22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3104 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fyrir nokkru voru tvö mál lögð fyrir þingið náskyld. Annars vegar var um að ræða skýrslu um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980, sem var lögð fram í Sþ. á þskj. 410, hins vegar frv. til lánsfjárlaga. Frv. til lánsfjárlaga hefur nú verið afgreitt af Nd. og kemur nú til Ed., en hlýtur að sjálfsögðu eðlilega meðferð í n. Ég vil treysta því, að málið komist til n. í dag þannig að unnt sé að afgreiða það eftir helgi, og mun reyna að vera eins stuttorður og kostur er til að tíminn endist okkur til að ljúka umr.

Ég vil rifja það upp, að frá því á s. l. hausti hefur verið ljóst að mikil framkvæmdaáform væru uppi í landinu á þessu ári. Er þar bæði um að ræða framkvæmdir einkaaðila og þá ekki síður framkvæmdir opinberra aðila. Ástæðan fyrir þessum miklu framkvæmdaáformum opinberra aðila er ekki sú, að einhver óvenjuleg þensla hafi orðið í ríkisumsvifum, því það er auðvelt að benda á að þar hefur lítil breyting á orðið, heldur er skýringin hin, að gríðarlega miklar orkuframkvæmdir eiga sér nú stað í landinu og ber þar hæst byggingu Hrauneyjafossvirkjunar, sem áætlað er að muni nema í fjárfestingu á þessu ári um 32 milljörðum kr.

Samanlagt stefndi í fjárfestingu á þessu ári sem kostað hefði erlendar lántökur upp á 110–120 milljarða. Ég býst við að margir minnist þess, að ýmsir stjórnarandstæðingar töldu víst að þá hlytu erlendar lántökur að nema upphæð sem væri nærri þessum framkvæmdaáformum, þannig að erlendar lántökur mundu verða allt að 110 milljarðar. Niðurstaðan liggur nú fyrir. Með þessari lánsfjáráætlun, sem hér er lögð fram, er að því stefnt að erlendar lántökur nemi um 85 milljörðum. Heildarframkvæmdir í landinu eru áætlaðar 327 milljarðar, sem er um 26.5% af vergri þjóðarframleiðslu.

Skuldahlutfall Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum, hlutfall erlendra lána öðru nafni, var 34.9% í árslok 1979. En gangi það fram, sem hér er áætlað, að erlend lántaka verði 85 milljarðar á árinu, má búast við að skuldahlutfallið verði í lok þessa árs 34%. Það er sérstaklega eftirtektarvert, að þrátt fyrir þá miklu lántöku, sem ég hef nú nefnt, lækkar skuldahlutfallið úr 34.9% í 34%. Ástæðan er að sjálfsögðu sú, að við erum á árinu að endurgreiða erlend lán í stórum stíl. Við munum endurgreiða lán sem nemur 46 milljörðum þannig að bein aukning erlendra lána er um 39 milljarðar, en erlendu lánin eru orðin svo mikil að þó að við bætist 39 milljarðar er áætlað að þjóðarframleiðslan vaxi hlutfallslega hraðar þannig að þetta hlutfall lækki þrátt fyrir allt.

Algengt er að menn ræði um erlendar lántökur út frá sjónarmiði þeirrar greiðslubyrði sem hvíli á þjóðinni vegna afborgana og vaxtagreiðslna af erlendum lánum. En ég vil taka það fram hér, eins og ég hef áður gert í Nd., að þessi viðmiðun er bersýnilega orðin mjög óraunhæf og tal manna um að greiðslubyrðin sé að vaxa úr 14% upp í 16% eða 18%, eins og er nú tíður söngur, ekki síst hjá stjórnarandstæðingum, er meira eða minna tómt mál að tala um vegna þess að sú hækkun, sem hér um ræðir, stafar ekki fyrst og fremst af nýjum erlendum lántökum, heldur einfaldlega af því að vextir erlendis hafa hækkað verulega. Þannig er ljóst að vaxtabyrðin af erlendum lánum hefur vaxið það verulega á seinustu mánuðum að þetta hlutfall greiðslubyrði af erlendum lánum vex um 2% einungis af þeirri ástæðu að vextir hafa hækkað. Sér þá hver maður að þetta hlutfall segir okkur ekki ýkjamikið ef ytri aðstæður, sem við höfum ekki vald á, geta breytt þessum hlutföllum í svo ríkum mæli sem dæmið sýnir. Hin eðlilega viðmiðun í þessum efnum er skuldahlutfallið, sem ég hef hér gert að umtalsefni, og það sýnir okkur að þrátt fyrir að hér sé um talsvert mikla erlenda lántöku að ræða fer það lækkandi á því ári sem nú er að líða.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1980 eru gerðar víðtækar ráðstafanir til að efla innlendan sparnað, m. a. til að draga úr erlendum lántökum, sem lýsir sér annars vegar í því, að 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða munu ganga til opinberra fjárfestingarsjóða og aukið verður framlag bankakerfisins til fjárfestingarstarfsemi á vegum opinberra aðila með því að 7% af innlánsaukningu banka ganga nú til þessara verkefna í staðinn fyrir 4% áður. Auk þess er gert ráð fyrir að sparisjóðir og hvers konar innlánsstofnanir leggi sinn hlut af mörkum.

