22.05.1980
Neðri deild: 84. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3046 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Á þskj. 585 er svofelld till., með leyfi hæstv. forseta: „Enn fremur er fjmrh. heimilt fyrir hönd ríkissjóðs, eftir nánari ákvörðun ríkisstj., að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð eða að taka lán, er komi að hluta eða öllu leyti í stað ríkisábyrgðar, og endurlána þeim aðilum, er standa munu að nýjum iðnaðarverkefnum, að fjárhæð allt að 250 millj. kr.“ — Svo mörg voru þau orð.

Nú er afskaplega óskýrt hvað þarna er átt við, hæstv. fjmrh., og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvað ríkisstj. hefur sérstaklega í huga þegar þarna er talað um að endurlána aðilum sem standa munu að nýjum iðnaðarverkefnum. Hváð þýðir orðið „iðnaðarverkefni“ í þessu sambandi og hvers konar rekstraraðilar eru sérstaklega hafðir í huga?

Ég er ekki svo þingvanur maður að ég muni eftir því, með hvaða hætti sjálfskuldarábyrgðir hafa verið veittar almennt, en ég tel mjög vafasamt að Alþ. veiti með þessum hætti blindandi ríkisstj. heimild til þess að valsa með sjálfskuldarábyrgð handa Pétri eða Páli, einhverjum ótilgreindum mönnum sem við höfum enga hugmyndum hverjir eru. Ég vil einnig sérstaklega minna á það, að þegar núv. hæstv. forsrh. var fjmrh. í ríkisstj. Ólafs Thors, þess mæta manns, þá beitti hann sér fyrir löggjöf um ríkisábyrgðir og hrósaði sér sérstaklega af því m. a. á landsfundum Sjálfstfl. að hafa komið mikilli reglu á þessi ríkisábyrgðamál. Og hann talaði um það, að einungis í algjörum undantekningartilvikum ætti ríkissjóður að veita sjálfskuldarábyrgðir, en einfaldar ábyrgðir skyldu vera reglan.

En þar sem í þessari till. er lagt svona mikið upp úr sjálfskuldarábyrgðinni og hin einfalda ábyrgð ríkissjóðs ekki talin nægja, þá held ég að það sé algjörlega óhjákvæmilegt að ríkisstj. gefi fyllri skýringar á því sem hér er um að ræða:

Í fyrsta lagi, hvað á hún við með „ný iðnaðarverkefni“?

Í öðru lagi, hvaða fyrirtæki hefur hún í huga í þessu sambandi?

Ég vil taka það skýrt fram, að vitaskuld er svona ábyrgðarheimild ekki sett inn í till. út í bláinn. Vitaskuld eru þarna ákveðnir aðilar hafðir í huga. En af einhverjum ástæðum, sem ég skil ekki, er verið að reyna að leyna þingheim því, við hvað er átt í þessu sambandi.