22.05.1980
Sameinað þing: 66. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3078 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

15. mál, málefni hreyfihamlaðra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það, sem veldur því að ég kveð mér hljóðs, er sú keppni í hjartagæsku sem hefur átt sér stað undanfarið, síðustu mínútur. Það liggur náttúrlega fyrir, að afgreiðsla meiri hl. Alþingis á fjárlögum var með þeim hætti að ekki var til neins fagnaðarauka fyrir það fólk sem hér um ræðir, hreyfihamlað fólk. (GHelg: Þetta er ekki satt.) Þetta er rétt. — Og það er einnig rétt, þó síðasti hv. ræðumaður tali um að hreyfihamlaðir menn séu bjargálna nú, þvert ofan í það sem þeir hafi verið fyrir svo sem tíu árum, og það vil ég segja þessum hv. þm., að svo er nú komið vegna mikilla kostnaðarhækkana í þjóðfélaginu, þar sem á hinn bóginn hafa legið eftir samsvarandi tekjuhækkanir hjá hreyfihömluðum og áður, að það fer bráðum að verða mjög mikill lúxus fyrir þetta fólk, nema eitthvað sérstakt komi til, ef það getur rekið bifreið, sem þótti þó sjálfsagt fyrir nokkrum árum. Þessar staðreyndir, sem ég segi um þetta mál, — og svo geta menn rifist og deilt um það hér á Alþ. eins og þeim nokkurn veginn sýnist, — liggja hreinar fyrir. Þær eru af minni hálfu úr samtali við einn af forustumönnum hreyfihamlaðra sem ég á þessari stundu sé ekki ástæðu til að nafngreina. (StJ: Það getur valdið misskilningi.) Það getur valdið misskilningi, hv. þm. En hitt man ég vel, að ég heyrði þá miklu svardaga sem þessi hv. þm. gaf þegar hann var í framboði fyrir norðan og ég fylgdist líka með hvernig greitt var atkv. hér um fjárlög. Þótt menn geti kannske, þegar það kostar ekki neitt, þóst vera frjálslyndir og fínir og góðir hefur raunin orðið önnur, einkum nú upp á síðkastið, því að það hefur vantað getuna til að standa við stóru orðin.

Ég verð að biðjast afsökunar á því að hafa blandað mér inn í þetta ógurlega kapphlaup undir þessum dagskrárlið til að sýna sérstaka umhyggju fyrir þessu fólki, en ég hef orðið var við slíkt á sama tíma og fyrir liggur að þær gífurlegu kostnaðarhækkanir, sem orðið hafa í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum, réttlæta ekki það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 8. landsk. þm., að þetta fólk væri eitthvað sérstaklega vel bjargálna. Þvert á móti liggur fyrir að rekstrarkostnaður bifreiða hefur hækkað svo sem raun ber vitni og ég skal ekki gera frekar að umræðuefni.