21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2957 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Í því frv., sem hér liggur fyrir um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar í landinu, eru sett ýmis ný ákvæði um ráðstafanir í þessu skyni og enn fremur víðtækari ákvæði en áður hafa verið í lögum um þetta efni. Núgildandi lög eru lög nr. 13 frá 1977. Í þessum lögum er auk ákvæða um olíustyrkinn sérstakur kafli um orkusparnað og annar um nýtingu innlendra orkugjafa. En frv. er ætlað að koma í stað þeirra laga sem ég tilgreindi, nr. 13 frá 1977.

Frv. greinist í fjóra kafla. 1. kaflinn fjallarum markmið þess, 11. um olíustyrkinn, III. um orkusparnað, IV. um nýtingu innlendra orkugjafa og V. og seinasti kaflinn um gildistöku og reglugerðarsetningar. Ég mun víkja að efni einstakra kafla.

Olíustyrkurinn er nú eða var 18 200 kr. á einstakling ársfjórðungslega, en frv. gerir ráð fyrir að hækka hann í 20 þús. kr. Hjá um 60% heimila í landinu mun olíustyrkur á ári hækka meira en þessu nemur. Á seinasta ári námu útgreiddir olíustyrkir samtals 2 milljörðum 71 millj. kr., en á þessu ári er gert ráð fyrir því í fjárl. að verja 4 500 millj. kr. til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar.

1. gr., sem fjallar um markmiðin, er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Með lögum þessum er stefnt að jöfnun hitunarkostnaðar og lækkun á heildarkostnaði við upphitun húsnæðis í landinu, m. a. með eftirfarandi ráðstöfunum:

a) Greiðslu olíustyrks vegna þeirra sem búa við olíukyndingu.

b) Hagkvæmari orkunotkun og orkusparnaði.

c) Aukinni notkun innlendra orkugjafa í stað olíu.“

Og í 2. gr. segir að kostnaður við framkvæmd laga þessara greiðist úr ríkissjóði.

Í 3. gr. eru ákvæði um að heimili, sem eingöngu nota gasolíu sem orkugjafa til hitunar, eigi rétt á olíustyrk. Nokkuð hefur verið um það, að menn hafi notað bæði rafmagn og olíu til upphitunar, og hefur rn. þá heimilað greiðslu olíustyrks að hluta til. Gert er ráð fyrir að olíustyrkir falli alveg niður í slíkum tilvikum. Samkv. frv. verður fjárhæð olíustyrksins lögbundin með heimild til breytinga miðað við olíuverð. Gert er ráð fyrir að olíustyrkir verði greiddir húsráðanda ársfjórðungslega vegna íbúa sem hafa fasta búsetu í viðkomandi íbúð. Frá upphafi hefur olíustyrkur verið greiddur hverjum framteljanda til skatts og einnig vegna maka og barna sem hafa verið á framfæri hans og ekki hafa verið sjálfstæðir framteljendur.

Í frv. er gert ráð fyrir að breyta útreikningi olíustyrksins fyrir hvert heimili. Áður hefur verið greiddur einn styrkur á mann, en í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir að draga hlutfallslega úr greiðslum til fjölmennra heimila, en hækka greiðslur til fámennari. Þannig er gert ráð fyrir að greiða tvo olíustyrki fyrir einn íbúa í heimili, þrjá olíustyrki fyrir tvo í heimili o. s. frv., eins og greinir í 4. gr. Fyrir sjö íbúa og fleiri greiðist 51/2 olíustyrkur og er það hámarkið. Það, sem hér er verið að gera, er einfaldlega það, að verið er að taka meira tillit til stærðar húsnæðis en gert hefur verið áður. En sannleikurinn er sá, að framkvæmdin á þessum málum hefur komið þungt niður, sérstaklega á gömlu fólki sem býr í eigin húsum og eru ein eða tvær manneskjur í mörgum tilfellum, og það er verið að ganga til móts við þetta fólk m. a. með því að taka nokkurt tillit til stærðar húsnæðisins einnig, og það er gert með þeim hætti sem 4. gr. fjallar um. Í frv. er ákvæði um viðbót, sem nemur 1/2 olíustyrk vegna lífeyrisþega sem njóta tekjutryggingar almannatrygginga eða hafa svipaðar heildartekjur. Eins og verið hefur er ekki gert ráð fyrir að olíustyrkur verði talinn til tekna við álagningu tekjuskatts og eignarskatts.

