21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2967 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér er til umr., er margþætt mál og flókið að ýmsu leyti. En þó er meginefni þess skýrt og meginstefna þess skýr: að koma á jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar þannig að þeir, sem búa við olíukyndingu íbúða sinna, þurfi ekki að sæta þeim afarkostum að greiða fullt verð fyrir þá orku eftir þær gífurlegu hækkanir á olíu sem orðið hafa á síðustu mánuðum og árum.

Ég hygg að allur þingheimur sé í raun sammála um þessa meginstefnu frv. Og þótt ég undirstriki það, að ég er algjörlega sammála því, þá held ég að það sé næstum óþarfi, því að svo margir hafa lýst sig stuðningsmenn þeirrar meginstefnu sem í þessu frv. felst.

Það er dálítið athyglisvert í þessu sambandi að gera sér grein fyrir því, hvernig verðþróun hefur orðið á olíu undanfarna áratugi. Og af því að hæstv. viðskrh. er viðstaddur umr. og hann hefur gaman af tölum, bæði hér að heiman og úr útlöndum, þá vil ég upplýsa hann um það, að olía til húshitunar kostaði 1.08 kr. 1960, en hún kostaði 1. mars s. l. 155.20 kr. Hér er um að ræða á þessum 20 árum 143-földun á verði olíu í ísl. krónum (StJ: Það eru ekki sömu krónurnar sem ræðumaður er að tala um.) Nei, en þetta eru íslenskar krónur sem ég er að tala um, það er 143-földun. (StJ: Þú verður að fara nánar út í þetta ef þetta á að vera upplýsandi fyrir okkur.) Já, ég kem nánar inn á það, hv. þm. Stefán Jónsson. Ég mun fara mjög ítarlega í þetta mál. (StJ: Ég er feginn að heyra það.) Á þessum síðustu og alvarlegustu tímum er rétt að ræða mál ítarlega. Það er rétt að taka það fram, að hér er ekki um neitt málþóf að ræða. Þetta mál er þess eðlis, að þarf ítarlega umfjöllun á Alþ., og við hv. þm. í þessari deild höfum sýnt það og sannað, að við erum ekki hér í neinu málþófi. Áðan mælti ég hér fyrir minnihlutaáliti í öðru máli, mjög miklu ágreiningsmáli og máli sem tengist raunar öllum efnahagsmálum þjóðarinnar, og sagði hér aðeins nokkur orð og gerði grein fyrir afstöðu stjórnarandstöðunnar til þess máls, enda hefur það mjög verið rætt hér á hv. Alþingi. Þetta sýnir gjörla að við hv. þm. Sjálfstfl., þeir sem eru í stjórnarandstöðu, við erum hér ekki í neinu málþófi, en við viljum gjarnan hafa tækifæri til þess að ræða nokkuð nákvæmlega þau mál sem eru lítið rædd í þinginu og lítið rædd í þessari deild.

Ég skal nú víkja aftur að þessu með verðið á olíu til húshitunar. Hún hefur sem sagt hækkað þetta mikið í verði á þessum tíma. (Gripið fram í: Hvað mikið?) 143-faldast. En það er það merkilega, að ef við tökum dæmi um verðhækkun á annarri vörutegund á þessum tíma, þá hefur verð á ýsuflökum til neytenda 150-faldast á þessum sama tíma. Það hefur því ýmislegt hækkað í þessu landi annað en olía til húshitunar. Nú er ég ekki með þessu að draga úr nauðsyn þess að koma þarna til aðstoðar, hlaupa undir bagga. (StJ: Ýsuflök koma ekki í staðinn fyrir olíu.) Nei, ýsuflök eru ekki mjög eldfim, þannig að það er ekki hægt að nota þau í þeim skilningi til upphitunar, en hins vegar er hægt að neyta þeirra og þá eru þau orkugjafi. Var hv. þm. ánægður með þetta svar? (StJ: Já, svo langt sem það nær.) Með þessu dæmi, sem ég tek hér, er ég á engan hátt að sýna fram á að ekki sé nauðsyn að greiða niður olíu til húshitunar, en ég vildi upplýsa hæstv. viðskrh. um þetta af því að hann hefur svo gaman af svona tölum, samanburðartölum af öllu mögulegu tagi, og fór hér mörgum orðum um þær í öðru sambandi.

Ég vil þá gera hér að umræðuefni dálítið sérkennilegt atriði í sambandi við þetta mál, og það eru vinnubrögð hæstv. núv. ríkisstj. í framlögum á fjárlögum til jöfnunar hitunarkostnaðar og hvernig hæstv. ríkisstj. fór að því að taka ýmsa liði, sem voru á fjárlögum á árinu 1979 voru áfram í frv. hæstv. fyrrv. fjmrh. Tómasar Árnasonar, traustataki og eyða þeim í önnur útgjöld ríkissjóðs, en leggja í þess stað á 1.5% söluskatt sem hæstv. ríkisstj. vill verja með því, að það fé renni til þessara þarfa, sem allir eru sammála um að er réttlætismál.

