28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3175 í B-deild Alþingistíðinda. (3107)

17. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 1. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þegar ég mælti fyrir nál. 1. minni hl. gerði ég grein fyrir vísbendingum um lánsfjárþörf byggða á útreikningum Hallgríms Snorrasonar hjá Þjóðhagsstofnun til ráðh. 2. apríl, sem bentu til að lánsfjárþörf miðað við tekjupósta frv. og brtt. Ed. yrði um 200 milljarðar næstu 10 árin ef ekki kæmi aukið fé úr ríkissjóði umfram það sem fram kemur í frv. Nú liggur fyrir hluti af upplýsingum sem óskað var eftir hjá Þjóðhagsstofnun í framhaldi af meðferð félmn. á málinu. Hér er þó aðeins um hluta af þeim upplýsingum að ræða. Þessar viðbótarupplýsingar tel ég að renni enn frekari stoðum undir að vísbendingar, sem fram koma í nál. mínu séu réttar.

Vil ég þá fyrst víkja að töflu II í nál. mínu, sem hæstv. félmrh. gerði að umtalsefni fyrr í dag. Í útreikningum, sem við fengum í dag frá Þjóðhagsstofnun, kemur fram varðandi Byggingarsjóð ríkisins að lánsfjárþörf Byggingarsjóðs ríkisins geti orðið um 120 milljarðar, en ekki 102, eins og fram kemur í mínu nál. Hér er byggt á að 1% af launaskatti renni til Byggingarsjóðs ríkisins. Hitt er svo ljóst, að eftir því hver fjárframlög á fjárlögum verða til þessara þátta fer lánsfjárþörfin, en ganga verður út frá þessari fjármagnsvöntun sem lánsfjárþörf meðan ekki liggur fyrir hvernig afla eigi þess fjár sem vantar til að standa við skuldbindingar frv. Auk þess er ljóst að miðað við aðeins 1% framlag af launaskatti til Byggingarsjóðs ríkisins munu þurfa að aukast verulega næstu árin framlög úr ríkissjóði, en sjóðurinn mun ekki standa undir sér sjálfur að óbreyttu framlagi úr ríkissjóði. Það sést greinilega á nýjum útreikningum Þjóðhagsstofnunar.

Í máli hæstv. félmrh. kom reyndar ekkert fram sem hrekur þá tölu að lánsfjárþörfin vegna Byggingarsjóðs ríkisins verði á annað hundrað milljarðar næstu 10 árin nema til komi aukið fjármagn úr ríkissjóði. Auk þess verður að hafa í huga að ef dregið er úr framlögum til Byggingarsjóðs ríkisins stóreykst þrýstingurinn á félagslega kerfið. Við skulum hafa hugfast, vegna þess að að því hefur verið látið liggja að þetta frv. verði liður til lausnar kjaramálanna, að stór hluti félagsmanna innan ASÍ er yfir því hámarki er varðar tekjumörk til að fá keyptar félagslegar íbúðir. Tel ég að nærri liggi að það geti verið um 2/3 félagsmanna.

Varla getur hæstv. félmrh. mótmælt því, sem fram hefur komið í máli mínu að fjármögnunarmöguleikar Byggingarsjóðs ríkisins standa mjög veikum fótum eftir breytingar Ed. Niðurstaða mín varðandi Byggingarsjóð ríkisins stendur því óhögguð, að nema veitt sé meira úr ríkissjóði í það kerfi verði lánsfjárþörfin ógnvekjandi og niðurstaðan sennilega á annað hundrað milljarðar næstu 10 árin vegna skuldbindinga frv. við hinn almenna lánamarkað.

