20.05.1980
Neðri deild: 81. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Fyrr í dag beindi hv. 1. þm. Reykv. fsp. til ráðh. varðandi þinghaldið og fleiri þætti stjóramálanna á næstu sólarhringum. Hæstv. forsrh. hafði svarað spurningum frá hv. 3. þm. Vestf. um sömu mál. Ég taldi að út af fyrir sig hefði ég ekki miklu við þau svör að bæta sem hæstv. forsrh. flutti. Enn fremur vil ég minna á að þær umr., sem hér hafa farið fram, hafa í rauninni allar sprottið upp vegna ummæla sem féllu í ræðum hjá hæstv. menntmrh. og hæstv. sjútvrh., þannig að ég taldi eðlilegast að þeir gerðu grein fyrir málum, eins og þeir hafa gert í dag svo og hæstv. forsrh. En þar sem eftir því hefur verið leitað mun ég ekki víkjast undan því að ræða þessi mál nokkuð hér.

Ég held að það sé alveg ljóst, að það deilumál, sem hér er uppi í dag, er ekki einasta um þinghaldið sem slíkt eða þingsköp, eins og menn vilja vera láta, né heldur er hér einvörðungu verið að fjalla um vísitölumál 1. júní eða húsnæðismál, heldur öll þessi mál í senn. Ég tel að deilurnar um þinghaldið séu þarna nokkuð í forgrunni og að vandinn, sem við hér stöndum frammi fyrir, stafi fyrst og fremst af því, að samkomulag hefur ekki náðst um þinghaldið milli stjórnar og stjórnarandstöðu, þannig að eftir því væri hægt að vinna með skikkanlegum og eðlilegum hætti þannig að öllum þingheimi væri nokkur sómi að. Ég tel að við eigum að leggja á það áherslu að ná samstöðu um það, hversu mál ganga fram hér í þinginu. Fyrir liggur hver er afstaða ríkisstj. varðandi mál í þeim efnum.

Talandi um hin einstöku mál vil ég nefna frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem verður senn væntanlega til 2. umr. hér í d. og hefur verið til meðferðar í hv. félmn. Hér er um að ræða stórt og þýðingarmikið mál. Óneitanlega kemur það víða við, óneitanlega er það margar greinar, en þó er það í rauninni tiltölulega einfalt mál sem hefur legið hér alllengi fyrir. Þar erum að ræða mjög ákveðin pólitísk ágreiningsmál, en þau eru ákaflega skýr og eru þekkt frá fornu fari, þannig að ekki ætti að þurfa að vefjast fyrir mönnum að mínu mati að taka ákvörðun um þá hluti ef allir beittu ýtrasta velvilja varðandi framgang þingmála á þeim síðustu sólarhringum sem nú standa eftir af þinghaldinu.

Það er jafnljóst fyrir ríkisstj. og öðrum hv. alþm. að þessi húsnæðismál eru nátengd kjörum launafólks í landinu. Hér er um það að ræða, í þeim búningi sem frv. liggur fyrir nú, að gerðar yrðu ráðstafanir til að auka svo getu Byggingarsjóðs verkamanna að hann réði við að byrja á 500 íbúðum á ári eða svo 500–600 íbúðum á ári í staðinn fyrir 90–100 íbúðir á ári. Þetta eru kjaramál sem skipta miklu máli. Það er augljóslega af þeirri ástæðu sem á þetta mál er lögð mjög veruleg áhersla og ég vænti að allur þingheimur, hvort sem er stjórn eða stjórnarandstaða, skilji hvað hér liggur á bak við af hálfu þeirra aðila sem hvetja til þess að málið verði afgreitt.

Hér hefur verið haldið uppi alllöngum umr. um ýmis mál, m. a. um iðnaðarmál í gærkvöld og í nótt og um fleiri mál, og því hefur verið haldið fram af ýmsum, að svo muni málum verða háttað áfram ef ekki náist samkomulag um þingstörfin. Ég held að það sé í rauninni engum til góðs að þófi af því tagi sem hér hefur birst verði haldi miklu lengur áfram. Ég held að það sé engum til góðs og síst Alþingi Íslendinga.

Það hefur verið á það minnst hér, hvort hugsanlegt sé að ríkisstj. muni setja brbl. til að skerða verðbætur á laun, hefur mér skilist, 1. júní n. k. Það er ljóst, að ef það væri t. d. tekin ákvörðun um aukningu á niðurgreiðslum þannig að þær héldu því hlutfalli af búvöruverði sem þær halda nú og gert er ráð fyrir í stjórnarsáttmálanum og taka ekki tillit til þess við útreikning kaupgjaldsvísitölu 1. júní, þá yrði slíkt auðvitað ekki gert öðruvísi en með lögum. Það er alveg ljóst og rétt sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um það mál. Það er hins vegar ekki rétt, sem hv. 3. þm. Vestf. sagði í sinni ræðu, að ekki hafi verið gert ráð fyrir þessum möguleika við afgreiðslu fjárlaganna. Við afgreiðslu fjárlaganna var gert ráð fyrir þessari hlutfallslegu verðtryggingu niðurgreiðslnanna, ef svo mætti að orði kveða um þann þátt mála. Ákvörðun um hversu miklar niðurgreiðslurnar verða getur hins vegar ekki legið fyrir fyrr en nokkurn veginn er ljóst hvert búvöruverð verður frá 1. júní, en niðurstaða Sexmannanefndar í þeim efnum liggur ekki fyrir. En fari svo að þing standi jafnvel til 28. maí, miðvikudags í næstu viku, sem ég hygg að sé 28. maí, þá er ljóst öllum sem þekkja á almanak að þá mun lifa skammur tími eftir af maímánuði, eða 29., 30. og 31. þess mánaðar, þrír dagar, og jafnvel þó að menn væru allir af vilja gerðir til að leggja á það ofurkapp að koma fram á þeim tíma brbl. hygg ég að til þess vanti ýmislegt, m. a. í fyrsta lagi tæknilegar forsendur og í annan stað pólitískar forsendur, sem ekki liggja heldur fyrir. (HBl: Er það reynslan frá 1978?) 1978 voru ekki gefin út brbl. síðari hluta maímánaðar. (HBl: En í september kannske?) Já, í september. Að sjálfsögðu getur það iðulega komið til að ríkisstj. þurfi á því að halda í tengslum við lausn kjarasamninga eða í öðrum tilvikum að setja brbl. Auðvitað getur ríkisstj. ekki, hvorki þessi né önnur, afsalað sér þeim rétti í eitt skipti fyrir öll. Það er útilokað. En ég hygg að við séum hér fyrst og fremst að tala um þennan tiltekna mánuð og ég hef skýrt hvernig málin standa að því er hann varðar þegar þinghald hefur staðið hér út miðvikudaginn 28. maí og hversu málum þá verður háttað. Ég hygg því að þessir hlutir séu eins ljósir og verða má.

Ég vænti þess, að allir þm., bæði stjórnar og stjórnarandstöðu, taki sig saman um það nú á næstu klukkutímum að sjá fram úr þessum málum öllum, þannig að Alþingi Íslendinga þurfi ekki lengur — um marga sólarhringa enn — að líða — ég vil segja líða — fyrir þá vanvirðu sem því er iðulega gerð með því háttalagi sem hér hefur verið tíðkað, án þess að ég vilji ráðast heiftarlega að þeim stjórnarandstöðuþingmönnum, sem hér hafa talað, né heldur kenna þeim um allar misfellur sem átt hafa sér stað í störfum Alþingis og vafalaust má einnig rekja til okkar starfa líka.