22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3069 í B-deild Alþingistíðinda. (3021)

Afgreiðsla þingmála

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Á þskj. 371 bar ég fram ákveðnar fsp. til hæstv. samgrh. um símamál í Reykjavík. Hér er um að ræða mál sem mjög hefur verið á dagskrá og brennur í huga æðimargra. Þar sem útséð var um að þessu máli fengist svarað munnlega á hv. Alþ. óskaði ég eftir skriflegum fsp. frá hæstv. samgrh. um þetta mál.

Ég hef nú fengið þetta svar í hendur skriflega, eins og ég bað um, og hafði reyndar áður fengið uppkast að svarinu eins og póst- og símamálastjóri gekk frá því. Hér er að sjálfsögðu um að ræða svör við ýmsum tæknilegum spurningum, en ég vek athygli á því, að ég bað um svör varðandi ýmsa pólitíska þætti líka og þess vegna sætti ég mig ekki við að fá svörin í þessum búningi. Hér er um að ræða endursögn hæstv. samgrh. á svörum póst- og símamálastjóra. Ég met hann að vísu mikils sem embættismann og ég efa ekki að hann fari með rétt mál í öllum greinum, en í svari sínu vitnar hann til þess, að ýmislegt, sem spurt er um, hljóti að vera stjórnmálaleg ákvörðun. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að hæstv. samgrh. svari nánar, annaðhvort á þessum fundi eða í ítarlegra skriflegu svari, hvernig fyrirhugað sé að leysa þau mál sem um var spurt.

Ég vil ekki af því að mér var hleypt hér upp í ræðustólinn til að ræða fundarsköp, ræða þessi svör efnislega, en ég tel að hér verði hæstv. samgrh. að bæta um betur.