21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2966 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til þess að vera með langar umr., að mér finnst, við þessa 1. umr. um frv. til l. um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar. Í mínum huga þjónar þetta frv. tvennum tilgangi. Við erum að leitast við að taka af sárasta broddinn vegna þess kostnaðar, sem fylgir upphitun húsnæðis með olíu, og í annan stað felur frv. það í sér, að menn eru að leitast við að draga úr olíunotkuninni m. a. samkv. 5. gr., þ. e. að veita olíustyrk vegna stillingar kynditækjanna.

En ég stend hér upp til þess eins að ýja að 4. gr. þessa frv., þar sem segir að olíustyrkir skuli greiddir húsráðanda ársfjórðungslega vegna þeirra íbúa sem hafa fasta búsetu (lögheimili) í viðkomandi íbúð meiri hluta styrkstímabils. Í skýringum við 4. gr. stendur, með leyfi forseta: „Hér er kveðið á um að olíustyrkir skuli greiddir húsráðanda, þ. e. eiganda eða leigjanda húsnæðis, en ekki hverjum framteljanda til skatts.“

Mér hefur dottið í hug hvort ekki gæti orðið um það að ræða, þar sem um er að ræða stórar fjölskyldur eða fleiri íbúa en einn, en um væri að ræða jafnframt einn húsráðanda, hvort sumir gætu skotið sér þarna undan og fjölgað húsráðendum. Í stórum fjölskyldum væri hugsanlega um það að ræða að gera fjölskyldumeðlimi að leigjendum. Ég varpa þessu hérna fram aðeins til skoðunar. Hugsanlega getur ráðh. skýrt þetta út ef hann stendur hér upp á eftir.

Út af fyrir sig hef ég ekki fleiri athugasemdir við þetta frv. Það hefur komið fram í umr. hér á Alþ. í vetur, að þarna væri bráður vandi sem þyrfti að leysa, þ. e. að koma til móts við fólkið sem þarf að kynda hús sín með olíu. Í þeirri umfjöllun, sem þetta frv. fékk í Nd., var það skoðun flestra, að lengra væri ekki hægt að ganga í niðurgreiðslunni með tilliti til annarra orkugjafa við værum komnir þarna að ákveðnum efri mörkum. Ég er í þeim hópi sem hefur þá skoðun á þessum málum.