22.05.1980
Efri deild: 102. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3106 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður að þessu sinni.

Eins og hv. dm. er kunnugt höfum við stjórnarandstæðingar greitt mjög fyrir framgangi mála á hinu háa Alþingi og teygt okkur í þeim efnum miklu lengra en oft hefur verið um stjórnarandstöðu. Það kemur því úr hörðustu átt þegar við erum af hæstv. forsrh. og fleiri ráðh. í núv. hæstv. ríkisstj. ásakaðir um að halda uppi óeðlilegu málþófi á lokadögum þingsins. — Í máli hæstv. forseta kom fram, að hann hyggst beita sér fyrir því að þetta mál gangi til nefndar í kvöld, og af tillitsemi við það mun ég vera mjög stuttorður hér og fjalla um nokkur meginatriði.

Hæstv. fjmrh. endaði mál sitt með því að koma með nokkur svigurmæli í garð okkar stjórnarandstæðinga í sambandi við eina grein þessa frv., þ. e. 3. gr. En hæstv. ríkisstj. hefur nú séð sitt óvænna í sambandi við þá grein og henni var breytt í Nd. mjög til batnaðar, þó hún sé ekki að öllu leyti góð eins og hún er. Ég vísa aðeins til þess í sambandi við þetta, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. stefndi að því með 3. gr., eins og hún er í frv., að fella lífeyrissjóðina í slíka fjötra með ráðstöfunarfé sitt að háttvirtir stjórnarsinnar sáu sitt óvænna og beittu sér fyrir því, að hæstv. ríkisstj. brá af þessu þrautaráði sínu. Ég ætla ekki að fjölyrða frekar um það.

Þá vil ég fjalla um tvö meginatriði sem eru í þessu frv. til lánsfjárlaga og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1980. Í fyrsta lagi vil ég minna á að forsendur þessarar áætlunar eru fyrir allnokkru algerlega brostnar. Það kemur fram í fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni á bls. 7. Þar segir:

„Forsendur fjárlaga um kauplags- og verðlagsbreytingar voru þær. að kauptaxtar hækkuðu um 42% að meðaltali milli áranna 1979 og 1980, vísitala byggingarkostnaðar um 45% og neysluverðlag um 47% ....... Hins vegar er nú sýnt að verðlag hækkar meira á fyrri hluta ársins en gert var ráð fyrir við gerð fjárlagafrv. Nú er áætlað að hækkun framfærsluvísitölu frá febrúar til maí verði vart undir 12–13% og að óbreyttu verðbótakerfi gætu laun hækkað um 11–11.5% 1 júní.“

Engu að síður er þessi fjárfestingar- og lánsfjáráætlun byggð á fjárlagaverðlagi og það er í rauninni alveg ljóst að fjárlagaverðlag er þegar orðið úrelt sem viðmiðun að grundvelli að slíkri áætlunargerð. Í viðbót við það mun verðlag fara miklum mun meira hækkandi það sem eftir er af árinu samkv. spám Þjóðhagsstofnunar en gert er ráð fyrir í fjarlögum síðustu ársfjórðunga ársins. Hér er sem sagt um að ræða algerlega brostnar forsendur fyrir þessu plaggi. Er það eitt gott dæmi um hvers konar öngþveiti efnahagsmál okkar eru komin í í höndum núv. hæstv. ríkisstj.

Samkv. þessari lánsfjáráætlun, sem ég tel vera kjarna málsins, er gert ráð fyrir að stórauka bæði innlend og erlend lán til opinberra nota og til opinberra framkvæmda. Innlend lán til opinberra framkvæmda samkv. lánsfjárlögum í fyrra námu aðeins 8 milljörðum og 59 millj. kr. samkv. bráðabirgðatölum. Nú er ætlunin að afla innlends lánsfjár í sama skyni upp á rúma 24 milljarða. Þarna er um þreföldun að ræða. Þarna er hvorki meira né minna en um þreföldun að ræða. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú, að þrátt fyrir miklar og gífurlegar skattahækkanir, sem mikið er búið að tala um í sölum Alþingis, er minna tekið af skatttekjum ríkisins til opinberra framkvæmda, ef reiknað er á sama verðlagi, en fyrri ár. Hér er því stefnt að því að stórauka innbrot ríkisins á hinn almenna lánsfjármarkað, bæði í lífeyrissjóðina og í bankakerfið, sem hlýtur að verða til þess að einkaaðilar, atvinnufyrirtæki, atvinnuvegirnir fá minna fjármagn, bæði til uppbyggingar og til rekstrar.

Erlend lán eru með þessu frv. mjög aukin. Hæstv. ráðh. sagði að það hefði stefnt í lántökur erlendis upp á 110–120 milljarða kr., og það mun sjálfsagt vera rétt, og hann telur að hann hafi náð þarna verulegum árangri í því að lækka erlendar lántökur. En erlendar lántökur nema samt samkv. þessari áætlun 85.5 milljörðum kr.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um að greiðslubyrði okkar væri ekki að aukast með þessum lántökum. Ég hef í höndum bréf frá Seðlabanka Íslands, sem óskað var eftir af hv. fjh.- og viðskn. Nd., og þar er það skýrt að greiðslubyrði af útflutningstekjum hækkar í 18% á næsta ári, út af þessum lántökum m. a. Greiðslubyrði þessi hefur ekki verið meiri í sögu okkar þjóðar.

Í nýútkomnu hefti Fjármálatíðinda fjallar seðlabankastjóri, Jóhannes Nordal, nokkuð um erlendar lántökur og greiðslubyrði af erlendum lánum. Vegna þess að ég ætla ekki að vera langorður vil ég vitna hér örstutt í þetta mali mínu til stuðnings um hvað hér er að gerast og hvað hér ber að varast. Í þessari grein Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra segir svo:

„Þótt greiðslubyrðin af þessum skuldum hafi hingað til reynst viðráðanleg, hljóta svo miklar erlendar skuldir að hafa í för með sér verulega áhættu, ef á móti blæs í efnahagsmálum eða skyndilegar breytingar verða á erlendum lánsfjármörkuðum.“

Þetta segir Jóhannes Nordal í nýútkomnu hefti Fjármálatíðinda og hefur áreiðanlega látið þessi orð falla einmitt í tengslum við gerð núverandi fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar fyrir 1980.

Það eru fjölmörg atriði í þessu margþætta máli sem ástæða væri til að ræða. En málið hefur fengið umfjöllun í Nd. og í Sþ. hefur það nokkuð verið rætt. Eins og kom fram í máli hæstv. forseta er það meginstefna hans að koma þessu máli til nefndar í kvöld, en að þar gefist nægur tími til að rannsaka það ofan í kjölinn, ræða það, og ræða það síðan hér í hv. d. eftir hvítasunnu. Þess vegna skal ég, hæstv. forseti, ekki vera langorðari að sinni um þetta stórmál.