29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (3208)

Kosning sjö manna og jafnmargra vara í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Það má segja að það hafi komið nokkuð á óvart að kjósa þurfi skriflegri kosningu í stjórn Húsnæðisstofnunar ríkisins. Um þetta mál hafði í sjálfu sér ekkert verið rætt á fundum formanna þingflokka og forseta þingsins þegar við vorum að ræða þinglausnir og þau mál sem afgreiða þyrfti á þeim skamma tíma sem eftir var til þinglausna. En annað hefur sem sat komið á daginn, að kannske hefði verið ástæða til að ræða það fyrr. En ástæðan er að nokkrir úr þingliði Sjálfstfl. eða þeir, sem styðja ríkisstj., hafa ekki getað sætt sig við að þingflokkurinn var búinn að ákveða framboð sitt við kosningu í húsnæðismálastjórn. Þetta er ástæðan fyrir því, að kosning fer nú fram og samkomulag verður með þessum sjálfstæðismönnum og stjórnarflokkunum, Alþb. og Framsfl.

Þær tafir, sem hafa orðið þessar síðustu mínútur, stafa svo af því, að það hafði verið gengið frá samkomulagi um það áðan að kosning færi fram kl. 4 í dag. Því var svo breytt vegna þess að á daginn kemur að einn ráðh. ríkisstj. til viðbótar þarf að fara úr landi í dag og það verður auðvitað að ganga fyrir að hann geti notað atkv. sitt þannig að stjórnarliðar séu með fullskipaða bekki. Þessar tafir hafa orðið vegna þess að a. m. k.. tveir úr liði Sjálfstfl. höfðu þurft að víkja héðan úr þinghúsinu vegna annarra starfa. Þetta eru sem sagt ástæðurnar fyrir því að dráttur hefur orðið á störfum þingsins núna.

Ég hef í sjálfu sér ekki meira um þetta að segja. Ég vildi aðeins koma þessu að. En þetta er hins vegar í fullu samræmi við þann hringlandahátt sem hefur verið á störfum þingsins, ekki bara síðustu dagana, heldur í allan vetur.