09.01.1980
Neðri deild: 15. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

41. mál, Skattadómur og rannsókn skattsvikamála

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er runnið upp nýtt ár og blessaðir starfshóparnir láta ljós sitt skína og skila af sér störfum á ýmsum sviðum. Það má ekki lengur minnast á nefndir. Varla ætla ég að starfshópar þeir, sem minnst er á í hinum ýmsu málaflokkum, vinni án endurgjalds, því allt kostar þetta peninga eins og hv. síðasti ræðumaður drap á. (Gripið fram í.) Já, einmitt það. Það hefur líklega verið undantekning.

Hér er fjallað um frv. til l. um Skattadóm og rannsókn skattsvikamála. Það er sannarlega fullt tilefni til þess að hugleiða þessi mál af alvöru, og það er margt sem getur farið úrskeiðis í þessum efnum. Vitanlega fer þetta frv. til n. og rækilegrar athugunar eins og önnur þingmál og er ekki ástæða til að fjölyrða mikið um það á þessu stigi. Það var þó aðallega ein aths. sem ég ætlaði að gera.

Hv. síðasti ræðumaður gat þess, að í raun og veru væri til sérdómstóll í skattamálum þar sem væri um að ræða ríkisskattanefnd, og má þetta til sanns vegar færa. Á hinn bóginn verður það að segjast eins og er, að því miður hefur aldrei tekist að gera ríkisskattanefndina nógu hraðvirka í störfum, — því miður, segi ég, því að þetta er að mörgu leyti mjög eðlileg málsmeðferð svo langt sem hún nær.

En hér er rætt um sérstakan skattadóm, og það er sú viðleitni sem ég vil vekja athygli á. Menn hafa mismunandi mikinn áhuga á hinum ýmsu málaflokkum, og þá kemur sú hugmynd fram að vilja setja á stofn sérdómstóla um alla skapaða hluti. Ég vil alveg ákveðið láta þá skoðun í ljós, að slíkt er röng stefna. Venjulega gerist það, þegar settur er á stofn sérdómstóll, að það er á kostnað annarra verka sem vinna þarf. Það er sú eina aths. sem ég vil gera á þessu stigi mála, — sú almenna aths. að ég álít það algerlega tanga stefnu að setja á stofn sérdómstóla um eitt og annað. Það á fyrst og fremst að hlynna að hinum almennu dómstólum.

Það er oft kvartað undan því, að málsmeðferð sé hæg og það gangi ekkert hjá embættum landsins og héraðsdómurum. Það er venjulega vegna þess að þeir eru of liðfáir og ekki nógu vel að þeim búið. Þess vegna á að hlynna að hinu almenna dómstólakerfi þannig að þeir aðilar, sem þar starfa, séu vandanum vaxnir, geti tekist á við málin og afgreitt þau á hæfilega löngum tíma.

Það var einnig verið að tala hér rétt áðan um að veita fólki aðstoð til þess að leita til dómstóla, og þá á náttúrlega ríkissjóður að greiða 3/4 af þeim kostnaði sem þar af leiðir. Það eru ýmsar hugleiðingar um sparnað á nýju ári líka! En ég vil benda á að dómstólarnar, héraðsdómararnir, hafa á ýmsum sviðum því hlutverki að gegna að leiðbeina fólki endurgjaldslaust, nema hvað þeir þiggja auðvitað sín ákveðnu laun fyrir starf sitt. Ég tel a.m.k. þar sem ég þekki til úti um land, að hver sem þarf á slíkum upplýsingum að halda geti komist æðilangt með því einu að ræða við héraðsdómara sinn og starfsmenn hans um það sem gera þarf. Og meira að segja getur hann flutt mál sitt sjálfur. Þá er héraðsdómari skyldur til að leiðbeina honum, eins og nánar segir í lögum.

Þessa aths. vildi ég láta koma fram nú þegar við 1. umr. málsins.