21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2952 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

6. mál, tímabundið vörugjald

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Eins og hv. dm. heyrðu bauð hæstv. viðskrh. að þing stæði hér í allt sumar og nægur tími væri til umr. Ég vil í upphafi máls míns fjalla nokkuð um þessa hugmynd hæstv. ráðherra.

Ég held að flestum sé um það kunnugt, að ég hef mjög barist gegn hinu lengda þinghaldi á undanförnum árum og oftar en einu sinni í hörðum umr. talið það alranga stefnu að vera sífellt að lengja þinghald og gera alla 60 þingmennina að atvinnustjórnmálamönnum, þeir sinntu ekki öðrum störfum í þjóðfélaginu. Það hef ég talið vera mjög uggvænlega þróun og óheillavænlega. Ég hefði haldið að best færi á því, að þinghald yrði svipað og það var hér fyrir einum 15–20 árum, að það stæði kannski í 2–21/2 mánuð að hausti og annað eins að vorlagi. Ég held að störfin hér yrðu öll miklu betur unnin ef svo væri. Mönnum myndi líða miklu betur og launakjör gætu auðvitað verið með öðrum hætti þá því að allir ynnu svo sem hálft árið að öðrum störfum, væru í tengslum við þjóðlífið. Einn væri t. d. á sjónum, annar væri bóndi, sumum leyfðist sjálfsagt að praktísera lög eða stunda fiskrækt eða eitthvað annað.

Ég held að það sé út af fyrir sig mjög heppilegt að hæstv. ráðh. skuli vekja hér athygli á þessu og óska eftir umr. um það eða a. m. k. efna til þeirra, vegna þess að það er tímabært að við eyðum nokkrum klukkutímum í að ræða það mál, svo uggvænleg sem sú þróun er í þessu þjóðfélagi, bæði að því er varðar störf Alþingis og ýmissa stofnana annarra raunar líka. Það er að verða svo, að það má helst enginn gera neitt nema stunda einhver skrifstofustörf og þá auðvitað á vegum ríkisins, og helst á að greiða öllum laun úr ríkissjóði. Mér sýnist að það geti orðið þróunin.

Ég minnist þess, að þetta mál, um lengd þingtímans og störf alþingismanna, var mikið hitamál áður en ég kom hingað á þing. Ég var þá ritstjóri og fylgdist með því af miklum áhuga. Þá ræddu þeir Bjarni Benediktsson og Eysteinn Jónsson aðallega um málið og hélt sá síðarnefndi því fram, að allir þingmenn ættu að vera í fullu starfi sem stjórnmálamenn og helst ekki að sinna mjög miklum störfum öðrum. Aftur á móti var það sjónarmið Bjarna Benediktssonar, að þing ætti að stytta og það ætti kannske að vinna lengri vinnudag. Honum datt jafnvel í hug að þó að þingið sæti ekki nema eins og fimm mánuði ársins, þá yrði ekki unnið endilega alla vikuna, en það yrði unnið t. d. þrjá daga frá morgni til kvölds. Síðan gætu menn þá með batnandi samgöngum verið í sínu kjördæmi líka, þegar vel viðraði, og sinnt öðrum störfum. Þannig þyrfti í rauninni enginn, þótt hann gerðist alþm., að slitna úr tengslum við það starf sem hann áður gegndi, eða það starf, sem hann vildi gegna. En með þeirri þróun, sem nú er að verða, er raunin sú, að þegar menn hafa kannske verið hér á þingi í 15–20 ár, — sem er ærinn tími og menn ættu helst ekki að vera öllu lengur, nema þá þeir sem einhverjir sérstakir afburðamenn eru, — þá er það svo, að þeir geta helst ekki komið sér að öðrum störfum. Og mér er sagt að menn hér í fyrirtækjum, einkafyrirtækjum t. d., vilji helst ekki ráða orðið alþingismenn til hlutastarfs eða sumarstarfs, vegna þess að þeir þurfi þá að vera á eilífum þönum og sinni ekki sínu starfi sem skyldi.

