28.05.1980
Efri deild: 104. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3150 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

180. mál, lánsfjárlög 1980

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna fsp. frá hv. 3. þm. Norðurl. e. þykir mér rétt að veita honum nokkra úrlausn að því er snertir spurningar hans um innlenda skipasmíði og varðandi Kröfluvirkjun.

Ég heyri á máli hv. þm. að hann hefur nokkrar áhyggjur af því að fjármagn Fiskveiðasjóðs sé ekki svo ríflegt sem skyldi, þannig að einhver hætta geti verið á því að þau verkefni, sem annars takast samningar um varðandi skipasmíðar innanlands, hljóti ekki þá fyrirgreiðslu hjá Fiskveiðasjóði sem eðlilegt væri. Við undirbúning fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar hafði ég hliðstæðar áhyggjur um þetta efni og hv. þm. og ítrekaði það mjög við undirbúning þessarar lánsfjáráætlunar, að þarna yrði gætt vel að þannig að ekki kæmi til þess að draga þyrfti úr verkefnum hjá innlendum skipasmíðastöðvum af þessum sökum. Mér var tjáð af hæstv. fjmrh. og Framkvæmdastofnun, sem stóð að þeim áætlunum sem fram voru lagðar um þetta efni, að fyrir þessu ætti að vera séð svo að ekki þyrfti að koma til þess að þarna yrði um skerðingu að ræða.

Ég vil vitna í þessu sambandi til þess sem stendur í texta fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar varðandi innlenda skipasmíði og fyrirgreiðslu við hana, en það er á bls. 16, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir, á bls. 16:

„Eins og áður þarfnast Fiskveiðasjóður lánsfjár langt umfram aðra lánasjóði atvinnuveganna. Valda því hin miklu skipakaup liðinna ára. Þó ber þess að geta, að innlendar skipasmíðar hvers árs eru nú fjármagnaðar með beinum erlendum lánum meðan á smíði stendur, en lánin verða síðan yfirtekin af Fiskveiðasjóði. Lánveiting til Fiskveiðasjóðs samkv. lánsfjáráætlun, 6 900 millj. kr., skapar sjóðnum útlánagetu sem nemur 10 300 millj. kr. Af þeirri tölu eru þó um 3 200 millj. kr. bundnar vegna áður gerðra skipakaupa, tækjakaupa og viðgerða. Eru þá eftir um 7 100 millj. kr. til nýrra lána. Ætlunin er, að af þeirri fjárhæð verði 4 600 millj. kr. varið til lánveitinga til vinnslustöðva fiskiðnaðarins, enda afar brýnt að lokið sé hið fyrsta uppbyggingu hraðfrystihúsanna“ o. s. frv. Læt ég þessa tilvitnun nægja varðandi þetta.

Af þessu má ráða að um 2 500 millj. kr. séu þarna til ráðstöfunar vegna nýrra verkefna í skipasmíðaiðnaði, og auk þess er gert ráð fyrir erlendri lántöku vegna innlendrar skipasmíði sem nemur 3 milljörðum kr. Heildarupphæðin virðist mér því vera um 5 500 millj. kr. sem þarna gæti verið til ráðstöfunar til þessa samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. En um þetta segir nánar, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Í fiskiskipakaupum er reiknað með 18% samdrætti. Innlend skipasmíði og endurbætur voru með mesta móti á s. l. ári, og líklegt er að nýting afkastagetu skipasmíðastöðva, sem annast nýsmíði, hafi verið óvenjugóð. Innlend nýsmíði og endurbætur eru samtals metnar til yfir 10 milljarða kr. 1979, og á þessu ári eru horfur á að nýsmíði verði litlu minni eða sem samsvarar 1400 smálesta smíði ef umreiknað er í smálestir í skuttogurum, samanborið við 1500 smálestir á liðnu ári. Ákveðið hefur verið að fjármagna innlenda skipasmíði beint með erlendum lánum, sem komi í stað smíðalána Fiskveiðasjóðs, en þessi lánstilhögun er ekki fullfrágengin og getur hún ráðið nokkru um framkvæmdahraða. Endurbætur eldri skipa verða sennilega talsvert minni en á s. l. ári, enda minni verkefni fyrirliggjandi. Í spánni er reiknað með innflutningi þriggja togara, sem ákvarðanir hafa verið teknar um, en ekki reiknað með frekari kaupum fiskiskipa frá útlöndum á árinu.“