Í 5. gr. frv. eru nýmæli, þar sem heimilað er að greiða einn aukaolíustyrk árlega á hvert olíukynditæki sem hefur verið hreinsað og stillt. Ekki þótti fært að binda greiðslu olíustyrks því skilyrði að hreinsun og stilling hefði farið fram, m. a. vegna þess að ekki er alls staðar kostur á að fá þetta gert. Þykir rétt að veita þessa heimild, en notkun hennar ýtir undir menn að láta stilla tæki sín, og það er ótrúlega mikill olíusparnaður fólginn í því að gæta þess vel að tæki séu rétt stillt. Það eru ótrúlegar tölur sem maður hefur heyrt um samanburð vanstilltra tækja og hinna, sem eru reglulega stillt af kunnáttumönnum.

Í 6. gr. frv. er ákvæði um að þeir, sem kost eiga á hitaveitu, fjarvarmaveitu eða rafhitun, eigi ekki rétt á olíustyrk. Áður náði samsvarandi ákvæði aðeins til þeirra sem kost áttu á hitaveitu. Þetta nýja ákvæði er sérstaklega sniðið til að stuðla að æskilegri þróun í nýtingu innlendra orkugjafa í stað olíunnar.

Ákvæði 7. gr. eru óbreytt frá gildandi lögum að öðru leyti en því, að ákvæði um olíustyrk vegna skólahúsnæðis á við um allt skólahúsnæði sem kynt er með olíu, en ekki eingöngu heimavistarskóla á grunnskólastigi eins og verið hefur. Þá er viðmiðun varðandi styrkupphæðina nokkuð breytt.

Í 8. gr. frv. felst ákvæði, sem er óbreytt frá gildandi lögum, um að sveitarfélög annist úthlutun olíustyrkja. Nýmæli er um ársfjórðungslega skilagrein, úthlutun olíustyrkja og skyldu orkusala til upplýsingagjafar. Í grg. frv. er kveðið á um að í reglugerð um framkvæmd laganna verði sett ákvæði um framkvæmd og eftirlit með greiðslu olíustyrkja. Ég tel nauðsynlegt að herða á öllu eftirliti til að koma í veg fyrir misnotkun og hafði raunar gert ráð fyrir því, áður en þetta frv. var útbúið, að það yrði gert sérstakt átak af hálfu viðskrn. til að herða allt eftirlit með framkvæmd þessara laga, m. a. með því að senda eftirlitsmann til þess að athuga hvernig framkvæmdinni væri háttað í hinum einstöku sveitarfélögum. Það er að sjálfsögðu með þessi lög eins og mörg fleiri hætta á misnotkun í framkvæmd og þess vegna þarf að hafa strangt eftirlit með framkvæmdinni.

III. kafli fjallar um orkusparnað. Það mun hafa verið árið 1977 sem hafin var skipuleg áætlunargerð um fjarvarmaveitur á þeim þéttbýlissvæðum sem ekki höfðu von um jarðvarma. Sá kafli, sem hér er um að ræða, er í fimm greinum og fjallar um áætlunargerð í þessum málum, námskeiðahald um þætti sem varða hagkvæma orkunýtingu í húshitun, um að fræðslu- og upplýsingastarfsemi um orkusparnað verði haldið uppi og síðan um heimild til að veita sveitarfélögum, þar sem olía er notuð til húshitunar, styrki vegna tækniþjónustu á sviði orkusparnaðar og til að undirbúa aðgerðir sem stuðlað geta að hagkvæmari orkunotkun. Síðan er nýmæli í 13. gr., sem á kannske frekar heima í lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Kann að vera að það sé komið þar inn, — ég hef satt að segja ekki athugað hvort það var þar þegar frv. var afgreitt frá þessari d., mig minnir að það hafi verið tekið þar inn, — en það fjallar um það að heimilt sé að veita einstaklingum lán til orkusparandi endurbóta á íbúðarhúsnæði sem hitað er með olíu.