Mér finnst alveg nauðsynlegt að halda áfram þessari umr. um störf Alþingis og er hæstv. ráðh. mjög þakklátur fyrir að hann skuli gefa sérstakt tilefni til þess. En ég vona að ekki komi til þess, að hæstv. ríkisstj., — þessi prýðisstjórn í landinu, einhver hin besta sem um getur, enda til hennar stofnað af drengskap og heilindum — (Gripið fram i.) beiti áhrifum sínum til þess, að við höldum áfram alla leið til hausts. Það finnst mér einum of langt gengið, ég verð að segja það, hæstv. ráðh. (StJ: Ertu þá á móti því að mál fái ítarlega meðferð?) Ég var að halda því fram hér áðan og leyfi mér að gera það, að ef störfum Alþingis væri hagað með öðrum hætti, t. d. að hér væri fastur vinnutími líka að morgunlagi, þá væri hægt að afkasta miklu meiru og fá ítarlegri athugun á málin. Ég er nú einu sinni þannig gerður — sem ég veit að hv. þm. Stefán Jónsson er ekki — að ég er gleyminn, og þegar margar víkur líða á milli umr. um mál verð ég að rifja upp aftur það sem ég áður var búinn að reyna að setja mig inn í. Og það þarf ekki að vera ýkjalangur tími stundum, sem líður þannig á milli umr., til að ég sé búinn að gleyma því öllu saman, vegna þess að margt af því, sem um er fjallað hér á hinu háa Alþingi, er ekkert skemmtilegt. Og það er ekki til neinna þjóðþrifa að vera að unga út öllum þessum frv. Ég held að eitt hið besta, sem hægt væri að gera fyrir þessa þjóð, væri það að nokkrir lögfróðir menn og fróðir um atvinnuhætti og ýmiss konar störf í þjóðfélaginu tækju sig til og gengju á lagasafnið og reyndu að strika út úr því svona eins og þriðjung eða kannske helming. Þá gæti jafnvel svo farið, að almenningur í þessu landi gæti svolítið áttað sig á lögum og rétti, en þyrfti ekki að leita til lögfræðinga, sem einnig eru misvitrir og botna kannske ekki sjálfir í allri flækjunni oft og tíðum. Allt er þetta því tilefni til langra og mikilla umræðna.

En hæstv. forseti, sem ég virði mikils, hefur mælst til þess að við töluðum ekki mjög lengi um þetta mál. Og þessi umr., sem hæstv. viðskrh. efndi hér til, er kannske ekki alveg beint um það málefni sem hér er á dagskrá, en tengist því með þeim hætti sem hann gat um, og skal ég þá ræða það nokkuð, þ. e. skattheimtustefnu hæstv. núv. viðskrh. sem áður var fjmrh. og skattakóngur þessa lands þar til núv. ríkisstj. var mynduð. En þá fékk hann aðstoð ágætismanns, hæstv. forsrh., sem hefur nú tekið af honum þetta met með því að auka enn á skattana í þjóðfélaginu, skattaáþjánina, þannig að ekki verður öllu lengur við unað. Ég held að alþýða þessa lands muni ekki öllu lengur una þeirri verðbólgukyndingu sem stofnað hefur verið til og hæstv. ríkisstj. ber ábyrgð á.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að fyrrv. vinstri stjórn, sú sem hrökklaðist frá á s. l. hausti, hefði getað starfað eitthvað áfram ef ekki hefði verið gripið til þeirra kolvitlausu aðgerða síðsumars 1979 að kynda enn undir verðbólgunni með því að bæta á tveimur söluskattstigum og hækka þetta tímabundna vörugjald. Ég held að það hafi verið vitlausasta stjórnarathöfn sem hugsanleg var í þeirri miklu verðbólgu sem þá var orðin. (Gripið fram í.) Ekki kannske vegna þessara króna sem þá bættust ofan á eða prósenta — sem auðvitað urðu meira en beinlínis segir í viðkomandi lögum, vegna þess að allt vefur þetta upp á sig frá mánuði til mánaðar — ég held að það hafi kannske ekki fyrst og fremst verið það, heldur hitt, að fólkið í landinu sá að þessi stjórn ætlaði sér aldeilis ekkert að reyna að eiga við verðbólguna. Stjórnin treysti sér ekki til þess. Hún hugsaði bara um þetta sáluhjálparatriði, sem einhverjir hagfræðingar komu inn í kollinn á þáv. ráðherrum, að fjárlög yrðu að vera greiðsluhallalaus, það væri algert sáluhjálparatriði. Það ætti bara að heimta skatta endalaust, svo skipti ekki nokkru máli hvernig færi um lánsfjáráætlun og allra handa fjármálasukk í þjóðfélaginu þar fyrir utan. Ef hægt væri að koma þessum eina lið í öllu pappírsflóðinu niður í núllið, þá væri hitt allt saman í fínasta lagi. Þetta lásu menn einhvern tíma í hagfræðiritum snemma á öldinni og hafa bundið sig í það síðan, að þannig ætti að stjórna þjóðfélögum, sérstaklega á verðbólgutímum, þá ætti að herða skattheimtuna alveg í rauðan dauðann. Og það er kannski engin furða þó að hæstv. viðskrh. vilji hækka skattana svolítið þegar hann er svo himinlifandi með það, að hann hafi verið jafnvel miklu, miklu vægari í skattheimtu heldur en gerist hjá nágrannaþjóðunum. Þar þekkist nú aldeilis ekki svona eins og 24% vörugjald, þar eru þeir með það í 70–80% væntanlega. Þar þekkist ekki söluskattur upp á 23.5%. Þar eru þeir væntanlega með þá í 50–60%. Þetta er skoðun hæstv. viðskrh., býst ég við, að allir skattar séu svo miklu lægri hér en annars staðar. Þá eru þeir væntanlega t. d. helmingi hærri í þessum löndum sem hann var að tala um. Þetta er glóruleysi í skattheimtunni, þessi skammsýni, þessi blinda ráðamanna að halda að það sé endalaust hægt að halda áfram að hækka skatta og þeir geti búið um sig í stól fjmrh. eða forsrh. ef þeir bara geta pumpað peningum inn í ríkissjóð til þess að fara svo nægilega illa með þá á eftir.

