21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal hafa mitt mál örstutt. Ég vil aðeins, eins og aðrir þeir sem hér hafa talað og sæti eiga í þessari hv. n., lýsa því yfir að ég styð þessa till., en verð jafnframt að láta það koma fram, að þetta mál er þannig vaxið að í raun er verið að mínu áliti að bjarga hæstv. ríkisstj. frá því sem skeði þegar fjárlög voru lögð fram, en þá kom óvænt í ljós skilningur hæstv. fjmrh., reyndar þriggja sem lögðu fram hver sitt fjárlagafrv., að þeir skýrðu lögin með þeim hætti sem kom síðar í ljós að ekki stenst.

Í fjárlagafrv., sem lagt var til grundvallar að síðustu, segir svo um Framkvæmdasjóð öryrkja og þroskaheftra, með leyfi forseta:

„Með lögum nr. 47/1979, um aðstoð við þroskahefta, var stofnaður Framkvæmdasjóður öryrkja og þroskaheftra og er hann í vörslu félmrn. Tekjur sjóðsins eru m. a. árlegt framlag ríkissjóðs, a. m. k. einn milljarður, og skal sú fjárhæð hækka í hlutfalli við verðlagsvísitölu miðað við árið 1979 að grunni. Framlag ríkissjóðs samkv. frv. er 1 milljarður og 20 millj. og hefur þá verið tekið tillit til áætlaðrar verðlagshækkunar á árinu 1980 og 15% skerðingar.“

Hér geri ég hlé á lestrinum til þess að benda á að í raun var lögð til grundvallar vísitala sem fjvn. — eða a. m. k. hluti hennar — taldi ranga viðmiðun, því það var tekið mið af 1. des. í stað þess að miða við þann tíma þegar frv. var samþykkt, á miðju ári, auk þess sem þessi sjóður sætti skerðingu eins og aðrir sjóðir, og við því er kannske minna að segja. Áfram segir síðan:

„Hlutverk sjóðsins er að fjármagna ýmsar framkvæmdir til styrktar á aðstöðu og búnaði stofnana er sinna málefnum öryrkja og þroskaheftra. Frv. þetta miðast því við það að nokkur framlög falli niður sem hafa verið færð undir félmrn. og menntmrn., þ. e. til Styrktarsjóðs fatlaðra, til Styrktarsjóðs vangefinna, til byggingar skóla fyrir þroskahömluð börn, byggingarstyrkur til Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, og stofnkostnaður á liðnum Stofnanir afbrigðilegra barna.“

Þannig lá þetta fyrir, og það er alveg rétt, sem hér hefur komið fram, að þetta kom mörgum aðilum á óvart og í opna skjöldu, einkum þeim sem töldu sig með samþykkt laganna á næstliðnu þingi vera að gera stórar bætur á stöðu þeirra sem hér eiga hlut að máli. Með þessum brtt. er verið að bjarga þessu máli í höfn. Það var, eins og kom fram hjá hv. frsm., haft samband við landssamtökin og menn féllust á þessa lausn, en það er alveg ljóst, að ef standa á við það sem ég held að hv. Alþ. hafi ætlast til á sínum tíma, þá verður að sjálfsögðu að samþykkja jafnframt þá till. sem liggur fyrir frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og Árna Gunnarssyni.

Ég minni á það í þessu sambandi, að það var sérstakt áhugamál nokkurra þingmanna Sjálfstfl. á þingi, sem kom þessu máli til hjálpar á sínum tíma. Þeir menn eru nú í þeim áhrifastöðum að það er hægur vandi að koma þessu máli áleiðis. Tel ég þar auðvitað fremstan í flokki hæstv. forsrh. sem ávallt hefur staðið við orð sín.