Innlend lánsfjármögnun er áætluð á þessu ári 52.6 milljarðar kr., en var í fyrra 30 milljarðar, þannig að hækkunin milli ára er 74%. Er það veruleg breyting til batnaðar, ef það gengur fram sem vonir standa til.

Ég vil að lokum geta þess, að nokkrar minni háttar breytingar hafa verið gerðar á lánsfjárlagafrv. í Nd. í framhaldi af brtt. sem ég flutti við frv. annars vegar á þskj. 585 og hins vegar á þskj. 602. Þessar brtt. eru minni háttar, verða að teljast fyrst og fremst formsbreytingar því að þær hækka ekki erlendar lántökur á árinu 1980. Það er annars vegar sjálfskuldarábyrgð í þágu Vatnsveitu Búðardals og hins vegar heimild til lántöku vegna nýrra iðnaðarverkefna. Þessar framkvæmdir allar eru ráðgerðar í lánsfjáráætlun þannig að hún hækkar ekki af þeim sökum.

Í Nd. var gerð sú breyting á frv., að ákvæðinu um skyldukaup lífeyrissjóða var lítillega breytt. Í stað þess að þar var sagt, þegar frv. var lagt fram, að lífeyrissjóðir skyldu kaupa verðtryggð skuldabréf af ríkissjóði, Byggingarsjóði ríkisins og Framkvæmdasjóði Íslands, er nú því bætt við að þeir geti keypt þessi skuldabréf einnig af fjárfestingarlánasjóðum sem viðurkenndir eru af Seðlabanka Íslands.

Með þessari litlu breytingu er frv. nokkurn veginn komið í það horf sem það var í á s. l. ári, þegar lánsfjárlög voru þá samþykkt, og þarf ég þá ekki að eyða orðum að þeirri áróðurshrinu stjórnarandstæðinga sem hér hefur gengið yfir, þar sem miklu púðri er eytt í þetta áform og minnt á að skyldukaup lífeyrissjóða voru umdeilt mál fyrir nokkrum árum. Ég held að mergurinn málsins í því sambandi sé ósköp einfaldlega sá, að menn hafa breytt um afstöðu í þeim efnum. Menn telja óhjákvæmilegt nú orðið, ef einhver stjórn á að vera á efnahagslífi okkar, að lífeyrissjóðir leggi sitt af mörkum vegna fjárfestingarframkvæmda opinberra aðila. Við Alþb.-menn tókum nýja afstöðu í þessu máli fyrir einu ári, og þar hefur engin breyting orðið síðan. Aftur á móti hefur það eitt gerst í málinu, að Alþfl., sem var algjörlega sammála okkur um þetta efni fyrir einu ári, hefur nú enn snarsnúist í málinu og flutt till. um að fella ákvæði af þessu tagi niður. Sá snarsnúningur kemur svo sem engum á óvart og ekki frekar í þessu máli en öðrum. En afstaða okkar Alþb.-manna í þessum efnum er nákvæmlega sú sama sem var afstaða ríkisstjórnarflokka á s. l. ári, að hér verði lífeyrissjóðir að leggja sitt af mörkum ef nokkra stjórn eigi að hafa á efnahagsmálum okkar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.