Alkunna er að mikið af þessum fjármunum fer fyrir lítið. Eins og ég var að tala um hér áðan varðandi störf Alþingis, þá fer þetta í það að auka skrifstofuveldið, skrifstofubáknið í þjóðfélaginu. Það fer í það að stofna til lagabálka eins og t. d. laganna um húsnæðismálalánin sem hafa nú verið hér til umr., þar sem nokkrir tugir manna verða væntanlega komnir á jötuna bráðlega. Ætli það gæti ekki stefnt í 1–2 hundruð manns til að sinna verkefni sem ég hygg að einn eða tveir menn gætu mjög vel sinnt, ef það væru bara fastar reglur um hvernig ætti að sinna verkefnunum? Það sama viðgengst í öllum hinum opinberu stofnunum, — ekki síst þeim sem ganga nú sjálfala og hafa eigin tekjustofna og þurfa ekki einu sinni að vera undir eftirliti fjárveitingavaldsins eða Alþingis, — að þar er auðvitað bætt við starfsfólki eins og hver vill hafa. Einn er gerður að deildarstjóra. Það þykir ekki alveg nógu fínt. Hann fær þá fulltrúa sér við hlið. Og það er ekki nógu fínt fyrir fulltrúann að vera fulltrúi svo að hann er gerður að deildarstjóra og deildarstjórinn að skrifstofustjóra. Síðan er bætt við hverri silkihúfunni upp af annarri þar til komnir eru 10–12 menn, sem eru að vinna, allir að vinna hver fyrir annan, hringjandi milli herbergja og í sendiferðum og öllu slíku. Það væri áreiðanlega miklu einfaldara fyrir einn mann að gera þetta. Hann mundi ljúka því á miklu skemmri tíma og þá fengju menn líka svör við fsp. sínum. (Gripið fram í.) Jú, hann gæti farið inn í kaffistofu í einhverri annarri stofnun og drukkið þar með símastúlkunni eða afgreiðslustúlkunni. Það gæti verið mjög skemmtilegt.

Þetta er sem sagt sú stefna sem hefur verið meira og minna að vefja upp á sig nú í áratug á Íslandi með fjögurra ára undantekningu. Það var reynt að spyrna við fótum, en sú tilraun var brotin á bak aftur af því að það þurfti að koma á nýrri vinstri stjórn, þeirri næst verstu vinstri stjórn sem Íslendingar hafa haft. Við höfum þá verstu núna, þá allra verstu, glórulausustu ríkisstj. sem um getur, sem að sjálfsögðu kemur verðbólgunni ekki bara í þessi 50%, sem búið er að reikna út, eða 55,— það er alveg augljóst mál að hún kemur henni a. m. k. í 70–80%. Svo átti að fara að bjarga þessu öllu saman með því að stela einu eða tveim vísitölustigum í viðbót. Það hefur sjálfsagt verið að undirlagi „gáfumannafélagsins“ sem stjórnar nú ferðinni í Alþb. En þeir kipptust svolítið við samt, hv. Alþb.-menn, fóru að verða ofurlítið uggandi um hag sinn — ekki þjóðarhag, heldur um eigin hag. M. a. hygg ég að hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, sem þarna stendur í dyrunum, hafi gert þeim einhverja grein fyrir því, að það kynni að vera dálítið hæpið að byrja núna á vísitöluskerðingu. Kjör landsmanna, sérstaklega láglaunafólks, hafa verið skert um nálægt 1% á mánuði á öllum tíma vinstri stjórnanna tveggja, þeirrar næst verstu og þeirrar verstu, og líklega þó meira en 3% núna síðustu þrjá mánuðina — já, áreiðanlega meira. Hún er stórtækari, þessi vinstri stjórn, heldur en sú sem á undan henni var. En á tímum ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar voru kjör láglaunafólks örugglega ekki skert minna en um 1% á mánuði að jafnaði. Núna eru það líklega 2 eða 3%. Og svo á að bæta á með því að skerða vísitöluna og líklega að koma með einhverja nýja skatta, því að það verður að passa upp á fjmrh., alveg eins þann núv. eins og þann fyrrv. (Gripið fram í.)

