22.05.1980
Neðri deild: 85. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3052 í B-deild Alþingistíðinda. (2999)

Afgreiðsla þingmála

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það er leiðinlegt að margir komi hér í röð til þess að gera aths. við þingsköp. En nú þegar klukkan er að verða þrjú að nóttu, þá að fara að ræða stórt og mikið mál, frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum, að á þessum tíma skuli eiga að fara að ræða þetta mál. Frv. þetta er að vísu til 2. umr. í hv. þingdeild, en í raun og veru hefur það ekkert verið rætt vegna þess að um það varð samkomulag s. l. laugardag, að þetta mál gengi til n. umræðulaust. Við þm. Sjálfstfl. hötum verið ásakaðir fyrir að tefja hér þingstörf. Þeim ásökunum vísum við á bug og eigum eftir að gera það betur við annað tækifæri.

Ég vil taka það fram, að við þdm. höfum átt ágætt samstarf við hæstv. forseta. Ég vonast eindregið til þess, að í þetta samstarf komi nú ekki brestir. Og það er í hendi hæstv. forseta nú að koma í veg fyrir það með því að taka þetta mál út af dagskrá. Ég skil satt að segja ekkert í hæstv. forseta að vera að skeiða svona á milli þeirra mála tveggja sem nú eru á dagskrá. Ef á að halda hér áfram fundarstörfum í nótt, þá er alveg eins gott að ljúka umr. um það mál sem hér hefur nú verið til umr. Ég ítreka þessi tilmæli, að hæstv. forseti láti ekki fara fram umr. um þetta mál nú og leyfi okkur að ganga til náða.