17.12.1979
Sameinað þing: 3. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

2. mál, viðskiptasamningur EFTA-landanna og Spánar

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur lagt fram till. til þál. þar sem farið er fram á að Alþingi heimili ríkisstj. að fullgilda viðskiptasamning milli EFTA- landanna og Spánar, sem undirritaður var í Madrid hinn 26. júní s.l., svo og samning um gildi viðskiptasamningsins gagnvart furstadæminu Liechtenstein, sem undirritaður var í Madrid sama dag.

Undirbúningur að gerð þessa samnings hefur staðið í nokkur ár og er gert ráð fyrir að hann gangi í gildi eigi siðar en hinn 1. jan. 1980, ef þau lönd, sem hann hafa undirritað, fullgilda hann fyrir þann tíma. Samningur þessi kemur þannig til framkvæmda um leið og hann hefur verið fullgiltur af ríkjum þeim sem að honum standa. Hafi öll ríkin hins vegar ekki staðfest hann fyrir 1. jan. 1980 koma fulltrúar þeirra ríkja, sem samninginn hafa fullgilt, saman og ákveða hvort samningurinn komi engu að síður til framkvæmda þeirra á milli. Einmitt af þessum sökum og að því er varðar gildistökudag þessa samnings er brýnt að hann verði afgreiddur héðan frá Alþingi fyrir áramót:

Samningurinn gerir ráð fyrir lækkun verndartolla á flestum iðnaðarvörum frá Spáni um 60% fljótlega eftir fullgildingu samningsins, en þó er lækkunin 30% og 40% á nokkrum iðnaðarvörum. Hins vegar mun Spánn lækka tolla á sumum iðnaðarvörum frá EFTA-löndunum um 60% og öðrum um 25%.

Að frumkvæði Íslands fékkst tekinn upp viðauki við samninginn, Viðauki VII, sem fjallar um fríverslun með fisk og fiskafurðir, og fylgir sérstakur vörulisti, Viðauki II. D, er telur upp þær vörur sem falla undir fríverslun þessa. Í Viðauka VII er tekið fram að stefnt skuli að frekara afnámi innflutningshafta af sjávarafurðum til Spánar með það að markmiði að innflutningur á þeim verði algjörlega frjáls.

Spánverjar fallast á að athuga að afnema svonefnt verðjöfnunargjald á sjávarafurðum. Kveðið er á um það, að innflutningsleyfi fyrir sjávarafurðum skuli veitt án tafar og þau gildi í þrjá mánuði hið minnsta. Hér er um að ræða þýðingarmikið atriði fyrir viðskiptahagsmuni Íslendinga gagnvart Spáni. Þá er Íslandi áskilinn réttur til að bera fram umkvörtun við sameiginlegu nefndina um þessi viðskipti.

Í vörulistanum í Viðauka II. D. er greint frá því, að tollur muni lækka á vissum sjávarafurðum um 60%, t.d. á mjöli og lýsi, en á öðrum um 25%, þ. á m. saltfiski sem er okkar langmikilvægasta útflutningsvara til Spánar, og lækkar tollur á honum því úr 10% í 7,5 % samkv. þessu.

Útflutningur Íslands til Spánar árið 1978 var 2.6% af heildarútflutningi Íslands. Var fluttur út saltfiskur fyrir tæpa 4.4 milljarða kr., en það voru rúm 96% af útflutningnum til Spánar. Innflutningur Íslands frá Spáni árið 1978 var hins vegar 0.6% af heildarinnflutningi Íslands það ár. Voru helstu innflutningsvörurnar salt, ávextir, vín, flutningatæki og vefnaðarvara.

Svo sem greint er frá í aths. með þáltill. eru ýmsar helstu innflutningsvörurnar tollfrjálsar hér á landi og á öðrum eru ekki sérréttindatollar eftir því hvort varan kemur frá fríverslunarsvæði eða ekki, þannig að aðild að samningnum veldur þegar af þeirri ástæðu ekki missi tolltekna hér á landi á þeim vörum. Niðurstaðan miðað við viðskipti Íslands og Spánar árið 1978 sýnir að viðskiptasamningurinn leiðir til 25 % tollalækkana á Spáni á svo til öllum útflutningsvörum okkar, en tollalækkanir okkar á spænskum vörum taka aðeins til mjög lítils hluta innflutningsins, þ. á m. hluta vefnaðarvara, unninna málmvara og ótilgreindra vara. Verður missir tolltekna í heild því mjög óverulegur.

Með gerð þessa viðskiptasamnings við Spán er ekki aðeins tryggt að sömu tollalækkanir verði í viðskiptum aðildarlanda Fríverslunarsamtaka Evrópu og Spánar með iðnaðarvörur og ríki Efnahagsbandalags Evrópu og Spánn höfðu samið um þegar á árinu 1970, heldur er einnig lagður grundvöllur að því, að frekari tollalækkanir á iðnaðarvörum milli EBE- landanna og Spánar í framtíðinni komi til með að gilda milli EFTA-landanna og Spánar.

Samningurinn mun gilda þar til Spánn verður aðili að Efnahagsbandalagi Evrópu, en fastlega er gert ráð fyrir að það geti orðið á árinu 1983. Mun samningurinn þá falla úr gildi, en við taka fríverslunarsamningur hvers EFTA-ríkis um sig við Efnahagsbandalagið með óhjákvæmilegum breytingum.

Með hliðsjón af þeim gildu rökum, sem hér hafa verið færð fram, virðist aðild að samningnum ótvírætt verða Íslandi til hagsbóta. Er því lagt til að Alþingi veiti heimild til fullgildingar samningsins þannig að hann geti gengið í gildi eigi síðar en hinn 1. jan. 1980.

Varðandi frekari rökstuðning með þessari till. til þál. leyfi ég mér að vísa til aths. með þáltill., jafnframt því sem ég legg enn áherslu á, að þetta mál fáist hér afgreitt fyrir áramót, og legg til, að málinu verði vísað til utanrmn. og síðari umr.