29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3240 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

206. mál, mál Skúla Pálssonar á Laxalóni

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að fagna því, að fjvn. hefur náð einróma samkomulagi um þetta viðkvæma deilumál. Mig langar til að fara örfáum orðum um forsögu málsins hér á þinginu.

Á næstliðnu þingi starfaði þáv. allshn. Nd., og vann að þessu máli. Það gerði sérhver nm. í n., og ég vil leggja á það þunga áherslu að það var ekki um neinn flokkaágreining að ræða þar. Nefndin tók að eigin frumkvæði upp þetta mál og kallaði fyrir sig sérhæfða menn og lagði þáltill. fyrir Sþ. þar sem þremur nafnkunnum einstaklingum var falið að gera úttekt á þessu máli eftir fyrirmælum sem nánar var kveðið á um í þáltill. Till. var samþ. af sameinuðu Alþingi fyrir réttu ári. Nefndin hefur unnið vel. Hún skilaði grg. fyrir um það bil tveimur mánuðum eða svo. Þegar: á döfinni eru viðkvæm deilumál eins og það sem hér er um að ræða held ég að slík vinnubrögð sem hér hafa verið höfð í frammi geti verið til nokkurrar fyrirmyndar, m. ö. o.: að Alþingi framselji hluta af valdi sínu sérhæfðum og sérmenntuðum mönnum.

Nú vitum við að hér er um ákaflega langdregið og viðkvæmt deilumál að tefla, og forðast vil ég að fella dóm í eina eða aðra átt um það. Ég viðurkenni það sem galla á þessari till., að hugsanlegt er að framkvæmdin verði í hvora áttina sem vera skal. Ég treysti því, að núv. hæstv: ríkisstj. líti svo á, að úr till. skuli unnið á grundvelli þess álits sem þremenningarnir skiluðu Alþingi. Það þykir mér vera kjarni þessa máls, og í trausti þess, að svo sé, vil ég bæði lýsa stuðningi við þessa till. og fagna því, að afgreiðsla fjvn. skuli vera ágreiningslaus.