12.12.1979
Sameinað þing: 1. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning Jörundar Brynjólfssonar

Aldursforseti (Gunnar Thoroddsen):

Frá því að þing var rofið á liðnu hausti hefur einn fyrrv. alþm. fallið frá, Jörundur Brynjólfsson. Hann andaðist í Reykjavík mánudaginn 3. des., 95 ára að aldri.

Jörundur Brynjólfsson var fæddur 21. febr. 1884 á Starmýri í Álftafirði eystra. Foreldrar hans voru Brynjólfur bóndi þar Jónsson og kona hans Guðleif Guðmundsdóttir. Á æskuárum naut hann eigi skólakennslu, heldur heimilisfræðslu að hætti þeirra tíma. Fram til tvítugs dvaldist hann eystra og stundaði almenn sveitastörf og róðra.

Vorið 1904 fór hann í Búnaðarskólann á Hvanneyri og lauk búfræðiprófi 1906. Veturinn 1908–1909 stundaði hann nám í Kennaraskólanum og lauk þaðan kennaraprófi um vorið. Um haustið varð hann kennari við barnaskólann í Reykjavík og hélt því starfi til vors 1919, en var á því tímabili við nám í kennaraháskólanum í Kaupmannahöfn í 10 mánuði 1911–1912. Á kennaraárunum samdi hann ásamt Steingrími Arasyni reikningsbók, sem lengi var notuð við alþýðufræðslu. Þeir félagar gáfu einnig út mánaðarblaðið Unga Ísland.

Á því tímabili, sem Jörundur Brynjólfsson var kennari í Reykjavík, voru umbrot í þjóðmálabaráttu Íslendinga. Í frelsismálum þjóðarinnar fylgdi hann Sjálfstfl., sem þá var. En nýir straumar komu til. Árið 1916 ákváðu samtök verkamanna í Reykjavík framboð við bæjarstjórnarkosningar. Jörundur Brynjólfsson fylgdi þeim samtökum að málum, var í kjöri af þeirra hálfu og hlaut sæti í bæjarstjórn. Sama haust var kosið til Alþingis. Jörundur var í framboði fyrir hinn nýstofnaða Alþýðuflokk, náði kosningu og var fyrsti þm. Alþfl. Sat hann þá á Alþingi til 1919.

Hugur Jörundar Brynjólfssonar stefndi að búskap, og vorið 1919 lét hann af kennarastarfi og gerðist bóndi í Múla í Biskupstungum. Þar bjó hann til vors 1922, síðan í Skálholti 1922–1948 og loks í Kaldaðarnesi 1948–1963. Hann bjó stórbúi á höfuðbólum, víkingur að störfum, gestrisinn og greiðasamur.

Eigi leið á löngu eftir að Jörundur hóf búskap í Biskupstungum uns Árnesingar völdu hann til forustu. Hann var í kjöri fyrir Framsóknarflokkinn í Árnessýslu við alþingiskosningarnar 1923, hlaut kosningu og var síðan þingmaður Árnesinga óslitið til 1956. Sat hann á 45 þingum alls. Forseti neðri deildar Alþingis var hann 1931–1942 og 1943–1945 og forseti sameinaðs þings 1953–1956. Hann var kjörinn til ýmissa nefndarstarfa utan Alþingis. Í Norðurlandaráði átti hann sæti 1953. Hann var yfirskoðunarmaður landsreikninga og síðar ríkisreikninga 1917–1925 og 1937–1963.

Jörundur Brynjólfsson lifði langa ævi á miklum breytinga- og framfaratímum þjóðar sinnar. Honum auðnaðist að sitja á Alþingi árið 1918, þegar sambandslögin voru samþykkt og Íslendingar fengu fullveldið viðurkennt og hann var alþm. við stofnun lýðveldis á Íslandi 1944. Hann var í forsæti á Alþingi um langt skeið, röggsamur og skjótráður fundarstjóri. Traustur málafylgjumaður var hann og vann ötullega að framfaramálum héraðs síns. Meðal helstu áhugamála hans við þingstörf voru landbúnaðar- og samgöngumál. Í kappræðum hélt hann fram málstað sínum af fyllstu einurð og var markviss í svörum. Hann naut trausts og vinsælda. Nú er liðið á þriðja áratug síðan hann hvarf úr þingsal eftir merkan starfsferil. Að loknum æviferli er hans minnst með þökk og virðingu.

Ég vil biðja þingheim að minnast Jörundar Brynjólfssonar með því að risa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Aldursforseti kvaddi sér til aðstoðar sem fundarskrifara Lárus Jónsson, 3. þm. Norðurl. e., og Jón Helgason, 3. þm. Suðurl.