22.05.1980
Sameinað þing: 65. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

232. mál, störf stjórnarskrárnefndar

Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir greinargóð svör við þeim spurningum sem ég hef lagt hér fram og gerði áður grein fyrir. Ég legg á það áherslu vegna nefndarþóknunar, að það hefur komið fram að einn nm. hefur afþakkað þóknun sína. Þar kemur því fram sparnaður fyrir ríkissjóð a. m. k. þangað til nefndin fer frekar á skrið. En það er önnur saga.

Það hefði kannske verið ástæða — og ég veit að ekki er eðlilegt að því sé svarað því að það kemur ekki fram í spurningunum — að spyrja hver kostnaðurinn sé alls og hvort í launum starfsmannsins, sem eru laun og kostnaður, komi fram kostnaður við öll ferðalög. Ég veit að ekki er hægt að ætlast til þess að hæstv. forsrh. geti svarað þessu nú á hraðbergi þar sem ekki var um það spurt í upphafi.

Mér þykir gott að heyra að á næsta fundi nefndarinnar verði afgreidd svokölluð áfangaskýrsla, verkefnaskrá eða grg. — eða hverju nafni við kunnum að nefna þann áfanga-og það síðan sent þingflokkunum. Ljóst er, að ef ljúka á þessari endurskoðun á þeim tíma, sem fyrirhugað er, verða þingflokkarnir og reyndar stjórnmálaflokkarnir að fá tækifæri til þess að kynnast viðhorfum nefndarinnar og þeim tillögum, sem hún gerir, og þeim kostum sem boðið er upp á um viðkvæmustu málin, sem að sjálfsögðu tilheyra kosningatilhögun og kjördæmaskipan.

Fyrir um það bil ári flutti fyrrverandi kennari við Háskólann í stjórnlagafræði, Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari, erindi í útvarpið þar sem hann sagði að hann teldi miður að stjórnarskrárnefnd hefði kannske verið of þröngur stakkur sniðinn þar sem sérstaklega eru tekin fram í þáltill. sérstök atriði sem nefndin átti að beina athygli sinni að. Þór lét að því liggja, að hugsast gæti að enn mættu menn bíða í 35 ár eftir að heildarendurskoðun færi fram á stjórnarskránni-sú endurskoðun sem hann taldi nauðsynlegt að gerð yrði vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á íslensku þjóðfélagi í þau rúmu 100 ár sem stjórnarskráin hefur gilt, því að auðvitað er stjórnarskráin frá 1944 byggð að nánast öllu leyti á stjórnarskránni sem okkur var gefin 1874.

Ég er ánægður með að hæstv. forsrh. ætlar að skila starfi sínu í lok þessa árs og lætur engan bilbug á sér finna þrátt fyrir þær einkennilegu yfirlýsingar frá miðstjórn Framsfl. sem ég gat um áður. Ég segi það að lokum að ég treysti honum vegna reynslu hans og þekkingar á þessu máli sem fyrrv. kennara í stjórnlagafræði við Háskóla Íslands manna best til að standa þannig að þessu máli að það nái fram að ganga.