Ég vænti þess, að það, sem hér liggur fyrir í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, hrökkvi fyrir þeim verkefnum, sem ráð er fyrir gert, án þess að til skerðingar þurfi að koma eða seinkunar á samningum um verkefni. Ég vil þó taka það fram, að sjálfur hef ég haft vissar efasemdir um að þarna sé fyllilega raunsætt mat á ferðinni, en svör við fsp. og eftirgrennslan voru ekki á þá lund að ástæða væri talin til að flytja brtt. um þetta við undirbúning fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar.

Varðandi þau tilvik sem hv. þm. vék að, að hafnað hafi verið láni út á tiltekið skip hjá Fiskveiðasjóði, en samþykkt að lána fyrir innflutningi á skipi frá Noregi, get ég ekki veitt hér nein svör þar sem mér er ekki kunnugt um þessi tilvik. Þau hafa ekki komið til kasta í mínu rn. og ég hef engar upplýsingar fengið þar að lútandi og ekki tilfærði hv. þm. nákvæmlega þau dæmi. Nú getur verið ýmislegt sem veldur því, að umsóknir um lán úr Fiskveiðasjóði hljóti ekki staðfestingu á þeim tíma sem menn vænta þess, vegna þess sumpart að formsatriðum sé ekki fullnægt sem skyldi, þ. á m. þeim hluta sem væntanlegum eiganda er ætlað að leggja fram sjálfum. Ég skal ekkert um það dæma, hvað um var að ræða í því tilviki sem hér var nefnt.

En fyrir utan það sem hér greinir er rétt að geta þess, að til hagræðis í skipasmíðaiðnaði og framkvæmda við dráttarbrautir er gert ráð fyrir lántöku sem nemur um 650 millj. kr. Við í iðnrn. lögðum á það sérstaka áherslu, að þetta fjármagn fengist og því yrði varið í samræmi við áætlun sem sérstakur starfshópur, sem vann á vegum rn. með aðild Vita- og hafnamálaskrifstofunnar, gerði tillögur um í vetur, og að þessu lánsfjármagni verði varið til þess að fjármagna þann hluta sem ríkissjóði ber að inna af hendi lögum samkv. varðandi slíkar framkvæmdir, en það nemur um 40% af framkvæmdaupphæð. Auk þess er gert ráð fyrir að Iðnlánasjóður geti í ár sem á liðnu ári veitt hagræðingarlán til skipasmíðastöðva og í umsóknum iðnrn. um fjárveitingar til sjóðsins var gert ráð fyrir 600 millj. kr. fjárveitingu í þessu skyni. Heildarfjárveiting fékkst ekki eins og um var sótt, þannig að það getur verið að eitthvað minna verði til ráðstöfunar, en alla vega mun það nema umtalsverðu fjármagni sem þannig rennur til endurbóta og hagræðingar í skipasmíðastöðvum og ætti að verða til að bæta framleiðni þeirra svo sem veruleg nauðsyn er að takist.

Þá vil ég stuttlega geta Kröfluvirkjunar og þeirra framkvæmda sem þar eru áformaðar. Upphæðin, sem gert var ráð fyrir á fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, um 1750 millj. kr., er byggð á því, að boraðar yrðu tvær holur fyrir Kröfluvirkjun og möguleiki væri á að tengja báðar. Mér sýnist að sú 10% skerðing, sem hér er gert ráð fyrir, geti stefnt þessu áformi í nokkra tvísýnu. En möguleikar ættu þó að vera á því að leita eftir frekara fjármagni eða fjármagna það með innlendu fé að hausti ef útlit er þannig að nýtanleg gufa fáist úr báðum þessum holum, svo sem vissulega er ástæða til að vona að geti orðið. Ég geri ekki ráð fyrir að með þann orkuskort, sem fyrirsjáanlegur er í landskerfinu á komandi vetri, verði látið stranda á 100 eða 200 millj. kr. að nýta hugsanlegt afl sem fengist við ráðgerðar boranir fyrir Kröfluvirkjun í sumar.