22.05.1980
Sameinað þing: 67. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3080 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

206. mál, mál Skúla Pálssonar á Laxalóni

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að ég er ákaflega ófróður um eðli þessa máls, og verð að játa, að ég hef ekki gefið mér mikinn tíma til að fara yfir málsskjöl eða kynna mér hvað sé rétt og hvað sé rangt í þessu máli. Fullyrt er að Skúli Pálsson á Laxalóni eigi kröfu á hendur ríkissjóði vegna aðdraganda þess að hann varð fyrir miklu tjóni þar, og ég vil siður en svo neitt draga úr því að svo kunni að vera. Ég er alls ekki dómbær um það atriði. Ég verð hins vegar að segja það alveg eins og er, að mér finnst málsmeðferðin varðandi þetta mál nokkuð óvenjuleg.

Það er skipuð nefnd til að rannsaka málið og út af fyrir sig er það ekkert óeðlilegt, hún hefur gert það, en hitt er ljóst, að það er og hefur verið meginregla í sambandi við þá, sem bótarétt eiga á hendur ríkinu, að annaðhvort öðlast þeir þann rétt eftir dómsniðurstöðu eða niðurstöðu gerðadóms. Hvor leiðin sem farin er sýnist mér að það væri fordæmalítið að greiða bætur öðruvísi en að undangengnum einhverjum úrskurði þar sem málið hefði verið rannsakað með venjulegum réttarfarsaðferðum. Hin leiðin er svo sú, að Alþ. samþykki að veita Skúla Pálssyni á Laxalóni ákveðið framlag á fjárlögum með ákveðnum rökstuðningi. Það er líka hægt að gera en slíkt verður að sjálfsögðu ekki gert öðruvísi en með ákvörðun í fjárlögum. Ég vil því strax lýsa yfir því, að ef þessi till. verður samþ. hlýtur samt lokaafgreiðsla málsins að bíða afgreiðslu næstu fjárlaga, og vegna þess að þetta er fjárhagslegs eðlis teldi ég það algert brot á öllum viðteknum venjum hér á Alþ. ef máli þessu væri ekki nú vísað til fjvn. Við skulum vænta þess, að hún taki sér ekki allt of langan tíma til umsagnar um málið, en ég held að ekki verði undan því vikist að gefa henni kost á að fjalla um málið og um málsmeðferð ekki síður.

Ég er síður en svo að segja það með þessum orðum mínum að nefndur maður, Skúli Pálsson á Laxalóni, kunni ekki að eiga þann rétt sem rætt hefur verið um að hann eigi. En ég óska hins vegar eftir því, að málið hljóti eðlilega málsmeðferð, og legg því til að því verði vísað til hv. fjvn.