21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3041 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Nál. á þskj. 568. felur í sér afstöðu hv. félmn., sem auðvitað er góðra gjalda verð og nokkurs virði að fram komi, enda felast í henni undirtektir við orð mín við fjárlagaafgreiðslu varðandi þá sjóði öryrkja, sem skertir voru við fjárlagaafgreiðsluna, og eins undirtektir við skoðun mína þegar ég mælti fyrir brtt. við frv. við 1. umr. um þetta mál. Fyrir mér er það ekki nægjanlegt að slíkt liggi fyrir í nál., miðað við fyrri reynslu af þessum málum og því fjármagni sem til þeirra hefur runnið, og því legg ég áherslu á að brtt. mín á þskj. 524 verði samþykkt, sem ég flyt ásamt hv. þm. Árna Gunnarssyni, þannig að trygging fáist fyrir því að a. m. k. 225 millj. kr. viðbótarfjármagn verði veitt til þessara mála á næsta ári, eins og þar kemur fram.

Hv. þm. Alexander Stefánsson sagði að fulltrúar þroskaheftra, sem hefðu komið á fund n., hefðu verið meðmæltir þessu frv., enda var náttúrlega ekki annað hægt vegna þess að við afgreiðslu fjárlaga féll niður sá sjóður sem hefur staðið undir þessum verkefnum, og ef þetta frv. kæmi ekki til eða þessi breyting, sem það felur í sér, stæðu vistheimili eða sjálfseignarstofnanir þroskaheftra uppi þetta árið án fjármagns. En þessir fulltrúar, sem komu á fundinn, lögðu jafnframt til og lögðu áherslu á að samhliða þessu frv. yrði samþ.brtt. sem ég hef flutt á þskj. 524. — Þetta vildi ég láta koma fram.