21.05.1980
Efri deild: 99. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 2976 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls um þetta frv. Allir eru þeir í öllum aðalatriðum sammála um það frv. sem hér liggur fyrir, þó að þeir hefðu kannske kosið að hafa einstök atriði á annan veg, eða jafnvel að bæta öðru við.

Hv. 4. þm. Vestf. flutti hér ágæta ræðu um þetta mál. Hann kallaði frv. sitt, sem hann flutti ásamt mér og fleiri hv. þm. hér í d., djásn, og get ég mjög vel tekið undir það. Það var frábært frv. (ÞK: Já, borið saman við þetta.) Það voru ekki mín orð. (ÞK: Ég vildi ekki taka meira upp í mig en svo.) Ég get vel tekið undir það. En það er ekki þar með sagt, að það sé eina djásnið í veröldinni. Þau geta verið fleiri. (ÞK: Já, já.) Hv. þm. lýsti yfir stuðningi við þá stefnu sem kemur fram í þessu frv., sérstaklega varðandi 4. gr., sem er kannske mergurinn málsins, þar sem um er að ræða olíustyrkina og fyrirkomulag þeirra. En þar er um að ræða ákvæði sem ég held að séu samhljóða eða svipuð þeim sem voru í frv. sem hann minntist á og við fluttum hér í vetur.

Þá minntist hann nokkuð á málefni sem komu fram í brtt. í Nd. varðandi olíustyrki til upphitunar atvinnuhúsnæðis, skóla og annarra menningarstofnana, sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, enn fremur til hitaveitna, sem nota olíu sem orkugjafa, og rafveitna, sem nota olíu til framleiðslu rafmagns og upphitunar húsa. Þessi till. var ekki samþ. í Nd. Það er erfitt að vera á móti þessari till. í sjálfu sér, en það verður þó að líta á hana í samhengi við málið í heild. Og það verður að segja það eins og það er, að miðað við þá fjármuni, sem eru á þessu ári í fjárlögum, dreg ég í efa að þeir verði nægir til þess að bæta við útgjöldum í sambandi við frv. Ég lýsti því yfir í Nd. og skal endurtaka þá yfirlýsingu hér, að ég mun láta kanna þessi atriði sérstaklega í sumar og fylgjast jafnframt með því, hvernig reiðir af þeim fjármunum sem eru fyrir hendi, miðað við þær skyldur sem frv. leggur ríkissjóði á herðar. Þó að það fylgi allítarleg áætlun um þetta, þá er best að segja það eins og það er, að auðvitað verður ekki til fulls sagt um það, hversu mikil útgjöld verða samkv. þessu frv., fyrr en árið er liðið eða a. m. k. fyrr en menn sjá hvernig þetta kemur út eftir fyrsta ársfjórðunginn sem frv. gildir um.

Hv. þm. Egill Jónsson gerði ráð fyrir því, að það yrði kannske eitthvað afgangs í þessum efnum. Ef svo færi yrði ég fyrir mína parta reiðubúinn til að athuga þau atriði sem hv. 4. þm. Vestf. fjallaði sérstaklega um og brtt. flutt í Nd. af hv. þm. Sverri Hermannssyni og Matthíasi Á. Mathiesen fjallaði um. Get ég fyrir mína parta lofað því að fylgjast náið með framvindu þessara mála með tilliti til þess arna.

Síðan gerði hv. 4. þm. Vestf. að umræðuefni heimildir 7. gr. Ég get þegar sagt það, að ég geri ráð fyrir að heimildir þær til styrkveitingar, sem viðgengist hafa, verði nýttar. Í þeirri áætlun um útgjöld, sem fylgir frv. í grg., er einmitt gert ráð fyrir útgjöldum samkv. 7. gr. sérstaklega, öllum þremur liðunum. Meginstefnan í þessu frv., sem kemur náttúrlega fram í 4. gr. og síðan 15. gr., er sú að haga styrkveitingum þannig að upphitunarkostnaður með olíu að frádregnum olíustyrk verði að jafnaði ekki lægri en upphitun með innlendum orkugjöfum. Það eru mörkin sem menn eru að reyna að þræða í þessum efnum. Hinu er ekki að leyna, að með því að ákveða þetta viðgengst verulegur mismunur á kostnaði við upphitun í landinu þegar af þeirri ástæðu að mismunurinn er gífurlega mikill á milli einstakra hitaveitna, eins og kunnugt er og kemur fram hér í töflu sem fylgir frv.