Í frv. hæstv. fyrrv. fjmrh. voru 2.3 milljarðar kr. sem verja átti í því skyni að greiða niður olíu til húshitunar. Þessi upphæð var máð út úr frv. hæstv. núv. fjmrh. Ragnars Arnalds og hæstv. fyrrv. fjmrh. máði út úr sínu fyrsta frv., þ. e. 1. útgáfu fjárlagafrv. fyrir þetta ár, tvær upphæðir, sem voru í fjárlögum 1979 til orkumála af því eina prósenti sem í eina tíð var tekið af söluskatti til þessara þarfa. Þar er um að ræða beina fjárveitingu til styrkingar dreifikerfis í sveitum. Þetta felldi hæstv. ráðh. niður og sú upphæð var í fyrra 220 millj. kr. Á fjárlagaverðlagi í ár yrði þessi upphæð eitthvað nálægt 300 millj. kr. Enn fremur var í fjárlögum fyrir árið 1979 330 millj. kr. upphæð af þessu olíuprósenti sem einu sinni var til þess að hraða framkvæmdum við hitaveituframkvæmdir. Þetta fé gekk til Orkusjóðs og Orkusjóður lánaði þetta fé til hitaveitna. Þarna er um að ræða 330 millj. kr. á verðlagi ársins 1979 og þá tæpar 500 millj. kr. á fjárlagaverðlagi í ár. Þarna er sem sagt um að ræða 800 millj. kr. sem þegar hafði verið fellt niður af framlögum úr ríkissjóði til orkumála, til þess að hraða því að taka í notkun innlenda orkugjafa í stað olíu, og síðan voru 2.3 milljarðar til þess að greiða niður húshitunarkostnað, olíukostnað, olíu til húshitunar. Því var um það að ræða, að hæstv. ríkisstj. hliðraði sér hjá að taka framlög til þessara þarfa, bæði til þess að hraða framkvæmdum við innlenda orkugjafa og eins til þess að greiða niður olíu til upphitunar húsa, sem námu 3–4 milljörðum kr. á verðlagi ársins í ár eða því verðlagi sem fjárlög eru gerð upp á.

Það er því með ólíkindum þegar hæstv. ríkisstj. heldur því fram, þegar söluskatturinn var hækkaður um 1.5%, að það mætti réttlæta með því, að honum ætti að verja til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar. Því fer víðs fjarri, eins og ég hef hér rakið, auk þess sem ýmis önnur framlög til orkumála úr ríkissjóði hafa af samtíma skatttekjum lækkað á sama tíma, ef miðað er við fast verðlag.

Sú viðbára hæstv. núv. fjmrh. fær ekki staðist, að ríkissjóður styrki Rafmagnsveitur ríkisins og Orkusjóð miklu meira á þessu ári en hann gerði í fyrra og því mætti segja að allri upphæðinni, sem 1.5% söluskattshækkunin gæfi, væri í raun varið til jöfnunar og lækkunar hitunarkostnaðar og þá með því fororði, að hluti af því gengi til Rafmagnsveitna ríkisins og þar fengist lægra orkuverð. Þessu er ekki til að dreifa og hér er algjörlega um staðlausa stafi að ræða.

Hæstv. ríkisstj. hefur einfaldlega tekið fé, sem var í fjárlögum, til annarra þarfa og lagt á nýjan skatt að upphæð 1.5%, sem gefur ríkissjóði a. m. k. 6 milljarða kr. í nýjar skattálögur á þessu ári, undir því yfirskini að vera að afla fjár til þess frv. sem hér er til umr. Þetta er eitt af þeim brögðum, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp til þess að reyna að draga einhverja dul á þá miklu og gegndarlausu skattheimtu sem hún hefur staðið fyrir.

Það er athyglisvert í sambandi við þetta frv., að því fylgir mjög góð grg. sem nefnd hefur samið sem sett var á laggir á sínum tíma. Mjög athyglisverðar upplýsingar er að finna í þessu nál. sem birt er sem fskj. með þessu frv. Þar kemur m. a. fram að olíustyrkurinn á að nema 3 milljörðum 760 millj. kr. samkv. 4. gr. og núgildandi lögum vegna 1. ársfjórðungs. En síðan koma aðrir styrkir, aukaolíustyrkir 200 millj. kr., skólahúsnæði 140 millj., framlag og styrkir til rafveitna og varmaveitna 280 millj. og aðilar utan samveitu fá 20 millj., fræðslu- og upplýsingastarfsemi er talin kosta 20 millj. og styrkir vegna ráðgjafaþjónustu 40 millj. Samtals er því verið að verja með þessu frv. 4460 millj. kr.

