22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi umr. fer hér fram, þeim svörum, sem hér hafa fengist, og þeirri skýrslu, sem hér hefur verið skilað.

Sú tilraun, sem gerð var í þessum efnum, tókst áreiðanlega mjög vel, bæði að því er varðaði afkomu í útgerð og eins í vinnslu. Ég sá bráðabirgðaúttekt á afkomu í vinnslunni um það bil sem þessari tilraun var að ljúka, en hugmyndin var sú hjá sjútvn. Ed., þegar hún fól ríkisstj. þetta mál, að skýrslu yrði skilað til nefndar, ekki einungis um veiðarnar, heldur einnig um vinnsluna. Ég vil spyrjast fyrir um hvort þeirri skýrslu hafi verið skilað að því er vinnsluna varðar.

Að því er aðdragandann varðar, er þó eitt atriði sem var ekki nákvæmlega tilgreint í svari hæstv. ráðh., en ég tel ástæðu til að taka fram, og það var varðandi úthlutun leyfisins til þessarar tilraunar. Það var gert þannig, að vinnslustöð var úthlutað leyfi til að velja sér tvo báta. Leyfunum var sem sagt ekki úthlutað til bátanna, heldur til vinnslustöðvarinnar. Ég held að þetta geti verið heppilegt fyrirkomulag í sambandi við áframhald þessarar tilraunar, sem ráðh. hefur boðað og ég tel að rétt sé að gera.

Auðvitað er það svo, að mál eins og þetta er viðkvæmt og að þetta mál hefur verið mjög umdeilt. Skýrslan frá Hafrannsóknastofnun sýnir þó tvímælalaust að það sé hægt að stunda dragnótaveiðar af þessu tagi þar sem einungis sé veiddur koli, en ekki gengið í aðra fiskstofna. En hitt er auðvitað ljóst, að þetta veiðarfæri má misnota. Þess vegna skiptir meginmáli í þessu máli öllu saman að eftirlitið með veiðunum sé gott, og í annan stað held ég að það væri mjög varasamt að stunda þessar veiðar með öðrum hætti en þeim að leyfinu væri úthlutað til vinnslustöðva fyrir mjög takmarkaðan fjölda af bátum. Ég get fallist á það skref, sem ráðh. boðaði, að fjölgað yrði nú upp í fjóra, en ég vara við því að ætla sér að opna þetta eða hafa það eftirlitslaust. Hér þarf áreiðanlega strangt aðhald. Og þó að úthlutun leyfa sé ekki það skemmtilegasta sem menn lenda í þá held ég að það muni vera nauðsynlegt í þessu tilviki og þá með mjög takmarkaðan fjölda báta í huga með tilliti til þess að eftirlitið sé sem öruggast.