22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

232. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram á þskj. 371 nokkrar spurningar til hæstv. forsrh. um störf stjórnarskrárnefndar, en hann er sem kunnugt er formaður þeirrar nefndar sem kjörin var á Alþ. eða tilnefnd af þingflokkum á sínum tíma með stoð í þáltill. sem samþ. var á Alþ. 6. maí 1978, en í henni segir að gera eigi endurskoðun á stjórnarskránni innan tveggja ára, ef ég man það orðalag rétt. Það er ljóst að þessi nefnd hefur starfað frá næstu áramótum eftir að þáltill. var samþ., en tafir hafa orðið á málinu og sumar þeirra af eðlilegum ástæðum, eins og þeim að um kosningar hefur verið að ræða og eins vegna stjórnarmyndunar sem hæstv. forsrh. hefur staðið að. Í stjórnarsáttmála ríkisstj. segir að endurskoðuninni skuli lokið á þessu ári.

Það, sem kom mér þó fyrst og fremst til að spyrja þessara spurninga, var yfirlýsing frá miðstjórnarfundi Framsfl., þar sem kemur annað hljóð í strokkinn, því að hvergi er minnst á stjórnarskrárnefnd í ályktun miðstjórnarinnar um stjórnarskrármálefni og því haldið fram, að það sé svo viðamikið verk að endurskoða stjórnarskrána að slíkri endurskoðun verði ekki lokið fyrr en í lok kjörtímabilsins. Mér finnst vera dálítill munur á þeim viðhorfum, sem koma fram hjá stærsta stjórnarflokknum annars vegar og hins vegar í stjórnarsáttmálanum, og vildi þess vegna spyrja hæstv. forsrh. beint hvernig þetta mál stendur.

Í 2. spurningunni er vikið að áfangaskýrslu, hvort hennar sé von bráðlega, og byggi ég það á þeirri hugmynd, sem ég hef fengið, að ætlunin muni hafa verið að nefndin skilaði áfangaskýrslu til þingflokkanna og þá einkum og sér í lagi um kjördæmamálið, en það var tiltekið sérstaklega í þeirri þáltill. sem samþ. var 6. maí 1978.

Í þriðja lagi vík ég að nefndarfundum. Ég geri það vegna þeirra frétta sem borist hafa af starfi nefndarinnar og eru í þeim dúr, að nefndin hafi lítt starfað að undanförnu. Tel ég ástæðu til að fá upplýsingar um nefndarstarfið þannig að þær fréttir verði staðfestar eða fram komi að þær fréttir séu á engum rökum reistar.

Í fjórða lagi er spurt um starfsmenn nefndarinnar. Mér er kunnugt um að dr. Gunnar G. Schram hefur starfað fyrir nefndina. Ég veit ekki hvort hann er fastur starfsmaður hennar, en ég þekki það hins vegar að hann hefur unnið ágætt starf í sambandi við upplýsingar um stjórnarskrármálefni. Mig langar til þess að fá upplýsingar um hvort hann sé sá eini. Ef svo er hvernig gengur starf hans og hver eru laun hans? Það gæti gefið hugmynd um hve mikils má vænta af starfsmanninum, en hann er sem kunnugt er sérfræðingur og háskólakennari í stjórnskipunarrétti.

Í fimmta lagi er spurt um mánaðarlaun nm. Ástæðan fyrir þeirri spurningu er af sömu rótum og þriðja spurningin, en fram hefur komið í fréttum að nefndarfundir hafa verið strjálir og einn nm., Matthías Bjarnason, hafi beðist undan því að þiggja laun fyrir störf í nefndinni, þar sem hann telji að hann eigi slík laun ekki skilið — mér skilst vegna stopullar fundarsóknar sem stafi af því hve fáir fundir hafa verið haldnir.

Ég vona að þessar fsp. verði ekki misskildar á þann veg, að hér sé um að ræða verulega gagnrýni á störf þessarar nefndar, sem ég veit að starfaði mikið, a. m. k. framan af, heldur er tilgangurinn fyrst og fremst að fá upplýsingar áður en þingi lýkur um hvernig starfinu reiðir af. Ekki síst vegna þess að stór stjórnarflokkur virðist hafa beygt eitthvað af leið vildi ég fá það staðfest beint frá formanni nefndarinnar hvernig starfinu líður og miðar og hvenær megi búast við raunhæfum árangri.