28.05.1980
Neðri deild: 88. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (3132)

194. mál, aðstoð við þroskahefta

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Frv. til l. um breyt. á lögum um aðstoð við þroskahefta er flutt af þn. til að tryggja að úr Framkvæmdasjóði öryrkja og þroskaheftra megi veita styrki til framkvæmda við heimili sjálfseignarstofnana og annarra aðila og vistheimili. Þetta frv. er búið að vera hér til umfjöllunar í nokkra daga.

Við 2. umr. hér í deild kom fram brtt. við frv., þar sem gert var ráð fyrir að við a-lið 25. gr. laganna bættist ákvæði sem kvæði á um að til viðbótar framlagi samkv. lögunum skyldi einnig veita þessum sjóði 225 millj. kr., í fyrsta sinn á árinu 1981, og skyldi sú fjárhæð hækka í samræmi við vísitölu framfærslukostnaðar miðað við árið 1980 að grunni.

Í nál. félmn. sagði, þegar málið kom til meðferðar í Nd., að n. legði áherslu á að fjárlaga- og hagsýslustofnun tæki tillit til þeirrar aukningar á verkefnum Framkvæmdasjóðs öryrkja og þroskaheftra við fjárlagagerð árið 1981 sem fælist í samþykkt frv. Jafnframt vildi n. láta koma fram þá skoðun sína, að við fjárlagagerð yrði náð fram verðtryggingu á framlagi til sjóðsins í samræmi við 25. gr. laganna.

Ég held að það sé ekki ýkjamikill efnislegur ágreiningur um þetta mál. Félmn. var sammála um það, eins og hér kom fram, að auka þyrfti framlög til sjóðsins með hliðsjón af því að verkefni sjóðsins yrðu aukin frá því sem áður hafði verið ætlað. En ýmsir þm. höfðu nokkuð við það að athuga að með þessari brtt. væri verið að ákveða tiltekna upphæð, sem ætti að koma inn í fjárlög ársins 1981, og töldu að nærtækara væri að ákveða þá upphæð þegar fjárlög yrðu næst afgreidd, enda hefur sú stefna verið ríkjandi að fækka lögbundnum framlögum til ýmissa sérstakra verkefna.

Við atkvgr. um brtt. var hún samþykkt með 16:15 atkv., en níu þm. voru fjarstaddir. Ég hafði rökstudda ástæðu til að ætla, að þessi till. nyti ekki meirihlutafylgis í deildinni ef allir þm. væru viðstaddir, og bar því fram till. við 3. umr., þess efnis, að hin nýsamþykkta brtt. félli niður. Stjórnarandstæðingar tóku till. minni illa, að ekki sé meira sagt. (KP: Eðlilega.) Málið hefur síðan verið til nánari skoðunar yfir langa helgi.

Í framhaldi af viðræðum mínum við ýmsa um þetta mál hefur það orðið niðurstaðan, að ég flyt við 3. umr. nýja till., sem hefur verið dreift hér með þingskjalsnúmerinu 634, og hún hljóðar svo:

„Við ákvörðun framlags úr ríkissjóði til sjóðsins skal taka tillit til þess, að sjóðnum er ætlað að veita styrki til sjálfseignarstofnana og vistheimila, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna, og ber í fjárlögum að ætla sérgreint framlag til þessara verkefna, þannig að það komi til viðbótar við framlög til sjóðsins skv. 1. og 2. málslið.“

Ég tel að þessi brtt. sé í fullu samræmi við vilja félmn. þegar hún fjallaði um frv. hér í d. Þótt sumir hv. þm. vildu kannske ganga lengra og tiltaka upphæðina nákvæmlega er það ekki gert í þessari till., heldur fyrst og fremst mótuð meginstefna, sem ég tel miklu eðlilegra. Ég vænti þess því fastlega, að friður geti orðið um þessa málamiðlunartilraun þannig að hún verði hér samþykkt mótatkvæðalaust.