21.05.1980
Neðri deild: 83. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2972)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og ljóslega hefur komið fram í atkvgr. nú undanfarið hafa stjórnarandstæðingar hvað eftir annað þurft að hlaupa undir baggana með hæstv. ríkisstj. til þess að hún geti komið málum hér fram. Þrátt fyrir það að hæstv. ríkisstj. hafi lagt slíka áherslu á að hafa fundi hér á Alþingi að brátt sé liðið á þriðja tíma nætur og fyrirhugað að halda áfram, þá hefur mæting stjórnarliða hér í þinginu nú í kvöld verið slík, að jafnvel hæstv. fjmrh. hefur verið fjarverandi meginhluta atkvgr. um frv. til lánsfjárlaga.

Ég held að hæstv. forseti og ríkisstj. verði að taka tillit til þrenns í þessu sambandi: 1) Við erum búin að sitja hér á löngum fundum núna dag eftir dag fram á miðjar nætur. 2) Það er alveg ljóst að þinglausnir geta ekki farið fram og munu ekki fara fram fyrir hvítasunnu, þannig að fundir verða örugglega einhvern tíma eftir hvítasunnu. 3) Það er engin þörf á að halda til streitu slíku fundarhaldi langt fram eftir nóttu þegar áhugi stjórnarliða á slíku fundarhaldi er ekki meiri en komið hefur fram við atkvgr. nú í kvöld. Þess vegna óska ég eftir því að fá nú upplýsingar frá hæstv. forseta um það, hvernig hann hyggst halda þinghaldi hér áfram í kvöld, og mótmæli því harðlega ef þinghald verður látið standa miklu lengur en orðið er.