22.05.1980
Neðri deild: 86. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (3077)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að mælast til þess, að hæstv. félmrh. verði kallaður inn í salinn til að hlýða á umr. um það mál sem hann leggur svo mikla áherslu á að nái hér fram að ganga, og mun ekki hefja mál mitt fyrr en hann kemur inn í salinn. (Forseti: Ég mun gera ráðstafanir til að nema hæstv. félmrh. nefi, gera svo vel að athuga um hvort félmrh. er tagltækur að koma hér í d.). Herra forseti. Ég get þá hafið mál mitt, því að hæstv. félmrh. gengur í salinn.

Ég vil byrja á því að segja, að það er með eindæmum að þetta frv. um Húsnæðisstofnun ríkisins skuli fá eins ófullkomna skoðun og raun ber vitni í þessari hv. d., þegar á það er litið að þetta er 17. mál þingsins og frv. lagt fram fyrir 5 mánuðum.

Þó að taka mætti hér langan tíma í að fjalla um einstök efnisatriði frv. eftir breytingar Ed. skal ég ekki að þessu sinni tefja dýrmætan tíma þingsins rétt fyrir þinglok til þess, þó full ástæða væri til, enda á að keyra hér hvert stórmálið á fætur öðru í gegnum d. án þess að nefndir hv. d. fái hæfilegan tíma til umfjöllunar um málin. Ég vil þess í stað beina máli mínu að einum þætti þessa frv., þeim veigamesta, undirstöðuþætti frv., fjármagnsþættinum, sem er ein meginástæða þess að ég skila séráliti í þessu máli.

Þó að ljóst sé að þessi þáttur frv. sé sá sem allt veltur á ef við fyrirheit frv. á að vera hægt að standa tel ég fullvíst að hann sé sá þáttur frv. sem minnst hefur verið skoðaður í Ed. með tilliti til þeirra breytinga sem þar voru gerðar á frv., og það verður að draga í efa að þm. Ed. hafi fengið tækifæri til að skoða þá útreikninga, sem þó liggja fyrir um þetta mál, þó í þá vanti veigamiklar forsendur eins og lengingu lánstímans, sem breytt var í Ed. Þessir útreikningar hafa legið fyrir frá 2. apríl, en það eru útreikningar sem gerðir voru af Þjóðhagsstofnun og sendir félmrh. 2. apríl s. l. Í þessum útreikningum má lesa að lánsþörf eykst gífurlega við þá breytingu, sem frv. hefur tekið í Ed., og sú fjármagnsþörf, sem í ljós kemur í þessum útreikningum Hallgríms Snorrasonar hjá Þjóðhagsstofnun, er í engu samræmi við þá fjármagnsþætti sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Félmn. Nd. óskaði eftir ýmsum útreikningum Þjóðhagsstofnunar vegna þeirra brtt. sem fram komu við frv. í Ed., en þó þær upplýsingar, sem um var beðið, liggi ekki fyrir enn fékk félmn. Nd. nokkur mikilsverð gögn, eins og ég nefndi, sem af má draga athyglisverðar ályktanir. Samkv. lauslegum útreikningum verður ráðið að óleyst lánsfjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna nemi yfir 200 milljörðum kr. Í þessum útreikningum er stuðst við töflur sem finna má í þeim gögnum sem félmrh. hefur haft undir höndum í nær tvo mánuði og hefði hann auðvitað átt að sjá til þess að nefndir Alþingis fengju þessi gögn í hendur.

Það er fróðlegt, þegar öll meðferð þessa máls er skoðuð, að rifja upp ákvæði 13. gr. laganna um stjórn efnahagsmála o. fl., en þar segir, með leyfi forseta:

„Fjárlaga- og hagsýslustofnun skal annast hagsýslustarfsemi fyrir ríkisbúskapinn í því skyni að auka á hagkvæmni og ráðdeild í ríkisbúskapnum og í meðferð opinberra fjármuna.