Og síðan segir: „Ef samþykkt verður að veita lán til einstaklinga vegna olíusparandi endurbóta á íbúðarhúsnæði, sbr. 13. gr., þarf auk ofangreindrar upphæðar að útvega Byggingarsjóði allt að 750 millj. kr. í því skyni, en slíkar lánveitingar eru mjög mikilvægur þáttur í jöfnun hitunarkostnaðar. Samkv. þessu yrði heildarfjárþörf til jöfnunar á hitunarkostnaði 5210 millj. kr.“

Hér er um lán að ræða til húsbyggjenda, þessar 750 millj. sem ég gat um áðan, en ef við tökum aðeins fyrri töluna, 4460 millj. kr., þá er það athyglisvert, að reiknað á sama verðlagi var í rauninni um að ræða fé á fjárlögum, bæði árin 1979 og 1980, í fjárlagafrv., því fyrsta sem fram var lagt 1979, sem slagaði mjög upp í þetta, þannig að hér er sem sagt ekki um það að ræða að ganga öllu lengra en gert var miðað við verðlag á þessum tíma.

Í þessu nál., sem ég sagði áðan að væri mjög fróðlegt, kemur það fram, að í árslok 1978 nutu 65% þjóðarinnar jarðvarma til upphitunar, 12% rafmagns, en 23% notuðu olíu. Það er mjög athyglisvert, að þessi 65% þjóðarinnar, sem notuðu heitt vatn, greiddu á þessu ári, 1978, 6 milljarða kr. fyrir upphitun sinna húsa, 65% þjóðarinnar greiddu 6 milljarða eða 24% af heildarupphitunarkostnaði allra íbúðarhúsa í landinu. 65% þjóðarinnar greiddu aðeins 24% af upphitunarkostnaðinum. Rafmagn höfðu, eins og ég sagði áðan, 12%. Þeir greiddu 4 milljarða til upphitunar í sínum húsum og það eru 16% af heildarkostnaðinum. Þeir, sem kynda hús sín með olíu, eru 23% þjóðarinnar á þessu ári, 1978, og þeir borga 15 milljarða til þess að hita hús sín upp eða 60% af heildarkostnaði við upphitun húsa í landinu. Samtals hafa landsmenn greitt 25 milljarða á þessu ári, 1978, og aðeins 23% af þjóðinni greiða 15 milljarða af því. Hér er því um að ræða augljóst misrétti sem þarf að lagfæra með einhverjum hætti.

Í þessu nál. er lögð á það megináhersla — og ég er sammála því — að það sé höfuðatriði í þessu máli að hraða framkvæmdum við innlenda orkugjafa, bæði hitaveitur og upphitun með raforku. Á þessu sviði, þ. e. þegar verið er að koma til móts við þetta fólk sem þarf að greiða þessar miklu fjárhæðir til upphitunar húsa sinna, verður þó að gæta þess, að það sé ekki gert með þeim hætti að draga úr hvata manna til þess að fara út í slíkar framkvæmdir, bæði hitaveitur og rafveitur. Ég er sammála hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, að það er kannske ekki mikil ástæða til þess að óttast að þeir olíustyrkir, sem ætlunin er að greiða samkv. þessu frv., dragi mjög úr áhuga manna á þessum framkvæmdum. En þó er það athyglisvert, að í fskj, sem fylgir þessu frv. á bls. 13, er sýnt fram á að orka til húshitunar með innlendum orkugjöfum verður dýrari á nokkrum stöðum heldur en olía ef miðað er við fjögurra manna fjölskyldu. Þessir staðir eru Suðureyri og Blönduós. Og síðan er um það að ræða, að raforka frá Orkubúi Vestfjarða og Rafmagnsveitum ríkisins er nánast jafndýr eða ódýreins og um sé að ræða kyndingu með olíu að frádregnum olíustyrk. Ég held að á þessu þurfi að hafa nokkra gát. Það er alveg ljóst, að ef raforka frá Rafmagnsveitum ríkisins verður lengi á svipuðu verði og orka sem fæst með olíukyndingu að frádregnum olíustyrk, þá munu menn náttúrlega veigra sér við að leggja í miklar framkvæmdir, breyta húsum sínum, hitalögnum o. s. frv. Á þessu þarf að hafa nokkra gát, þó ég sé hins vegar sammála því sem fram kom hjá hv. þm. Þorvaldi Garðari Kristjánssyni, að það sé kannske ekki mjög hætt við þessu.

