20.05.1980
Sameinað þing: 64. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2949 í B-deild Alþingistíðinda. (2918)

199. mál, bilanir á rafmagnslínum til Grundarfjarðar og Hellissands

Fyrirspurn:

Hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar til að koma í veg fyrir tjón og hættuástand vegna bilana á rafmagnsflutningslínum til Grundarfjarðar og Hellissands?

a) Er von endurbóta á flutningslínum?

b) Er fyrirhugað að setja upp varastöðvar á þessum stöðum?

Svar: Vegna anna á Alþingi er hér lagt fram skriflegt svar við þessari fyrirspurn í samráði við forseta sameinaðs þings og fyrirspyrjanda. Leitað var upplýsinga hjá Rafmagnsveitum ríkisins um málið og er fyrst og fremst stuðst við þær hér á eftir:

Um a—lið fyrirspurnarinnar upplýsa Rafmagnsveiturnar eftirfarandi:

1. Unnið hefur verið að byggingu nýrrar 66 kV línu frá aðveitustöð að Vegamótum til nýrrar aðveitustöðvar í Ólafsvík og verður þessu verki lokið í sumar. Þessi framkvæmd eykur og treystir orkuöflun inn á norðanvert Snæfellsnesið til mikilla muna.

2. Eftirtaldar aðgerðir verða framkvæmdar á línunni frá Ólafsvík til Grundarfjarðar á komandi sumri og eru þegar hafnar:

2.1 Skipt verður um vír og einangra á línunni frá Ólafsvík til Búlandshöfða.

2.2. Skipt verður um vír á línunni frá Búlandshöfða (austanverðu) að Grundarfirði.

2.3. Línan yfir Búlandshöfða verður aflögð, en í hennar stað lögð ný lína, 6–7 km löng, norður yfir Búlandshöfða.

Með þessum aðgerðum er aukin einangrun á línunni og vírgildleiki og þar með flutningsgeta hennar aukin verulega. Línan verður einnig traustari eftir þessar endurbætur, þar sem vírinn á línunni var víða orðinn mjög lélegur og bilanir á Búlandshöfða hafa verið mjög tíðar.

3. Aðgerðir á Hellissandslínu eru á framkvæmdaáætlun Rafmagnsveitnanna á næsta ári. Eins og það er orðað í framkvæmdaáætluninni: Stofnlína Ólafsvík — Rif — Gufuskálar 83 Mkr. Að sjálfsögðu er ekki búið að samþykkja þessa framkvæmdaáætlun fyrir árið 1981 og gerist væntanlega ekki fyrr en með gerð fjárlaga fyrir það ár.

Um b—lið fyrirspurnarinnar er því til að svara, að ekki hefur verið fyrirhugað að setja upp vararafstöðvar á þessum stöðum.

Varðandi raforkumál á Vesturlandi er því við að bæta, að iðnaðarráðuneytið tók undir þá tillögu stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins á s. l. ári að stofnað yrði starf rafveitustjóra III á Vesturlandi með aðsetri í Stykkishólmi og hliðstætt starf rafveitustjóra fyrir Suðurland með aðsetri á Hvolsvelli. Hlaut mál þetta samþykki fjárveitinganefndar s. l. vetur. Er þess að vænta að með tilkomu manna í stöður þessar verði unnt að fylgjast betur með raforkukerfum á vegum Rafmagnsveitnanna í þessum landshlutum.