Meðal þess háttar verkefna fjárlaga- og hagsýslustofnunar skulu vera, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð“ — og síðan er talið upp:

„1. Mat á fyrirhuguðum ríkisframkvæmdum með tilliti til arðsemi, kostnaðar, nytja og þjóðfélagslegs gildis“. Og nú við ég biðja hæstv. félmrh. að taka eftir:

„2. Kostnaðarmat á tillögum frv. sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð. Skal slíkt mat liggja fyrir áður en ákvarðanir eru teknar, enda sé því skilað til þingnefndar á tilskildum tíma.“

Hvað gerir hæstv. félmrh. til að uppfylla þetta ákvæði um stjórn efnahagsmála? Þessi gögn hafa legið fyrir í tvo mánuði, að vísu ekki byggð á fullkomlega réttum forsendum, en engu að síður má töluvert á þeim byggja. Því væri gagnlegt að fá upplýst hvort hæstv. félmrh. hafi uppfyllt þá skyldu, sem lögin um stjórn efnahagsmála o. fl. kveða á um, og sent hv. félmn. Ed. þessi gögn. Það hefði flýtt fyrir ákvarðanatöku félmn. Nd. hefði hún haft þessi gögn undir höndum í þá tvo mánuði, sem þau hafa legið fyrir. Það er ámælisvert, að ráðh. skuli ekki hafa sent þingnefndum þessi gögn, og það ber að harma, sér í lagi með tilliti til þess hraða sem nú á að verða á afgreiðslu þessa máls hér í hv. deild.

Nú tel ég reyndar líka að miðað við þær tölur um aukna fjármagnsþörf, sem lesa má úr gögnum Hallgríms Snorrasonar hjá Þjóðhagsstofnun og einmitt eru byggðar á forsendum úr þeim gögnum sem fyrir hafa legið um hríð, hefði félmrh. átt að beita sér fyrir að skerðingin á þeim sjóðum, sem standa eiga undir þessum verkefnum húsnæðismálalöggjafarinnar, hefði ekki verið svo mikil sem raun ber vitni. (Gripið fram í.) Nei. það er ekki gert. Þvert á móti á sér stað veruleg skerðing á Byggingarsjóði verkamanna og á Byggingarsjóði ríkisins. Það er nógu erfitt að brúa það bil á fjármagnsþörf sem breyting Ed. hefur í för með sér þótt þessu hefði verið sleppt.

Það er nauðsynlegt að hv. þdm. geri sér vel ljós þau yfirboð sem í brtt. Ed. felast. Erfitt er að standa að þeim skuldbindingum, sem þau setja, án þess að skýring fáist á hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst standa við fjármögnunarþætti þess. Á fskj. V með þessu nál. koma yfirboðin vel í ljós. Vitaskuld ber að undirstrika að hér er um vísbendingar að ræða sem byggðar eru á útreikningum Þjóðhagsstofnunar til félmrh. 2. apríl. Engu að síður gefa þær okkur allgóða mynd af hve miklar fjármagnsskuldbindingarnar eru sem Alþ. er um það bil að lögfesta. Er nokkurs virði að alþm. leiði að því hugann, hvað hér er á ferðinni.

Vitaskuld hef ég ekki á móti því ef hægt væri að veita húsbyggjendum þau lán sem brtt. Ed. fela í sér. En ég vil jafnframt gera mér ljóst hversu mikið fjármagn hér er um að tefla og hvort raunhæft sé að ætla að við skuldbindingarnar verði staðið eða hvort við séum hér að vekja gyllivonir fólks sem ekki er hægt að standa við.