Mér sýnist að það sé tiltölulega auðvelt að meta það, þrátt fyrir slíka olíuniðurgreiðslu, hvaða hitaveitur eru hagkvæmar frá þjóðhagslegu sjónarmiði, og að unnt sé að ráðast í þær og greiða t. d. hluta stofnkostnaðarins niður með einhverjum hætti þannig að hitakostnaður frá þessum hitaveitum verði ekki meiri fyrir einstaklingana heldur en ef menn notuðu olíu til upphitunar að frádregnum olíustyrk. En mér finnst að það sé meira vandamál að gæta þess, að olíustyrkurinn verði ekki til að draga úr áhuga manna á að fá rafhitun. Og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú, að raforka til upphitunar húsa er á tiltölulega háu verði. Komi ekki stuðningur frá ríkisvaldinu í formi óafturkræfra framlaga hafa Rafmagnsveitur ríkisins ekki bolmagn til þess að lækka sina taxta til húshitunar meira en orðið er og þess vegna tel ég enn óljósara hvaða áhrif greiðslur olíustyrkja hafa á framþróun í því að nota raforku til upphitunar heldur en þegar um er að ræða hitaveitur.

Það er ætlunin að fylgjast með þessu hvoru tveggja, að mér skilst, hvaða áhrif olíustyrkirnir hafa á þá hvöt að ráðast í framkvæmdir við innlenda orkugjafa, bæði að því er varðar hitaveitur og rafmagnsveitur. En ég er ekki alveg viss um — og það vafðist fyrir hv. fjh.- og viðskn. þegar hún ræddi þetta mál á sameiginlegum fundum sínum — hvernig með þetta á að fara, hvernig best verður í þessari lagasetningu sett undir þann leka, að svo kynni að fara að þessi olíuniðurgreiðsla gerði innflutta olíu jafnvel hagkvæmari á stundum fyrir menn til upphitunar húsa heldur en kostnaðarverð orku frá innlendum orkugjöfum mundi vera. Nefndin hafði af þessu nokkrar áhyggjur og velti þessu máli einna lengst fyrir sér, og satt best að segja er ég ekki enn þá sannfærður um að þær breytingar, sem gerðar voru á þessu frv., setji nægjanlega undir þennan leka.

Nefndin ræddi einnig ýmsa aðra þætti þessa máls, en ég skal ekki fjölyrða um það.

Herra forseti. Ég hef fjallað hér nokkuð um þetta viðamikla mál og skal ekki lengja mál mitt úr hófi fram. En af því að ég hef hér gagnrýnt sérstaklega einn þátt þessa máls, að ekki sé nægjanlega mikill sveigjanleiki gagnvart því vandamáli, ef olíustyrkirnir gera innlenda orkugjafa ekki nógu hagkvæma fyrir menn, þá skal ég aðeins fara nokkrum orðum um þau ákvæði frv. sem mér sýnast vera til bóta.

Það er þá fyrst um 4. gr. að segja, þar sem er kveðið á um greiðslu á olíustyrkjum, að ég held að hún sé í meginatriðum til bóta frá því sem nú er. Ég hef satt að segja alltaf verið heldur gagnrýninn á það, hvernig olíustyrkurinn hefur verið greiddur á undanförnum árum. Þó er það við hana að athuga, að hún er nokkuð flókin, og ég víl taka hér undir það sem kom fram hjá hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni, að framkvæmdina á henni þarf að skoða í ljósi reynslunnar þegar nokkrir mánuðir eru liðnir af framkvæmdatímanum á þessari grein.

En svo að ég komi að því sem ég tel vera til bóta í þessu frv., þá sýnist mér að þær hugmyndir, sem hér eru settar fram um orkusparnað, séu allra góðra gjalda verðar og mjög mikils vert að þær komist til framkvæmda. Þessar till. eru, eins og hv. þm. vita, fólgnar í ýmsu, betri einangrun húsa, í því að styrkja menn til þess að stilla kynditæki sín og í ýmiss konar tækniþjónustu o. s. frv. Hér er sem sagt um merk nýmæli að ræða, sem að vísu eru ekki beint nýmæli í þessu frv., því að eins og hv. þm. Þorvaldur Garðar Kristjánsson kom inn á er bryddað upp á þessum hugmyndum í frv. sem hann flutti hér fyrr á þessu þingi.

Herra forseti. Ég sagði áðan að ég vildi ræða þetta mál nokkuð ítarlega. Ég nefndi það á hinn bóginn, að ekki væri ætlun mín né annarra þm. að tefja tíma Alþingis úr hófi fram eins og sakir standa. Þó að okkur skiljist nú hér sumum þm, að tíminn sé nægur og að þing muni e. t. v. standa fram að Jónsmessu, þá er kannske ekki ástæða til þess að tefja störf deildarinnar meira með því að ræða þetta mál. Skal ég því láta máli mínu lokið að sinni.