22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir að hafa vakið máls á þessu hér, þótt ég undrist það orðalag sem hann hafði í upphafsræðu sinni. Ég á bágt með að skilja þann hita og þau stóru orð og þær ásakanir sem koma fram hjá stuðningsmönnum Atlantshafsbandalagsins þegar til umr. kemur spurningin um hvort hér séu kjarnorkuvopn eða ekki. Ég tel, eins og ég sagði í umr. um skýrslu utanríkisráðherra og einnig í útvarpsumr. fyrir nokkru, að hér sé á ferðinni svo alvarlegt mál, enda kom það réttilega fram hjá utanrrh. sjálfum áðan, að þm. eigi að ræða það og þjóðin öll af rólegri og yfirvegaðri alvöru. Ásakanir fyrir fram og tortryggni, eins og kom fram bæði hjá frummælanda og því miður einnig hjá hæstv. utanrrh. í garð þeirrar stofnunar og þess einstaklings, Williams Arkin, sem fréttamaður hafði samband við, finnst mér bera vott um að áður en menn hafa efnislega niðurstöðu í málinu sé byrjað á því að reyna að tortryggja heimildirnar.

Það mætti hafa mörg orð um hvers vegna fyrrv. fréttamaður Ríkisútvarpsins, maður sem ég taldi í hópi fremstu íslensku fréttamanna um árabil, kaus að ráðast með svo beinum hætti að þeim fréttamanni útvarpsins sem gegndi að mínum dómi sjálfsagðri skyldu fréttamanns í frjálsu þjóðfélagi að afla sér upplýsinga um þetta efni. Við skulum minnast þess, að meðal þeirra eðliskosta Bandaríkjanna sem ég og fleiri dá mest, þótt margt gagnrýnum í þeirra fari, er einmitt það frjálsa og óháða hlutverk sem fréttamenn, blöð, fjölmiðlar og rannsóknastofnanir gegna þar í landi.

Þegar Washington Post var að birta fréttir af Watergate-hneykslinu var það líka kallað vinstrisinnað blað. Þegar fréttamennirnir voru að ráðast gegn Spiro Agnew og Richard Nixon voru þeir líka kallaðir kommúnistar. Það breytir því ekki að sagan hefur sýnt að Washington Post og þessir fréttamenn höfðu rétt fyrir sér. Við skulum þess vegna taka því fagnandi að erlendir aðilar gefa okkur tilefni til að spyrja okkur sjálf gagnrýninna spurninga um þetta efni.

Sagan sýnir okkur að forsetar Bandaríkjanna, utanríkisráðherrar Bandaríkjanna, hafa logið að sinni eigin þjóð, eins og í Kampútseumálinu, að utanríkismálanefnd bandaríska þingsins og bandaríska þinginu öllu. Riehard Nixon og Henry Kissinger hafa verið staðnir að lygaröð varðandi aðgerðir bandarískra stjórnvalda í Kampútseu og Víetnam á sínum tíma. Það er þess vegna ærin ástæða til að setja spurningamerki við yfirlýsingar stjórnvalda Bandaríkjanna.

Ég tek það fram til að fyrirbyggja allan misskilning, að ég tel enga ástæðu til að draga í efa yfirlýsingar íslenskra utanrrh. í þessum efnum. Ég segi það hreint og skýrt. En ég tel hins vegar í ljósi sögunnar fyllstu ástæðu til að spyrja spurninga sem draga í efa að bandarísk stjórnvöld hafi sagt íslenskum utanrrh. allan sannleikann í þessum málum. Sagan sýnir okkur fjölmörg dæmi þar sem bandarísk stjórnvöld hafa kosið að umgangast valdsmenn annarra landa, umgangast sína eigin þjóð, umgangast sitt eigið þing með þeim hætti að segja þeim ekki allan sannleikann. Ég vil nefna það, að fyrir tæpum 20 árum fórst á Grænlandi flugvél með kjarnorkusprengju innanborðs og var hún þar í banni. Þar höfum við eitt dæmi um hvernig samkomulag um flutning kjarnorkuvopna var brotið. Ef hér væri nægur tími mætti tína til fjölmörg önnur slík dæmi.

Ég vil geta þess hér, að ég óskaði eftir fundi í hv. utanrmn. þessa þings þegar þessi fréttaauki birtist, vegna þess að í honum kemur fram nákvæmari tilvísun til heimilda en áður hefur komið fram í þessum efnum. Nú er það svo, að samkv. þingsköpum eru umræður í utanrmn. háðar leynd, en ég skil ákvæði þingskapa þannig, að mönnum sé heimilt að skýra frá því sem þeir sjálfir sögðu. Ég vil þess vegna nota tækifærið til að segja og skýra frá því hér, að fyrr í dag óskaði ég eftir þremur meginupplýsingum í utanrmn.

Ég óskaði í fyrsta lagi eftir því, að fram yrði lögð í n. sú skýrsla bandaríska flotans eða handbók sem merkt er 5510–83 B. Vegna þess að hér var talað um ónákvæmar þýðingar getur vel verið að hjá fréttamanni eigi sér stað í flýti vissar ónákvæmar þýðingar, en sú ónákvæmni er ekki öll á þann veg sem fyrri ræðumenn hér hafa viljað vera láta, vegna þess að í þýðingu fréttarinnar segir að heiti þessarar handbókar sé handbók um kjarnorkuöryggismál, en enska heitið er hins vegar í réttri íslenskri þýðingu handbók um kjarnorkuvopnaöryggismál.

