22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3063 í B-deild Alþingistíðinda. (3013)

138. mál, tilraunaveiðar með dragnót

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að efna til neinna umr. um þetta mál. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans og fagna þeirri niðurstöðu sem hann hefur komist að. Að vísu hafa komið fram hér atriði sem gætu orðið til þess að málið yrði rætt nánar. Þ. á m. kom fram í ræðu hv. fyrrv. sjútvrh., að hann taldi af hinu góða að ekki væri úthlutað leyfum beint til einstakra báta, en lausnin væri fólgin í því að veita þau vinnslustöðvunum. Ég spyr: Er einhverja algilda reglu að finna um það, að einhver ákveðin vinnslustöð sé öllum öðrum fremri hvað varðar að fá slík leyfi, þar sem margar vinnslustöðvar eru á staðnum? Ég veit að pólitískir ráðh. geta kannske fundið slíkt út, en ég fæ ekki séð að það liggi frekar ljóst fyrir en með vélbátana sjálfa og þá fiskimenn sem af veikum mætti hafa frá örófi alda reynt að eignast atvinnutæki sín sjálfir og viljað standa sjálfir undir rekstri sínum, en vera ekki alfarið komnir upp á viðkomandi fiskvinnslustöðvar.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. ráðh. og vil, herra forseti, jafnframt geta þess, að það er í fullu samráði við viðkomandi hæstv. ráðh. að fsp. mínum nr. 7 og 8 á dagskrá verði svarað skriflega fyrir þinglok.