um 3–5% 1. mars n. k., eftir því hvernig verðlagsþróunin næstu mánuði er metin“.

Og áfram: „Í málefnasamningi ríkisstj. er hins vegar tekið fram, að hún muni beita sér fyrir því, að verðbótaþáttur vaxta verði ekki hækkaður að þessu sinni, enda er þar gert ráð fyrir lækkandi verðbólgu það sem eftir er þessa árs. Miðað við þær forsendur mun verðbótaþáttur geta farið lækkandi með minnkandi verðbólgu á síðari helmingi ársins. Bankastjórn Seðlabankans hefur að undanförnu átt viðræður um þetta mál við ríkisstj. og hefur ríkisstj. í dag farið formlega fram á það, að verðbótaþáttur vaxta verði látinn óbreyttur að þessu sinni. Jafnframt hefur hún lýst yfir því, að hún ráðgeri að taka til endurskoðunar ákvæði laga um stjórn efnahagsmála o. fl. að því er varðar lengd aðlögunartíma uns fullri verðtryggingu verði náð.“

Svo mörg voru þau orð. En í trausti þessara yfirlýsinga ríkisstj. ákvað bankastjórn Seðlabankans að engar breytingar yrðu að sinni á verðbótaþætti vaxta.

Nú er það öllum þm. kunnugt, að ríkisstj. hefur ekki flutt hér á Alþ. neinar tillögur eða frv. til laga um breytingar á efnahagslögunum að því er varðar lengd aðlögunartíma uns fullri verðtryggingu verði náð. Það er því ástæða til að spyrja hvers vegna ríkisstj. hefur ekki gert breytingar á lögum og hvort ríkisstj. ætti þá að fara eftir gildandi lögum, nr. 13 frá 1979, og hækka verðbótaþátt vaxta, sem er að mati bankastjórnar Seðlabankans „siðferðileg og lagaleg skylda“, svo að orðrétt sé eftir haft eftir minni.

Hér er um tvær veigamiklar spurningar að ræða sem þm. allir eiga kröfu á að fá svör við. Þessir málaþættir báðir eru þess eðlis auðvitað, að þeir gefa tilefni til margs konar hugleiðinga og umr. hér á þingi. Ég vil freista þess enn á ný, áður en ég tek efnislega til meðferðar þessa málaþætti að nokkru leyti, að fá fram skýrari svör frá hæstv. forsrh. og öðrum hæstv. ráðh.

Í fyrsta lagi: Vilja þeir lýsa því yfir, að þingi verði ekki slitið fyrr en útséð er um að ríkisstj. muni ekki hafa í hyggju að breyta verðbótaþætti launa og lögum í samræmi við það? Ef yfirlýsing kemur ekki fram um þetta af hálfu hæstv. forsrh. og af hálfu annarra ráðh. er það gerræði að slíta þingi, þá er það vanvirða við þing og þingræði í landinu.

Ég hlýt að beina þessari fsp. ekki eingöngu til hæstv. forsrh., heldur og til hæstv. samgrh., formanns Framsfl.: Tekur Framsfl. þátt í slíkri vanvirðu? Þótt við höfum fengið efnislega afstöðu formælanda þess flokks í útvarpsumræðunum í gær til breytinga á verðbótagreiðslum á laun er það mál út af fyrir sig. Hitt er alvarlegra, ef Framsfl. ætlar að bera ábyrgð á þinglegri eða réttara sagt óþinglegri meðferð málsins með því móti sem hætta virðist á vegna véfréttastíls í svörum hæstv. forsrh. áðan.

Ég spyr hæstv. ráðh. Alþb., og beini þeirri fsp. ekki síst til hæstv. félmrh., sem fer með félagsmál og þar með samskipti við launþegasamtökin í landinu og aðila vinnumarkaðarins: Tekur hann í mál eða flokkur hans að gefa út brbl. um þessi efni eða veita atbeina til þess yfir höfuð að breyta verðbótagreiðslum launa?

En ég undirstrika og endurtek að meginefni fsp. minnar er um það, hvort eigi að sýna Alþ. og alþm. lítilsvirðingu með þeim hætti sem orð þau, er fallið hafa af hálfu hæstv. ráðh., gefa vissulega tilefni til að ætlunin sé. Því er og verður mótmælt.