Í fullri alvöru segi ég það við hæstv. núv. viðskrh. (StJ: Þið skuluð gjamma fram í í Nd.) Það er allt í lagi mín vegna að þeir gjammi fram í hér líka. (StJ: Þetta er bara leiðinlegt fyrir okkur. Við getum gjammað fram í sjálfir.) Ég held að ógæfa síðustu vinstri stjórnar — og þar með gæfa þjóðarinnar af því að við losnuðum fljótt við hana — hafi verið sú, að hún greip til þess óyndisúrræðis að auka enn á hraða verðbólgunnar með nýrri skattheimtu.

Menn brostu hér á útmánuðum að leiftursókn okkar sjálfstæðismanna, og ekki skal ég mæla orðinu bót beint því að einmitt sömu dagana — og það er nú kannske undirrótin að því að einhverjum datt þetta blessaða orð í hug — kom hér út merkileg bók um heimsstyrjöldina. (Gripið fram í: Þeir gerðu nú meira en að brosa.) Já, meira en að brosa. Þar er mörkuð algerlega gagnstæð stefna. Hún er ekki algóð. En raunar vildi svo til — svo að ég fari nú að monta svolítið eins og ráðh. gera stundum, þó að ég ætli ekki að verða ráðh. og búist ekki við að hoppa svo hátt í virðingarstiganum, — það vildi svo til, að daginn sem Alþfl. tók ákvörðun um að rjúfa þessa ríkisstj. birtist í Morgunblaðinu grein þar sem ég reyndi af mínum vanmætti að setja fram stefnu alveg þveröfuga við þá sem þáverandi stjórn hafði fylgt. Mér datt auðvitað ekki í hug að neinar kosningar væru framundan eða nokkur skapaður hlutur í þá áttina, heldur var maður af sínum vanmætti að reyna að setja fram einhverja slíka stefnu. Þar lagði ég til að það yrði einmitt gengið í það hægt og bítandi að lækka þessar álögur — það var einn liðurinn í því að ná verðbólgunni niður, jafnvel þó við tækjum áhættu af töluverðum halla á ríkissjóði í eitt eða tvö ár á meðan við værum að ná heilsu okkar, alveg eins og sjúkir menn taka stundum lán, ef þeir þurfa t. d. að fara til lækningar erlendis, og fá það ekki greitt af sjúkratryggingum eða slíku. Það getur borgað sig að ná heilsu sinni þó maður setji sig í einhverjar skuldir, ekki síst þegar svo vill til að það er hægt að taka lánin hjá sjálfum sér, eins og er ef boðin eru út innlend skuldabréfalán, til þess að lækka skatta og lækka þá í áföngum. Það mætti líka draga úr gjaldeyriseyðslu, innkaupum og óráðsíu með peninga ef það væri fyrirfram lögboðið, að söluskattur og vörugjald lækkaði á ákveðnum vöruflokkum eða öllum á t. d. þriggja mánaða fresti, ef hver einasti maður vissi að það væri svo hressilega tekið á móti verðbólgunni, að hann mundi geta keypt vöru ódýrari með því að bíða og hefði á meðan peninga sína til vonar og vara inni á fullverðtryggðum reikningi og með einhverjum litlum vöxtum. Þetta gerir næsta ríkisstj. án alls efa, vegna þess að þessu landi verður ekki lengur stjórnað með þessari skattpíningarstefnu hæstv. núv. viðskrh.

En það er auðvitað margt fleira sem þarf að gera í leiðinni, og hæstv. ráðh. hefur sjálfur bent á eitt mjög mikilvægt atriði í því efni, þ. e. að koma á frjálsum viðskiptaháttum og frjálsri verðlagningu, og koma í veg fyrir að stöðugt sé verið að gera óhagkvæm innkaup í smáum stíl, þar sem innflytjendur taka að auki svo og svo miklar „kommisjónir“ erlendis og viðsemjendur þeirra bæta stórum upphæðum ofan á líka, vegna þess að þeir vita ofur vel að það er hagur þess, sem er að kaupa af þeim, að varan sé sem allra dýrust. Þetta er auðvitað búið að skaða þjóðarbúið um milljarða á milljarða ofan, hundruð milljarða.