Frv. það, sem Magnús H. Magnússon lagði fram, var þaulútreiknað með tilliti til lánskjara á þann hátt að ástæða var til að ætla að við það væri hægt að standa. Það kemur fram í töflum með frv. Magnúsar H. Magnússonar þannig að útreikningar um kostnaðarmat, eins og lögin um stjórn efnahagsmála gera ráð fyrir, eru þar skýrir. Fskj. V í nál. gefur okkur nokkuð ljósar hugmyndir um að við byggjum á veikum stoðum, að við séum hér að lögfesta félagslegar umbætur sem við getum með nokkuð góðum rökum ályktað að torvelt sé að standa við. Þar kemur fram að lánsfjárþörf Byggingarsjóðs verður á næstu 10 árum 102.5 milljarðar kr., en lánsfjárþörf Byggingarsjóðs verkamanna 99 milljarðar, en vex við lengingu lánstímans úr 32 árum í 42 ár í 110 milljarða. Samtals er því óbrúuð fjárþörf næstu 10 ára 212.5 milljarðar kr. Til samanburðar kemur fram, að lánsfjárþörf samkv. upphaflegu frv. Magnúsar H. Magnússonar er tæpir 80 milljarðar. Því gefa þessir lauslegu útreikningar sterka vísbendingu um að umframfjárþörf miðað við brtt. Ed. sé um 130 milljarðar næstu 10 árin frá upphaflegu frv. Magnúsar H. Magnússonar. Engin skýring liggur fyrir á því hvernig hæstv. ríkisstj. hyggst afla þeirra fjármuna.

Þar sem þessar tölur eru byggðar á útreikningum Hallgríms Snorrasonar hjá Þjóðhagsstofnun frá 2. apríl, að teknu tilliti til breyttra forsendna frá þeim útreikningum miðað við brtt. Ed., svo sem varðandi lánskjörin, verður ekki fram hjá því gengið, að þær gefa okkur til kynna ógnvekjandi staðreyndir í þessu máli varðandi fjármagnsþörfina, sem ég dreg í efa að þm. hafi gert sér grein fyrir áður, eða rúmlega 210 milljarða kr. lántökuþörf næstu 10 árin eða um 20 milljarða á ári hverju. Það er nauðsynlegt að gera sér þetta ljóst. Skattheimta og lántökur eru þegar orðnar hættulega miklar í okkar þjóðfélagi. Við getum auðveldlega tekið dæmi hvað gæti þýtt 20 milljarða kr. lántaka á ári. Hún gæti t. d. þýtt að ríkisstj., sem nú þegar ætlar að lögfesta 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna, þyrfti að lögfesta 80% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna. (Félmrh.: Leyfir hv. þm. að ráðh. fari í símann í eina mínútu? — Forseti: Það er miklu fremur að spyrja mig að því, og ég leyfi það.)

Við getum tekið annan samanburð. 20 milljarðar eru um það bil helmingur af tekjuskatti einstaklinga, sem nú er 38.7 milljarðar með byggingarsjóðsgjaldi. Varla getur ríkisstj. ætlað að fá þetta fjármagn á þann hátt. 20 milljarðar eru einnig 3.5% í söluskatti. Varla er ríkisstj. fús að láta hluta af söluskattstekjum sínum af hendi til íbúðabygginga, ef marka má hvað hún snerist gegn því að auka hlutdeild sveitarfélaga í söluskattstekjum til að koma í veg fyrir aukna skattbyrði landsmanna.

Mörgum spurningum er því ósvarað nú þegar um það bil er verið að lögfesta þetta frv. með brtt. Ed., og skoðun mín er sú, að ef velja á þessa leið í húsnæðismálakerfinu, sem Ed. markar, og raunhæf leið er valin til að standa við þá löggjöf verði það ekki gert nema með verulegum sparnaði á öðrum sviðum ríkisbúskaparins. Eru þm. reiðubúnir til þess? Er hæstv. ríkisstj. reiðubúin til að spara á öðrum sviðum ríkisbúskaparins til þess að hægt sé að standa við þessi fyrirheit? Gerðir þessarar ríkisstj. á 3–4 mánaða valdaferli gefa vart tilefni til bjartsýni í þeim efnum. Verði lántökuleiðin farin til að standa við loforð þessi mun það valda mjög aukinni þenslu í þjóðfélaginu og uppbygging húsnæðismálakerfisins mun springa í höndum okkar vegna þess að við höfum spennt bogann of hátt. Upphaflega frv. var raunhæf löggjöf, sem skilar okkur 80% lánamarkinu mun fyrr en brtt. stjórnarsinna munu gera. Það er einnig nokkurs virði að hugleiða hvort ekki er raunhæfara að ná því markmiði fyrr en að lánstíma og vaxtakjörum sé breytt á þann hátt að ekki sé hægt að gera sér vonir um að ná því marki fyrr en mörgum árum seinna, ef kerfið verður þá ekki sprungið áður.

