22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3076 í B-deild Alþingistíðinda. (3036)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í þeirri brtt., sem fram er komin á þskj. 454 frá hv. þm. Stefáni Jónssyni og Helga Seljan, felst að tryggja fastan tekjustofn til þess að hægt verði þegar á næsta ári að hefjast handa um breytingar á byggingum sem nauðsynlegt er að breyta til að auðvelda fötluðum aðgang. Fram hefur oftsinnis komið sú skoðun, að eðlilegast sé að framkvæmdir í þágu öryrkja eigi að fjármagna beint af fjárlögum, það sé eðlilegasta leiðin, og ég get tekið undir hana og ég hygg að þeir tveir þm., sem standa að þessari brtt., geri það einnig. En það er samt sem áður margsannað og reyndar talar það skýrustu máli, að hversu nauðsynlegar sem ýmsar framkvæmdir eru í þágu öryrkja hafa þeir átt erfitt uppdráttar á fjárlögum og mjög lítið verið veitt til þeirra mála og í engu samræmi við þá miklu þörf sem er á fjármagni til uppbyggingar málefna öryrkja til að um nokkrar afgerandi framfarir sé að ræða.

Till. á þskj. 454 felur í sér að á næsta ári verði lagt fram frv. til l. um fastan tekjustofn til að tryggja þær framkvæmdir sem þáltill. felur í sér. Ég verð að segja að ég lái ekki þessum tveimur stjórnarsinnum það að treysta ekki ríkisstj. til að tryggja fjármagn til þessara þarfa með eðlilegum hætti á fjárlögum og finni sig þess vegna knúna til að leita annarra leiða til þess að trygging fáist fyrir framkvæmdum. Ég tek undir skoðun þessara hv. þm. og er sama sinnis og tek undir það, sem í þessari till. felst, að framlög beint á fjárlögum eru lítil trygging fyrir að eitthvað raunhæft verði gert í þessum málum og lítil von sé um stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda í þessum málum nema sú leið verði farin sem þessi brtt. gerir ráð fyrir. Ég mun því styðja það, að þessi till. nái fram að ganga.