09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

23. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það er ástæðulaust að lengja þessar umr. mjög þar sem þetta mál hefur oft áður verið hér til umræðu. Mátti raunar engu muna á s.l. vori að tækist að afgreiða málið þá. Þá hafði málið fengið fullnaðarafgreiðslu úr Ed. Alþingis og hafði gengið í gegnum 1. umr. og til n. sem skilað hafði áliti hér í Nd. En á lokastigi málsins vannst ekki tími til að afgreiða það, þar sem komið var fram á seinasta þingdag. Mér er nær að halda að málið hefði náð fram að ganga ef við hefðum haft svo sem einn eða tvo tíma til umráða til þingstarfa. En það fór sem fór, og nú er málið komið fram á nýjan leik. Ég ætla að vonast til að málið verði afgreitt fljótlega. Ég tel að það sé búið að vera hér svo lengi í þingsölum að ástæðulaust sé að framgangur þess tefjist meir en orðið er. Það er orðið mjög brýnt að lagagrundvöllur fáist undir starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem hefur starfað mjög lengi án þess að slíkur grundvöllur væri fyrir hendi.

Vissulega hafa ýmis ágreiningsmál verið uppi um starfsemina. Eitt ágreiningsmálið varðar fjölda hljóðfæraleikaranna sem fastráðnir skulu teljast. Annað ágreiningsmálið snertir tengsl og samband hljómsveitarinnar við Þjóðleikhúsið.

Varðandi fjölda hljóðfæraleikara er það nú svo, að um það náðist samkomulag við undirbúning málsins milli fulltrúa menntmrn., fulltrúa fjmrn. og fulltrúa Sinfóníuhljómsveitar að rétt væri að miða við töluna 65 stöðuígildi. Ég held að sú tala sé fengin að vandlega yfirlögðu ráði. Ég vil leyfa mér að fullyrða að það séu ákveðin takmörk sett fyrir því um hversu fámennan hóp getur verið að ræða ef hljómsveitin á að starfa sem fullgild sinfóníuhljómsveit. Annaðhvort rekum við hljómsveit sem stendur undir nafni eða ekki. Það hefur verið samstaða um að þessi hljómsveit skyldi starfrækt í þjóðfélagi okkar, að því er mikill menningarauki og þarf ekki frekar að fjölyrða um það. En ég vil sem sagt mjög vara við því, ef þm. hugsa sér að fara að skera niður áður nefnda tölu af skammsýnum sparnaðarástæðum. Eins og ég hef hér sagt: Annaðhvort rekum við hljómsveit, sem stendur undir því nafni, eða ekki.

Í þessu frv. eru ýmis nýmæli í sambandi við starfsemi hljómsveitarinnar sem náðist ágæt samstaða um. Vissulega er það rétt, að í aths. við frv. er ekki rakin saga þess langt aftur í tímann eða getið um þær deilur sem hér stóðu áður fyrr. Ég veit ekki hvort það væri út af fyrir sig til mikilla bóta að rifja þær upp þegar samstaða hefur náðst um flest atriði þeirra deilna. En ég vil sem sagt að endingu skora mjög eindregið á menntmn. d. og þm. alla að styðja þetta mál og tryggja framgang frv. óbreytts.