Ég vil að lokum, með leyfi forseta, lesa hluta af nal. 1. minni hl. félmn. sem sýnir okkur t. d. að ekki er um aukningu fjármagns að ræða til félagslegra íbúðabygginga frá því sem upphaflegt frv. gerði ráð fyrir, en Alþb.-menn státa sig mikið af því þessa dagana að um aukningu sé að ræða. 1 nál. segir, með leyfi forseta:

„Í frv., eins og það var upphaflega lagt fram af Alþfl., var lagt til að ríkissjóður legði fram 20% til félagslegra íbúðabygginga og sveitarfélög 20%. — Nú er gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi fram 30% og sveitarfélög 10%, þannig að heildarframlag opinberra aðila er óbreytt. Innifalið í þessu 30% framlagi er 1% framlag sem sérmarkað er til Byggingarsjóðs verkamanna. Það er einfalt reikningsdæmi að sjá að ekki er verið að auka fjármagn til félagslegra íbúðabygginga frá því sem upphaflega var lagt til í frv. Auk þess verður að ganga út frá því, að hér sé um tilfærslu á fjármagni að ræða frá Byggingarsjóði ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna sem nemur 1% af launaskatti eða rúmum 5 milljörðum, þegar á það er litið að felld var till. Alþfl. í Ed. um að 2% af launaskatti renni til Byggingarsjóðs ríkisins, eins og hingað til hefur verið“ — enda kemur þetta kannske gleggst fram í 37. gr. eins og hún er nú orðin frá Ed., en þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Með árlegum framlögum,“ stendur í b-lið 37. gr. „úr ríkissjóði sem nemi tekjum hans af 1% launaskatti og framlagi á fjárlögum ef með þarf til þess að framlag ríkissjóðs ár hvert nemi 30% af fjármagnsþörf sjóðsins.“

Ég held að þetta geti ekki verið skýrar orðað. Við skulum því gera okkur ljóst, að uppbygging verkamannabústaða stendur ekkert tryggari fótum eftir þessa breytingu. Þvert á móti veikir þetta stöðu þess að við getum byggt upp verkamannabústaði, því að á fskj. V í nál. á fskj. 637 kemur í ljós að fjárhagsgrundvöllurinn er ótraustari, en þar kemur í ljós að lánsfjárþörf er 110 milljarðar miðað við lengingu lánstímans um 10 ár, eða úr 80 milljörðum miðað við frv. Magnúsar H. Magnússonar í 110 milljarða miðað við breytingu Ed. Þetta verða þm. að gera sér ljóst og þá ekki síður verkalýðshreyfingin. Það er einnig jafnljóst, að við erum mörgum árum lengur að ná hámarkslánahlutfallinu miðað við breytingar Ed. Þessa staðreynd verða þm. og verkalýðshreyfingin líka að vega og meta. Og sú breyting að skerða fjármögnunarmöguleika Byggingarsjóðs ríkisins verður til þess að lánamöguleikar hans minnka verulega, sem mun valda auknum þrýstingi á félagslega kerfið. Þessa staðreynd verða þm. og verkalýðshreyfingin einnig að hafa í huga því að stór hluti launafólks innan Alþýðusambands Íslands er yfir því hámarki sem þarf til þess að fá keyptar félagslegar íbúðir. Mörgu er því enn ósvarað.

„Einnig má benda á, að lántökuþörf Byggingarsjóðs verkamanna verður komin yfir 11 milljarða kr. árið 1984 samkv. framlögðum gögnum, sbr. fskj. III, og er þá ekki reiknað með lengingu lánstímans, eins og samþykkt var í Ed., þannig að fjárþörfin er í reynd töluvert meiri.