IV. kafli frv. fjallar um nýtingu innlendra orkugjafa. Í 14. gr, segir að Orkustofnun skuli í samráði við Rafmagnsveitur ríkisins gera húshitunaráætlun fyrir tímabilið 1981–1983 um nýtingu innlendra orkugjafa til húshitunar í stað olíu.

Í 15. gr. er svo fjallað um það, að til að tryggja að innlendir orkugjafar séu samkeppnishæfir við olíukyndingu sé heimilt að veita varmaveitum framlag til að jafna þann mun sem orkuverð þeirra er metið hærra en sem nemur hitunarkostnaði með olíu að frádregnum olíustyrk. Það mætti e. t. v. segja að í 15. gr. komi fram sú stefnumörkun sem þetta frv. byggir öðru fremur á, þ. e. að gæta þess í meginatriðum að kostnaður við upphitun með olíu að frádregnum olíustyrk verði ekki lægri en þar sem innlendir orkugjafar eru notaðir til upphitunar. Ég held að það sé ákaflega skynsamleg stefna til þess að tryggja að landsmenn hafi áhuga á því að nota í vaxandi mæli innlenda orku til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Það getur í einstaka undantekningartilfellum verið nauðsynlegt að víkja frá þessu, en þetta er skynsamleg stefnumörkun. Hún kann einnig að hafa þau áhrif í sumum tilfellum, að það sé ekki gengið eins langt og við sumir vildum gjarnan gera í að jafna þennan mun, því að munurinn á upphitun með innlendum orkugjöfum í landinu er vissulega verulega mikill, og fer það einkum eftir því, hve langt er síðan mannvirki hafa verið gerð til þeirra hluta, og einnig nokkuð eftir aðstæðum, þannig að það er auðvitað ljóst, að það er erfitt að jafna þetta að fullu. En stefna frv. er við það miðuð að reyna að tryggja það að menn fari ekki í vaxandi mæli að nota olíu til upphitunar vegna þess að það eru háir olíustyrkir.

Í V. kafla eru svo ákvæði um gildistöku og reglugerðarsetningu samkv. lögunum.

Ég skal að lokum víkja nokkuð að kostnaðarhlið þeirra aðgerða sem í frv. felast.

Það er gert ráð fyrir að kostnaður árið 1980 verði sem hér segir, miðað við verðlag í marsmánuði s. l.: Olíustyrkur skv. 4. gr. frv. og núgildandi lögum vegna 1. ársfjórðungs þessa árs 3 760 millj. kr., aukaolíustyrkir skv. 5. gr. frv. 200 millj. kr., skólahúsnæði skv. a-lið 7. gr. frv. 140 millj., rafveitur skv. b-lið 7. gr. 80 millj., aðilar utan samveitu skv. c-lið 7. gr. 20 millj., fræðslu- og upplýsingastarfsemi skv. 11. gr. frv. 20 millj., styrkir vegna ráðgjafarþjónustu skv. 12. gr. 40 millj. og styrkir vegna varmaveitna skv. 15. gr. 200 millj., eða samtals 4 milljarðar 460 millj. kr., en á fjárl. eru 4 500 millj. til ráðstöfunar í þessu skyni.

Í Nd. var samþ. ákvæði til bráðabirgða, sem hv. þm. Eggert Haukdal flutti, svo hljóðandi:

„Í þeim tilvikum, sem hitunarkostnaður með raforku reynist hærri en hitunarkostnaður með olíu að frádregnum olíustyrk, er ríkisstj. heimilað að jafna þennan mismun með sérstökum styrk.“

Í þessum efnum verður að athuga málið vandlega, vegna þess að eins og ég sagði áður er meginstefna frv. fólgin í því, að upphitun húsnæðis með olíu að frádregnum olíustyrk verði yfirleitt ekki lægri en þegar hitað er upp með innlendum orkugjöfum, og það verður að framkvæma lögin í aðalatriðum með tilliti til þessarar meginstefnu þeirra, en þó geta vissulega komið til tilvik sem ástæða er til að taka tillit til.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt meira út af þessu máli að sinni, en mun að sjálfsögðu gefa upplýsingar ef þess er sérstaklega óskað.