21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3035 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég kem hér aðeins vegna þess að óskað var svara við tilteknum fsp. frá hv. þm. Halldóri Blöndal, fyrst og fremst varðandi Kröfluvirkjun. Hann spurði hvort því mætti treysta, að fyrir það fjármagn, sem gert er ráð fyrir á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun í ár, verði hægt að framkvæma þá fyrirætlan að bora og koma í gagnið tveimur holum fyrir Kröfluvirkjun miðað við að þær lukkist og séu virkjanlegar. Sú áætlun, sem samþykkt var af ríkisstj. og gerði ráð fyrir 1750 millj. kr., miðaðist við þetta markmið. Sú skerðing, sem gerð var á þessari upphæð eins og öðrum upphæðum lánsfjármagns til framkvæmda, setur þetta e. t. v. í einhverja tvísýnu, en ég vona að það takist þó með einhverjum hætti að tryggja að um tengingu á þessum holum verði að ræða, miðað við að árangur náist. Ég mun a. m. k. vinna að því. Í frumtillögum iðnrn. vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar var óskað eftir fjármagni til þess að hægt væri að bora þrjár holur fyrir Kröfluvirkjun í ár og tengja tvær, og var sú upphæð talin 2 350 millj. kr., en eins og varðandi fleiri mjög æskilegar og raunar brýnar framkvæmdir í raforkumálum var vegna annarra sjónarmiða, heildarsjónarmiða varðandi erlendar lántökur, ekki orðið við þessu til fulls, svo að þessi varð niðurstaðan.

Þá spurði hv. þm. hvort jarðbor yrði tiltækur fyrir Hitaveitu Akureyrar vegna þess að bor, sem þar var að störfum, var lánaður til Kröfluvirkjunar fyrir skömmu eða þangað fluttur, — bor sem raunar er í eigu jarðborana ríkisins og ráðstafað af Jarðborunum, en hafði verið að verki fyrir Hitaveitu Akureyrar um hríð. Ég veit ekki annað en þetta hafi verið gert í fullu samráði við stjórn Hitaveitu Akureyrar og að von sé til þess, að tæki þetta komi til baka áður en mjög langt um líður. Það eru að vísu margir sem vilja fá borað um þessar mundir, m. a. fékk ég tilmæli um það frá einum þm. Norðurlandskjördæmis eystra að athuga hvort bor þessi gæti haft viðkomu í Aðaldal og gripið þar í verk fyrir bændur sem óska eftir jarðborun, en ég hygg að við því sé ekki hægt að verða að þessu sinni og hann hverfi til baka til Eyjafjarðar eftir viðgerðir á holum fyrir Kröfluvirkjun, þar sem hann er nú kominn eða á leiðinni til verka.

Það mætti ýmislegt segja um Jarðboranir ríkisins og þau verkefni sem þar liggja fyrir, en ég ætla ekki að lengja hér umræðuna með því.

Þá spurði hv. þm. Halldór Blöndal hvort vænta mætti þess, að borað yrði við Raufarhöfn á Melrakkasléttu, en þar hefur verið óskað eftir borun á rannsóknarholu til að kanna hugsanlega hitaveitumöguleika fyrir Raufarhöfn. Iðnrn. hefur tekið jákvætt undir erindi sveitarstjórnar þar að lútandi, og svo vill til að nú fyrir fáum dögum var ég að kynna mér stöðu þessa máls. Nokkur tvísýna er um þetta vegna þess að ekki fékkst á þessu sviði eins og á ýmsum fleiri sú fjárveiting sem við í iðnrn. töldum æskilegt að fá til jarðhitaleitar, en þrátt fyrir þröngan hag mun ég kanna nú alveg á næstunni hvort ekki verði hægt að koma þessu verki að fyrir þá Raufarhafnarbúa vegna þess að þeim hafði verið gefið vilyrði um slíkt. Ég tel eðlilegt að eitthvað af því fjármagni, sem til jarðhitaleitar er varið, gangi til verkefna af þessu tagi, þótt ekki séu taldar líkur á að það skili vinnsluhæfum jarðvarma í upphafi. Hér er um að ræða framkvæmd sem kostar 35 millj. kr. samkv. upplýsingum sem ég hef fengið frá Orkustofnun.

Ég vil svo aðeins segja það vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið í umræðum, bæði hjá hv. þm. Halldóri Blöndal og hv. síðasta ræðumanni og fleiri aðilum sem hafa hér rætt um gjaldskrár orkufyrirtækja, að ég get á marga lund tekið undir þau viðhorf sem þar hafa komið fram, að það er mjög erfitt að standa milli steins og sleggju eins og stjórnvöld gera. Það er ekki nýtt fyrirbæri nú í sambandi við ákvarðanir að þessu leyti, og ég tel að það sé æskileg stefna að verðleggja orku þannig að um eiginfjármyndun sé að ræða hjá fyrirtækjum og þau geti lagt fram í sínar framkvæmdir af eigin fé og orka sé verðlögð með skynsamlegum hætti. En allir vita um ástæðurnar fyrir því, að menn reyna þarna að feta, má kannske segja, bil beggja milli hömlunarsjónarmiða gegn verðhækkunum og hins að þrengja ekki svo kosti þessara fyrirtækja að þau verði óstarfhæf. Menn getur eflaust greint á um hvar meðalhófið liggi, og ég tel að það væri mjög æskilegt að ná samkomulagi um breytingar á mati á áhrifum af slíkum hækkunum á verðbótavísitölu. Ég tel að það sé réttmætt að þreifa á slíku og leita möguleika á samstöðu um að fá þar fram breytingu frá núverandi horfi, því ég tel það ekki almenningi til sérstaks framdráttar að viðhalda kerfi sem setur þjónustufyrirtæki af þessu tagi sí og æ í erfiðleika. Ég tel það út af fyrir sig ekki gagnlegt að vera að metast á um það milli ríkisstjórna um þessi efni. Ég hygg að þeir, sem nú eru í stjórnarandstöðu og hafa haldið um stjórnvöl áður, minnist þess, að þeir hafi verið í svipuðum sporum og stjórnvöld nú hvað þetta snertir. Ég ætla ekki að fara að rekja þar einstök dæmi, en ég hygg að hv. þm. Geir Hallgrímsson muni eftir stöðunni 1977 og 1978 að þessu leyti. Þá var gengið nær t. d. Landsvirkjun í sambandi við verðlagningu heldur en gert hefur verið á undanförnum misserum að mínu mati. Þetta vildi ég að fram kæmi sem viðhorf af minni hálfu í sambandi við þetta efni.