28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3200 í B-deild Alþingistíðinda. (3142)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er kannske kunnara en frá þurfi að segja, að núv. ríkisstj. hefur nauman þingmeirihl. Þetta er að vísu góður þingmeirihl. og miklu betri þingmeirihl. en sú ríkisstj. hafði sem við studdum í fyrravor, því að þar voru alls konar upphlaupsmenn innandyra með ólæti og vitleysisgang í tíma og ótíma, en nú standa menn saman. En við erum ekki fleiri en það, að nú þurfum við að standa saman til þess að mál ríkisstj. nái fram að ganga, og af því leiðir að þegar menn víkja sér frá er óhjákvæmilegt að fá varamenn í þeirra stað.

Hér hafa fallið orð um að verið væri að misnota fé skattborgaranna. Ég vísa þessu á bug. Haraldur Ólafsson lektor fær greiðslu fyrir þá daga sem hann situr hér á þingi. Sú greiðsla er dregin af föstu kaupi hv. þm. Guðmundar Þórarinssonar, og mér sýnist hv. þm. Guðmundur Þórarinsson ekkert vera of góður að greiða varamanni sínum þetta fé. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þm. Haraldur Ólafsson geri háa reikninga fyrir strætisvagni vestan úr Skerjafirði og niður í miðbæ á þessa fundi sem vonandi verða ekki margir.

Finnbogi Hermannsson kemur hér og tekur sæti sjútvrh. Ráðh. er erlendis í opinberum erindagerðum. Hann gerði ekki ráð fyrir því, þegar hann skipulagði sína ferð til útlanda, að þing stæði þessa daga, enda gerðu allir aðrir ráð fyrir að þá væru þinglausnir um garð gengnar.

Að þetta lykti af einhverjum hrossakaupum, — mér þykir heldur ósennilegt að Finnbogi þessi, hv. þm. vona ég megi segja eftir stutta stund, færi að gera einhver hrossakaup upp á 24 klukkustundir. Mér dettur það ekki í hug.

Hvað atkvgr. viðvíkur er það rétt, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason sagði, að það er altítt að gera samkomulag um að menn séu fjarverandi. Út af fyrir sig gæti ég vel hugsað mér prívat og persónulega að gera „gentlemen's agreement“ við Vilmund Gylfason, en ég vildi síður eiga undir því lít minnar ríkisstj. að það héldi.

Vilmundur Gylfason getur að vísu djarft úr flokki talað. Ég minnist þess ekki að hann hafi vikið héðan í vetur, og hann hefur sótt fundi vel, en ég get ekki neitað því að ég mundi ekkert harma þó að ég fengi aðeins að kynnast varamanni hans.