28.05.1980
Neðri deild: 87. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (3116)

154. mál, Bjargráðasjóður

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Vegna ummæla hv. 2. þm. Norðurl. e. um að ég hafi ekki vitað hvað ég var að gera þegar ég lagði til annars vegar bætur úr Aflatryggingasjóði til þeirra grásleppumanna, sem töpuðu netum og urðu fyrir miklu tjóni, og hins vegar bætur til bænda vegna þeirra tjóns, þá við ég segja það, að þarna er talsvert mikill eðlismunur á.

Aflatryggingasjóður er sjóður sem útgerðarmenn og sjómenn standa alfarið og eingöngu undir sjálfir. Það kemur aldrei neitt fé af almannafé inn í þann sjóð, þannig að þeir eiga hann. Í þeirra tilviki verður aldrei um það að ræða að þeir fái verðhækkanir út á tjón.

Varðandi Bjargráðasjóð og aðstoð við bændur eru málin þannig, að aukin útgjöld bænda og minnkaðar tekjur koma fyrr eða síðar fram í hækkuðu verði til neytenda. Þannig eru reglurnar um landbúnaðarverðið. Það er því ekki óeðlilegt að bætur vegna slíks skaða, sem verður endurbættur af neytendum fyrr eða síðar, verði í formi vaxtalítilla eða vaxtalausra lána, en verðtryggðra.

Hitt er svo auðvitað rétt, að þessar bætur koma ekki réttlátlega niður á bændur. Sá, sem tapar, fær e. t. v. ekki fullar bætur, heldur má segja að miðað sé við heildina. — En það er nú einu sinni einn af hornsteinum þeirrar landbúnaðarpólitíkur sem hv. þm. styður, að stórbændurnir fái mest, en þeir smáu fái minnst.