09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að sett séu lög um Sinfóníuhljómsveit Íslands, ef sú stofnun á að starfa áfram í þjóðfélaginu á annað borð. Þessi stofnun hefur starfað til þessa án þess að um hana væru sérstök lög, og það ástand er í sjálfu sér ekki þess eðlis að rétt sé að mæla með því að svo verði framvegis.

Í aths. með frv. er rakin að nokkru forsaga þessa frv., en ekki nema að nokkrum hluta. Þar er þess getið, að frv. sé samið af nefnd sem skipuð hafi verið hinn 31. ágúst 1978, en áður hafi starfað nefnd sem skipuð var af fyrri menntmrh. Í þeirri nefnd átti ég sæti sem fulltrúi fjvn. Alþingis, en nefndin starfaði þá undir forustu Birgis Thorlacius ráðuneytisstjóra í menntmrn. Sú nefnd klofnaði í afstöðu til þessa máls og er þess hvergi getið í aths. með þessu frv.

Ég var annar þeirra tveggja nm. sem skipuðu minni hl. í þeirri nefnd. Hinn var þáv. skrifstofustjóri fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn., Örn Marinósson. Það, sem ágreiningi olli, var vitaskuld það sem snerti fjármál þessarar stofnunar. Í fjárlagafrv. því, er nú liggur fyrir Alþ., er gert ráð fyrir að ríkissjóður verji til Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árinu 1980 216.3 millj. kr. Auk þess eru framlög, sem ætlast er til að komi frá Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpi, eftir þeim hlutföllum sem hér hefur verið greint frá.

Það, sem við Örn Marinósson gerðum að ágreiningsefni á sínum tíma, var tala fastráðinna hljóðfæraleikara við hljómsveitina, en í þessu frv. er gert ráð fyrir að þeir verði að lágmarki 65. Á þeirri tíð hygg ég að ég muni rétt að hljómfæraleikarar við hljómsveitina hafi verið 59 og áður höfðu þeir verið færri. Nú er það vitaskuld svo, — enda þótt ég sé hvergi nærri neinn sérfræðingur eða hafi mikla þekkingu á tónlistarflutningi, — að tónverk eru þess eðlis, að þau þarfnast misjafnlega margra hljóðfæraleikara í flutningi. Eðlilegt er að þegar lög eru sett um þessa stofnun sé tala starfsmanna, sem lögbundin er, höfð nokkuð í lágmarki, síðan séu veittar heimildir af Alþ. hverju sinni með fjárlagaafgreiðslu til að lausráða starfsmenn í einstökum tilvikum vegna flutnings tónverka sem krefjast fleiri starfsmanna. Ég held að enn séu í fullu gildi þær aths. sem leiddu til þess að við Örn Marinósson klufum nefndina um þetta mál á sinni tíð. Ég vil því láta þessa getið hér við 1. umr. þessa máls og beina því til þeirrar hv. n., menntmn. þessarar hv. d., sem fær þetta mál til meðferðar, að hún athugi einnig fjármálalega og kostnaðarlega hlið þessa máls. Hún gæti þá kynnt sér þau gögn, sem lágu fyrir við starf þeirrar nefndar sem var undir forustu Birgis Thorlacius á sínum tíma, og athugað hvort hún sér ástæðu til að taka eitthvert mið af þeim röksemdum sem fram komu í áliti okkar minnihlutamanna þar.

Það er títt að alþm. tali um að spara þurfi í útgjöldum ríkisins. Það er ákaflega vinsælt að segja slíkt á kosningafundum eða öðrum fundum þegar rætt er við fólkið í landinu. En því miður gætir þessa ekki nærri því eins staðfastlega þegar fjallað er um einstök þingmál sem krefjast nýrra og vaxandi útgjalda ríkissjóðs. Þess vegna er einnig skylt og rétt að hafa þennan þátt málsins í huga þegar mál af þessu tagi er afgreitt.

Að þessum orðum loknum vil ég aðeins endurtaka það sem ég sagði í upphafi, að eðlilegt er að lög séu sett um þessa stofnun, og það er ekki við hæfi að stofnanir, hvort sem þær sinna listflutningi eða öðrum viðfangsefnum í þjóðfélaginu, starfi árum og jafnvel áratugum saman án þess að hafa til þess lagalegan grundvöll. Þess vegna er tímabært og jafnvel meira en tímabært að lög um þetta efni verði sett.