20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2937 í B-deild Alþingistíðinda. (2907)

Umræður utan dagskrár

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka til máls í þessum umr. nema vegna þess að hv. 1. þm. Reykv. beindi sérstaklega orðum sinum til mín sem formanns Framsfl. Hv. 3. þm. Vestf. las upp nokkurn hluta af því sem ég sagði í gær í eldhúsumræðum. Því, sem hann las upp, lauk með þeim orðum: „Að sjálfsögðu verður þó ekkert slíkt gert gegn vilja launþega, bænda og sjómanna.“ Ég ætla að leyfa mér að lesa aðeins áfram, með leyfi forseta:

„Án slíkra aðgerða er hins vegar ljóst, að ekki mun takast að telja verðbólguna eins hratt niður og að hefur verið stefnt. Í þessu sambandi er þó nauðsynlegt að hafa í huga að kjarasamningar allir eru lausir. Það veldur meiri vanda um þessi mánaðamót.“

Ég vil leyfa mér að vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum, að við framsóknarmenn viljum leggja mikla áherslu á samráð við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að ná verðbólgunni niður og geta hafið þá niðurtalningu sem við leggjum ríka áherslu á. Ég vil einnig leyfa mér að vona að það séu fleiri hér inni sem hafa áhyggjur af þeirri miklu hækkun, sem við blasir 1. júní, en við framsóknarmenn. Ég hefði satt að segja öllu fremur átt von á fsp. ef enginn hefði í eldhúsdagsumræðunum í gær minnst á þær hækkanir sem fram undan eru. Ég hef átt von á því, að t. d. einhver af þeim Alþfl.-mönnum, sem hafa mjög talað um viðnám gegn verðbólgu, hefði þá lýst áhyggjum sínum og spurt hvort við hefðum ekki líka áhyggjur. Við höfum áhyggjur út af því sem fram undan er og við höfum haft þær lengi og lagt áherslu á það. Þetta er ekkert nýtt. Þetta hefur komið fram hjá okkur hvað eftir annað. Við viljum leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir. Hins vegar, eins og kemur fram í þessum orðum mínum, er að ýmsu leyti erfitt um vik nú vegna lausra kjarasamninga sem blandast inn í þetta. Auk þess held ég að mönnum megi nú vera ljóst að það er æðiskammt til stefnu og kannske ólíklegt að nokkur samstaða náist á svo skömmum tíma.

Ég vil undirstrika það, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að engar ákvarðanir, engin drög hafa legið fyrir ríkisstj. um brbl. Það hefur ekkert verið rætt og brbl. verða að sjálfsögðu ekki sett nema innan þess ramma sem stjórnarskráin leyfir. Hins vegar hef ég aldrei heyrt neina ríkisstj. gefa þá yfirlýsingu, a. m. k. ekki þann tíma sem ég hef setið hér, að brbl. verði ekki sett. En það eru engar slíkar áætlanir uppi nú.

Ég vona að ég hafi svarað spurningu hv. 1. þm. Reykv. um afstöðu okkar framsóknarmanna. Við viljum leita samráðs við aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir til að telja verðbólguna niður.