Ljóst er einnig að brtt. stjórnarsinna í Ed. stefna stöðu Byggingarsjóðs ríkisins í mikla tvísýnu. Af framlögðum gögnum Hallgríms Snorrasonar hjá Þjóðhagsstofnun og töflum með frv. Magnúsar H. Magnússonar má ráða að lántökur Byggingarsjóðsins verði á fyrstu 5 árunum að nema 16.3 milljörðum kr. hærri upphæð en frv. í upphaflegri mynd gerði ráð fyrir — og að 10 árum liðnum, þ. e. um 1990, hefur lántökuþörfin aukist svo verulega að hún verður yfir 20 milljörðum kr. hærri upphæð á ári en þurft hefði að óbreyttu frv. Lenging lánstímans og lækkun vaxta samkv. till. stjórnarliða skerða ráðstöfunarfé sjóðsins um 28.4 milljarða kr. á árunum 1980–1990, miðað við 3% vexti á lántökum sjóðsins.

Á sama tíma og þessi yfirboð koma fram leggja stjórnarsinnar til að Byggingarsjóður ríkisins verði skertur um 4 milljarða.

Hér stangast því á raunveruleikinn og fögur fyrirheit slíkrar löggjafar, sem er alls óviðunandi, einkum ef slík löggjöf er liður til lausnar í kjaradeilunni, eins og komið hefur fram í máli stjórnarsinna.

Alþfl. taldi nauðsynlegt að fá fram hjá Þjóðhagsstofnun útreikninga á ýmsum þáttum frv. með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar höfðu verið á frv. og fjármagnsþáttum þess.

Þjóðhagsstofnun telur að slíkir útreikningar taki um vikutíma, og tilmælum 1. minni hl. félmn. um, að niðurstöður þeirra lægju fyrir áður en frv. yrði afgreitt úr n., var hafnað og verða slík vinnubrögð að teljast ámælisverð. En félmn. var gert að afgreiða þetta viðamikla frv. á þremur dögum.

Samstaða er þó innan félmn. um að Þjóðhagsstofnun verði áfram falið að framkvæma útreikningana og leggja þá fyrir eins fljótt og verða má. Upplýsingar, sem undirrituð óskaði eftir að fyrir lægju, fylgja sem fskj. með þessu nál.

Þó telja verði að forsendur raunhæfrar ákvarðanatöku hljóti að felast í niðurstöðum þessara útreikninga, þá er það mat Alþfl., að flestar grundvallarhugmyndir, sem fram komu í frv. eins og það var lagt fram, standi. — Þó verður ekki fram hjá því gengið, að fjármögnunarmöguleikum húsnæðiskerfisins í heild er stefnt í mikla tvísýnu með þeim breytingum sem á því hafa orðið.“

Og síðan segir í lok nál.: „Í trausti þess, að litið verði nánar á fjármögnunarþætti frv, að nýju, þegar umbeðnar upplýsingar liggja fyrir, leggur 1. minni hl. til að frv. verði samþ. með þeim breytingum sem fluttar eru á þskj. 573.“

Að lokum, herra forseti, treysti ég því, að þm. hugleiði vel þær tölur sem koma fram í nál. mínu. Ég legg áherslu á að sérstaklega er það nauðsynlegt að slík löggjöf á að verða liður til lausnar á kjaramálunum, eins og stjórnarsinnar hafa gefið í skyn. Launafólk verður að geta treyst því, að um raunverulegar kjarabætur sé að ræða, því að varla er það meiningin að verkalýðshreyfingin þurfi að kaupa þessar félagslegu umbætur ár eftir ár næstu árin. Er staðreyndin ekki einfaldlega sú, að verkalýðshreyfingin og það fólk, sem treystir á að þetta baráttumál sé í höfn með samþykkt þessa frv., standi frammi fyrir þeirri staðreynd, að baráttan sé öll eftir? Þetta er spurning sem við verðum að hugleiða líka vegna þess að ekki er mikið í frv. sem tryggir að hægt sé að standa við þessar skuldbindingar. Ég bið því hv. þdm. að hugleiða vel hvort hér sé verið að vekja gyllivonir verkalýðshreyfingarinnar og annarra sem eftir þessari löggjöf bíða, við séum hér ekki að vekja vonir sem við, þegar upp er staðið, getum ekki staðið við.