Lífskjör á Íslandi væru öll önnur ef verslunarhættir væru með einhverju viti í staðinn fyrir það glóruleysi sem hér hefur viðgengist. Þetta er eina frjálsa ríkið í veröldinni sem viðhefur slíka viðskiptahætti, svo að ég viti til. Það hafa allir aðrir afnumið þetta. Fyrst eftir styrjöldina, í vöruskortinum og vandræðunum, voru menn með þessi höft og íhlutun um verslunarmálefni. Mönnum finnst það kannske koma spánskt fyrir sjónir, en ég ætla að leyfa mér að halda því hér fram, að einn atvinnuvegur, a. m. k. einn atvinnuvegur, þ. e. verslunin, á að hafa ótakmarkaðan aðgang að fjármagni, algerlega ótakmarkaðan. Hún á að borga sín lán í jafngóðum peningum til baka og með einhverjum vöxtum, en verslunin á að geta fengið að taka erlend vörukaupalán þegar henni sýnist svo, á eigin ábyrgð. Viðkomandi kaupmaður eða verslunarfélag á að geta keypt í eins stórum stíl og honum sýnist, á sína ábyrgð, þannig að raunveruleg samkeppni komist á og vöruverð lækki með þessum hætti.

Það er eitt gott við stefnu núv. hæstv. ríkisstj., kannske það eina, að hún ætlar að athuga með tollkrít, sem væri liður í aðgerðum sem þessum. Auðvitað hefur tollkrít enga þýðingu nema verðlag sé gefið frjálst um leið, og það var nú verið að vísa frv. um slíkt frá okkur sjálfstæðismönnum til ríkisstj. og formaður þingflokks Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, taldi að þar væri ekki í kot vísað, vegna þess að uppvíst væri að svo og svo margir ráðh. væru því hlynntir að koma á frjálsri verðlagningu. Þeir gera það kannske með brbl. Það væri vissulega mjög æskilegt að svo færi, og ég mundi gjarnan vilja að þeir settu þau brbl. strax eftir að þingi lyki. Það er áreiðanlegt, að það eru 3/4 hlutar þingliðsins hlynntir því að frjálsræði komist á hér á landi, vegna þess að allur Framsfl. og allur Sjálfstfl. og ég held allur Alþfl. greiddi atkv. með því hér vorið 1978 — eða kannske ekki allur Alþfl., en alla vega allur Sjálfstfl. og allur Framsfl. Og Alþfl.-menn studdu þetta frv. núna, þannig að það nálgast það a. m. k. að það séu 3/4.

Það væri ekkert athugavert við að setja slík brbl., ef tími ynnist ekki til þess að afgreiða þetta hér í þinginu. Þannig gæti þessi stjórn kannske farið að marka einhverja stefnu sem einhver maður í landinu hefði trú á. Ég held að það finnist enginn maður lengur sem trúir nokkurn skapaðan hlut á þessa ríkisstj., nema þá ef það væru hæstv. ráðh. Ég heyri engan annan tala máli hennar af neinum sannfæringarkrafti. Hv. þm. Stefán Jónsson reynir að verja ríkisstj., ég skal játa það, en ég hef engan sannfæringarkraft heyrt í vörn hans fyrir þessa stjórn nú upp á síðkastið. Kannske getur hann æst sig upp í það að verja hana af einhverjum sannfæringarkrafti, en ég hef ekki heyrt það. Þess vegna er fullkomlega tímabært að ræða þetta mál, sérstaklega þetta tímabundna vörugjald, hækkunina á því, sem tengdist hækkun söluskatts á sínum tíma, og svo söluskattshækkunin núna, segi ég, í mjög löngu máli. Það væri eðlilegt kannske að taka 5–6 klukkutíma í að ræða það, vegna þess að þetta er mál sem er þannig vaxið að það gæti mjög skýrt myndina ef ég t. d. talaði í 3–4 tíma og svo hæstv. ráðh. annað eins, og svo gætum við borið saman bækurnar héðan úr ræðupúlti og kannske í bakherbergjum líka. En vegna tilmæla hæstv. forseta ætla ég ekki að fara lengra út í þessa sálma að sinni, en tel fullt tilefni til þess að það verði rætt í allmargar stundir, kannske í nokkra daga, sérstaklega ef þingið á að standa fram eftir sumri, þá gefst náttúrlega tími til þess.