Hv. 4. þm. Vestf. minntist á lánsfjáráætlunina og vissar framkvæmdir í sambandi við hana, m. a. á Vestfjörðum, í hans kjördæmi. Ég skal taka undir það með honum, að mikil nauðsyn er á því að hraða orkuframkvæmdum, bæði hitaveitu- og fjarvarmaveituframkvæmdum og svo að sjálfsögðu byggingu orkuvera. En þó eru takmörk fyrir því, hvað menn geta tekið mikið fyrir á þessu ári, vegna þess að við höfum ekki fjármagn, nema þá erlent fjármagn, og verðum þá annaðhvort að bæta við fyrirhugaðar erlendar lántökur eða draga úr einhverju öðru. Og það er best að segja það eins og er, að þegar menn gerðu þetta dæmi upp við sig, hvað ætti að taka í lánsfjáráætluninni, þá voru nokkrar fjarvarmaveitur sem urðu að bíða, þ. á m. þær sem hv. þm. gerði að umræðuefni, en eru áreiðanlega hin þörfustu mál.

Hv. þm. Davíð Aðalsteinsson, 3. þm. Vesturl., gerði að umræðuefni m. a. 4. gr. um húsráðendur og skilgreiningu á því, hverjir ættu rétt á olíustyrk. Það er nokkur leiðbeining í grg., að ég hygg, um 4. gr., þar sem segir: „Hér er kveðið á um að olíustyrkir skuli greiddir húsráðanda, þ. e. eiganda eða leigjanda húsnæðis.“ Það segir hins vegar ekki: „eiganda og leigjanda húsnæðis“ heldur „eða leigjanda húsnæðis.“ Um þessi atriði má að sjálfsögðu kveða fastar að í reglugerð. Og skýra betur þannig að ekki verði um villst. Það verður tekið til athugunar.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. ræddi einnig um meginstefnuna og lýsti yfir stuðningi við hana, — meginstefnuna sem kemur fram í frv., ekki aðeins varðandi olíustyrkinn og það fyrirkomulag sem þar er gert ráð fyrir, heldur taldi hann einnig til bóta — og raunar allir þeir þm. sem tekið hafa til máls — ákvæði um orkusparnað og um nýtingu innlendra orkugjafa, þó að hv. 11. landsk. þm. hafi dregið í efa að kostnaður vegna upplýsingastarfsemi t. d. ætti að ganga fyrir olíustyrkjum, ef ég man rétt. Það er auðvitað álitamál. Þegar verið var að semja um þetta frv., — auðvitað er samið um alla hluti í samsteypustjórnum, eins og hv. þm. er kunnugt um, — taldi ég orka tvímælis í sambandi við 11. gr. hvort ástæða væri til þess að ákveða í lögum að viss hundraðshluti af áætlaðri heildarupphæð olíustyrkja yrði notaður til fræðslu- og upplýsingastarfsemi. Ég dreg í efa satt að segja að það sé ástæða til þess. Það mætti hafa það í heimildarformi. En það var lögð á þetta mikil áhersla, ekki síst af hæstv. iðnrh. sem á mikinn þátt í samningu þessa frv. Hann lagði mikla áherslu á að ekki yrði undan því vikist að halda uppi verulegri fræðslustarfsemi í sambandi við orkusparnað og orkunýtingu, og er það auðvitað alveg rétt sjónarmið.

Ég sé ekki ástæðu til að lengja mál mitt um þetta efni. Það er enginn pólitískur ágreiningur um þetta mál, þó að mönnum sýnist sitt hvað um einstök atriði. Ég vil endurtaka þakkir mínar til hv. þm. fyrir undirtektir þeirra við málið. Það er ástæða til þess að hraða þessu máli í gegnum þingið vegna þess að það þarf að semja reglugerð samkv. frv. þegar það hefur hlotið afgreiðslu. Og það fer að koma að því að framkvæma frv. og það er slæmt ef það dregst lengi úr þessu að það nái hér fullnaðarafgreiðslu.