Í öðru lagi óskaði ég eftir því, að gerð yrði grein fyrir því, með hvaða hætti íslensk stjórnvöld væru spurð um leyfi til að hafa hér hinar ýmsu tegundir af vopnum sem bandarískur her telur sér nauðsynlegt að hafa. Ef íslensk stjórnvöld hafa ekki slíka skrá eða fá reglulega slíkar upplýsingar frá Bandaríkjunum hafa þau ekki möguleika á að fylgjast nákvæmlega með þeim vopnaflutningi sem fer til og frá þessari herstöð.

Í þriðja lagi óskaði ég eftir að starfsmenn utanrrn., sem hafa gert opinberlega þá skoðun ljósa að í samanburði við aðrar erlendar stöðvar Bandaríkjanna telji þeir að hér sé ekki sá búnaður sem beri svip kjarnorkuvopnastöðva, veiti skriflega og ítarlega grg. um hvaða efnisatriði felast í slíkum samanburði, hvaða tæknilegan svip og einkenni slíkar stöðvar bera og hverjar séu forsendur þeirrar ályktunar sem þeir hafa sett fram opinberlega.

Ég vil taka það skýrt fram vegna þess sem utanrrh. sagði áðan, að í hinum upphaflega texta, hinum enska texta, samtalsins við William Arkin kemur alveg skýrt fram að hann telur að hér séu kjarnorkuvopn. Það er niðurstaðan í samtalinu, sem kemur að vísu ekki fram í endursögn fréttamannsins, en þessar setningar og aðrar í viðtalinu finnst mér gefa fyllilega til kynna að þessi einstaklingur er ekki í neinum vafa um að á Íslandi eru staðsett kjarnorkuvopn. (Gripið fram í.) Ég vil taka það skýrt fram vegna framíkalls hjá Eyjólfi Konráð Jónssyni og ýmissa annarra aths. sem við þetta mál hafa verið gerðar, að ég tel nauðsynlegt og skyldu þings og þjóðar að leita af sér allan grun í þessum efnum. (EKJ: Ég var ekki að spyrja að því. Ég var að spyrja hvert þú þýddir þetta rétt.) Hvort ég þýddi þetta rétt? (EKJ: Þú sagðir að maðurinn staðhæfði að það væru hérna vopn.) Já, ég þýddi það rétt. (Gripið fram í.) Það er merkilegt að þeir talsmenn Atlantshafsbandalagsins, sem hér eru í þingsalnum, og aðrir skuli ávallt reyna að hengja sig í orðhengilshátt í þessum efnum. Ég tel málið miklu alvarlegra en svo.

Ég fagna því, sem utanrrh. sagði hér, og tek undir ósk Eiðs Guðnasonar í þeim efnum, að það sé aflað ítarlegra skýrslna um þá stofnun sem tvisvar hefur sent frá sér lýsingar á kjarnorkuvopnaeðli herstöðvarinnar hér á Íslandi. Jafnframt fagna ég því, að það kom fram á fundi utanrmn.n. mun halda áfram að ræða þetta mál og kynna sér það. Í þriðja lagi fagna ég því, að þm. úr þremur stjórnmálaflokkum — því miður vantar þm. frá hinum fjórða, en kannske kemur að því einhvern tíma, — hafa flutt till. til þál. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa löggjöf um bann við geymslu á hvers konar kjarnorkuvopnum hér á landi. Bannið nái einnig til siglinga með kjarnorkuvopn, flutninga í lofti eða á annan hátt um eða yfir íslenskt yfirráðasvæði. Jafnframt verið kveðið á um eftirlit af Íslands hálfu með því að lögin verði virt.“

Vonandi nær þessi till. fram að ganga á næsta þingi, ef hún verður endurflutt, sem ég vona, og þá væntanlega með tilstuðlan þm, úr öllum flokkum. Ég tel það mjög mikilvægt atriði, eins og ég hef áður sagt, að þrátt fyrir ágreining okkar um bandarísku herstöðina hér hafa allir íslenskir stjórnmálaflokkar verið sammála um það, eins og hæstv. utanrrh. lýsti áðan, að það væri algert brot á samkomulagi Íslands og Bandaríkjanna ef hér hefðu verið um lengri eða skemmri tíma kjarnorkuvopn.

Þessu máli er ekki lokið, herra forseti, þótt umr. hér í þessari d. verði lokið. Þetta er mál sem á engan hátt má kenna við einhverja hleypidóma, við eitthvert moldviðri, við einhverjar herferðir, við einhverja kommúnistagrýlu eða eitthvað annað. Þetta er grundvallarspurning um það, eins og hæstv. utanrrh. sagði alveg réttilega aðan, hvort bandarísk stjórnvöld hafa virt íslensk stjórnvöld eður ei. Ef kemur í ljós að þau hafa ekki virt íslensk stjórnvöld, hvernig getum við treyst slíkum herrum fyrir vörnum okkar?