Varðandi Byggingarsjóð verkamanna reyndi hæstv. félmrh. að hrekja þær tölur er ég dró upp í nál. mínu í töflu I. Ein röksemdafærslan í máli hæstv. ráðh. var að ekki væri um að ræða sömu stærð á íbúðum verkamannabústaða og gengið hefði verið út frá í frv. Magnúsar H. Magnússonar. Rétt er það, að brtt. Ed. gera ráð fyrir stærri íbúðum í verkamannabústöðum. En varla verður því á móti mælt, að stækkun þeirra íbúða kallar á meira fjármagn. Því er þessi röksemdafærsla langsótt til leiðréttingar því að tölur mínar væru of háar. Vitaskuld eykst lánsfjárþörfin í félagslega íbúðakerfinu við stækkun íbúða. Lánakjörin, sem fást hjá lífeyrissjóðunum, skipta einhverju máli í töflu I í nál. mínu, sem hæstv. ráðh. vitnaði sem mest í, en mest hlýtur það að stafa af stærri íbúðum en í upphaflegu frv. Magnúsar H. Magnússonar. Í töflu I var mismunurinn um 20–30 milljarðar vegna Byggingarsjóðs verkamanna á till. Magnúsar H. Magnússonar og till. Ed. Hæstv. félmrh. gaf einungis skýringu á útreikningunum, en hrakti þá ekki. Þannig er þessi umframlánsfjárþörf til staðar. Skýringin er stækkun íbúða, sem kallar á aukið fjármagn, sem er efalítið stærsti liðurinn í mismuninum í töflu I, en aukin lánsfjárþörf er ekki hrakin. Það hefði verið skemmtilegra ef hæstv. ráðh. hefði gefið okkur skýringar á hvernig á að mæta stækkun íbúðanna öðruvísi en með lánsfjármagni.

Ráðh. talaði einnig um að samanburðurinn væri ekki nægilega traustur þar sem ekki væri gert ráð fyrir hinum 1% fasta launaskatti í Byggingarsjóð verkamanna. Því er til að svara, að í fyrsta lagi er hér eingöngu um tilfærslu frá Byggingarsjóði ríkisins til Byggingarsjóðs verkamanna að ræða. Annað verður ekki séð vegna þess að till. að því lútandi, að Byggingarsjóður ríkisins héldi sínum 2%, var felld í Ed. Þessar mörkuðu tekjur í Byggingarsjóð verkamanna eru inni í 30% framlagi ríkissjóðs, en í brtt. Ed. áttu sveitarfélögin að greiða 10%. Frv. í upphaflegri mynd gerði ráð fyrir 20% úr ríkissjóði og 20% frá sveitarfélögum. Heildarfjármagnið í þetta kerfi er því hið sama. Ekki er bætt við fjármagnið. Hæstv. ráðh. sagði fyrr í dag, að traustara væri að þetta væri sérmarkað í Byggingarsjóð verkamanna. En það segir ákaflega lítið því að skerðingin á bundnum framlögum til þessara verkefna sem annarra hefur bitnað bæði á sjóðum sem þessum sem og föstum fjárframlögum sem skylt er að veita til ýmissa verkefna á fjárlögum.

Auk þess ber einnig á það að líta, þegar burnar eru saman breytingar á frv. og upphaflega frv.. að á næstu 4–5 árum gerði frv. Magnúsar H. Magnússonar ráð fyrir 700 íbúðum í forsendum að útreikningunum. Væri gengið út frá 100 fleiri íbúðum í þeim útreikningum, sem lagðir voru til grundvallar, hlýtur því fjármagnsþörfin að aukast. Eitt er athyglisvert einnig, að í upphaflegu frv. átti 30% lánahlutfallið að nást 1980 og 80% hámarkið á næstu 10 árum, en eins og frv. er nú orðið er gert ráð fyrir 25% lánamarki fyrst 1981.

Ég tel því að vísbendingar mínar í nál. standi óhaggaðar og hafi frekari útreikningar, sem fengust í dag frá Þjóðhagsstofnun, styrkt þá skoðun mína, sem efalítið mun koma enn frekar í ljós þegar við fáum alla útreikninga frá Þjóðhagsstofnun um þetta mál.