28.05.1980
Sameinað þing: 68. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3202 í B-deild Alþingistíðinda. (3146)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég mun ekki halda uppi málþófi. Ég ætla að vera alveg til fyrirmyndar, stuttorður og gagnorður.

Ég ætla að segja það, að ég vil fyrstur manna þakka og viðurkenna ágæta aðstoð stjórnarandstæðinga í mörgum tilfellum við afgreiðslu mála ríkisstj. þar sem nokkuð hefur staðið upp á okkur stjórnarsinna að halda málum fram. En í flóknum og vandasömum atkvgr. geta komið upp tilvik sem eru ófyrirséð, og það er afar erfitt að taka svo til í samkomulagi að siglt sé út fyrir öll þau tilbrigði sem upp geta komið.

Það er síður en svo að ég sé að efa að þeir samningar, sem hv. þm. Vilmundur Gylfason kynni að gera við mig, mundu halda. Ég gerði samkomulag við ágætan þm. Alþfl. í fyrravor þegar ég brá mér frá einn dag. Ég gerði samkomulag við einn ágætan þm. Alþfl., sem ætlaði að greiða atkv. gegn vissu máli sem ég var með, að hann sæti nú hjá, en það hefði dugað okkur, og þetta efndi hann vel. En hvað haldið þið að gerist? Þá rís úr sætum meiri hl. þm. og gengur úr salnum og fyrir bragðið hlaut þetta mál ekki afgreiðslu. Svona eru atvikin furðuleg og geta þróast á ýmsa vegu sem mönnum dettur ekki í hug að gera samkomulag um.