22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (3012)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál vil ég taka undir það sem kom fram hjá síðasta ræðumanni. Þegar frv. um dragnótaveiðar var til umr. í hv. Ed. í fyrra var einmitt sleginn sérstakur varnagli í sambandi við það atriði sem ræðumaður minntist á, þ. e. tilraunir væru gerðar með 170 mm möskva.

Ég ætla ekki að fara að halda hér neina sérstaka ræðu um þetta mál að öðru leyti en því, að ég vil minna á að því hefur aldrei verið mótmælt að sú friðun, sem gerð var í Faxaflóa á sínum tíma, hafi borið mjög góðan árangur í sambandi við uppeldi ýmissa fisktegunda hér við land. Það hefur verið viðurkennt af fiskifræðingum að hún hafi borið jákvæðan árangur. Það má vel vera að hægt sé að segja að hér hafi verið um tilfinningamál að ræða, en ég efast um að hægt sé að segja svo, því að margir hafa þarna lagt hönd að verki. Forsaga þessa máls, hvernig búið var að fara með fiskstofna í Faxaflóa, er til á spjöldum sögunnar og er óyggjandi að öllu leyti.

Það, sem mér finnst vera aðalatriðið í þessu máli, er að ekki sé rasað um ráð fram og rannsóknir séu vandaðar á þessu sviði. Ég fagna því þess vegna, að í svari ráðh. kom fram að hann hyggst láta halda þessum rannsóknum áfram í sumar.

Mér finnst ástæða til að benda á og taka undir það, sem raunar kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að víða við landið eru ágæt skarkolamið sem eru vannýtt. En vannýtingin er fyrst og fremst vegna þess að fiskvinnslustöðvar í landinu hafa ekki verið þannig í stakk búnar að þær hafi getað nýtt þessa fisktegund svo að arðbært væri. Þar kemur til sögunnar vélvæðing sem er talinn grundvöllur þess að hægt sé að nýta þessa fisktegund svo vit sé í. Þess vegna þarf að tengja þær ákvarðanir, sem teknar verða, einmitt við þessa vélvæðingu og markaðsmöguleika.

Ég vil endurtaka, að mér finnst ástæða til að vara við því að fara ógætilega í þessum málum. Mjög ítarleg rannsókn á þessu og úttekt þarf að fara fram og birta hana opinberlega. Mér finnst líka koma til greina í sambandi við úthlutun leyfanna að þau séu veitt fiskvinnslustöðvum, það sé mjög takmarkað hvernig þessar veiðar verði leyfðar og þessar rannsóknir verði gerðar víðar en í Faxaflóa. En að fara varlega er númer eitt.