21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2965 í B-deild Alþingistíðinda. (2927)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Vegna þess að ríkisstjórnarfundur hefur verið boðaður eftir 10 mínútur þarf ég að víkja af fundi. En mér láðist í framsöguræðu minni að gera till. um það, hvert ætti að vísa frv. Ég vil gera það að till. minni, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til fjh.- og viðskn. Það var svo í Nd. og ástæðan fyrir því er sú, að meginatriði frv. fjallar að sjálfsögðu um olíustyrkinn og framkvæmd á honum og af þeim 4500 millj. kr., sem eru til ráðstöfunar í þessu skyni eða til framkvæmda þessu máli á fjárlögum, er gert ráð fyrir 4000 millj. beinlínis til olíustyrksins, þannig að það er að mínu mati meginmál þessa frv.

Hitt er annað, að það er eðlilegt, þar sem um er að ræða tækniatriði samkv. tveimur köflum frv., að framkvæmd á þeim heyri undir iðnrn. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að reglugerð um þau efni verði sett af iðnrh., en að um framkvæmd olíustyrksins og greiðslur á honum og eftirlit með honum verði sett reglugerð af viðskrh. Það eru mörg fordæmi fyrir því, að svo sé farið að. Í lögum, sem voru samþykkt á Alþ. í fyrravetur, var t. d. gert ráð fyrir að fjöldamörg ráðuneyti eða ráðh. gæfu út reglugerð til framkvæmdar á einum og sama lagabálkinum.

Herra forseti. Ég geri sem sagt að till. minni að frv. verði vísað til fjh.- og viðskn.