22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3088 í B-deild Alþingistíðinda. (3056)

160. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég bið afsökunar. Ég var stöðvaður á leið minni að utan. Ég vona að sá hv. þm., sem við mig þurfti að ræða, fái að koma því málefni hér á framfæri, ef hann telur það nauðsynlegt, sem tafði okkur eitt augnablik. En ég skal sannarlega ekki tefja þessa umr. Það er samkomulag um málsmeðferð hér, eins og venja er til í þessari hv. d. Þó það sé að vísu æðimargt sem ég mundi gjarnan hafa viljað að víkja ætla ég ekki að gera það.

Ég var forfallaður vegna fundar í utanrmn. og gat ekki hlustað á umr. hér, en þykist vita að þeir hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson og Lárus Jónsson, sem flytja hér brtt. ásamt mér, muni hafa gert þeim gleggri skil en mér hefði verið unnt að gera. En þær munu víst ekki hafa náð fram að ganga og þá langar mig til að spyrja hæstv. iðnrh. að því sérstaklega, hvort ákvæði 15. gr. frv., ef það verður að lögum, muni ekki taka til Hitaveitu Siglufjarðar og hvort hann muni ekki treysta sér til að gefa eitthvert jákvætt fyrirheit um að heimildin yrði notuð til að greiða nokkuð fyrir því orkuveri.

Það hefur verið hér á dagskrá árum saman vandamál orkuveitnanna á Siglufirði, en þannig hagar til, eins og alkunna er, að Siglfirðingar hafa séð sér fyrir orku sjálfir og meira að segja selt raforku inn á kerfi Rafmagnsveitna ríkisins, og þeir hafa orðið að standa undir þessum framkvæmdum sjálfir sem sagt og verið í miklum fjárhagserfiðleikum. Til viðbótar því að sjá sér fyrir raforku án aðstoðar ríkisvaldsins, án beinnar aðstoðar a. m. k., hafa þeir orðið að borga eins og aðrir verðjöfnunargjald sem hefur verið þeim mjög þungbært. Þegar síðast var rætt hér um verðjöfnunargjald og ákveðið að Orkubú Vestfjarða fengi hlutdeild í því var gerð tilraun til að láta Siglfirðinga njóta þar jafnréttis, að þeir fengju eitthvað ofurlítið af þessu gjaldi til þess að þeim væri ekki mismunað með þessum hætti. Þetta mál var bæði deilumál og mikið umræðumál milli mín og t. d. hv. 4. þm. Vestf., og við skulum ekkert rifja það upp, við skiljum hvor annan, en þá var þess óskað, að sérstaklega yrði tekið tillit til þess vanda Siglfirðinga, og ég held að ég muni það rétt, að hæstv. iðnrh. hafi verið fullur velvilja og lýst þá yfir að það mál yrði skoðað sérstaklega að greiða fyrir Siglfirðingum með einhverjum öðrum hætti. Ég hygg ég muni fara rétt með það að ráðh. hafi sagt framámönnum Siglfirðinga í viðræðum — í beinum viðræðum eða óbeint — að það væri eðlilegast að skoða þessi mál í samhengi, þ. e. vandamál Rafmagnsveitu Siglufjarðar og hitaveitunnar, svo nú er einmitt hið rétta tilefni til að reyna að láta 15. gr. taka til Siglfirðinga og fá um það yfirlýsingu og að mál þessara tveggja stofnana í Siglufirði séu athuguð í tengslum hvort við annað og það gert fyrr en seinna úr því að 4. liður í 1. brtt. okkar þm. Sjálfstfl. hér í Ed. hefur ekki verið samþykktur.

Ég spyr hæstv. iðnrh. hvort hann muni geta gefið eitthvert vilyrði í þessa átt, að það verði ekki langur dráttur á því að taka þessi mál föstum tökum og reyna að koma þarna á jafnræði og sanngjarnri lausn miðað við aðstæður annars staðar.