29.05.1980
Sameinað þing: 69. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (3231)

231. mál, utanríkismál 1980

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Við þá umr. um þessa skýrslu, sem fór fram fyrir nokkrum dögum, kom hv. þm. Geir Hallgrímsson fram með tvær fsp. sem ég vil gjarnan svara. Þær fsp. lutu að efni því sem er í skýrslunni í kaflanum um viðskiptamál, en eins og fram var tekið er sá kafli yfirleitt fenginn frá viðskrn. og svör við þeim spurningum, sem hann bar fram og ég fer hér með, eru fengin að verulegu leyti frá viðskrn.

Hv. þm. spurði fyrst hvaða fyrirætlanir væru uppi um starf olíuviðskiptanefndar og hverjar líkur væru fyrir olíuviðskiptum t. d. við Saudi-Arabíu. Svarið er það, að ekki hafa verið teknar ákvarðanir um fyrirkomulag olíuviðskipta. Viðskrh. hefur til athugunar að stofna sérstaka olíuviðskiptadeild í viðskrn., — stjórnunardeild sem fjalli um olíuviðskipti og fylgist vandlega með allri framvindu olíumála til að tryggja á hverjum tíma sem hagkvæmust og öruggust olíuviðskipti. Rn. mun hér eftir sem hingað til kappkosta náin samskipti og samvinnu við olíufélögin í landinu. — Í öðru lagi er þetta að segja um hugsanleg olíuviðskipti við Saudi-Arabíu: Utanrrn. vinnur að því að beiðni viðskrn. að koma á stjórnmálasambandi við Saudi-Arabíu. Viðskrh. telur slíkt mjög þýðingarmikið skilyrði fyrir hugsanlegum viðskiptum milli landanna.

Í öðru lagi var spurt um stefnu varðandi málefni Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Um þá spurningu er þetta að segja:

Um miðjan janúar 1980 var skipuð fjögurra manna nefnd til að kanna málefni Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Jón Ögmundur Þormóðsson deildarstjóri í viðskrn. var formaður, aðrir í nefndinni voru og eru Páll Flygering í iðnrn., Guðmundur Eiríksson þjóðarréttarfræðingur í utanrrn. og Geir H. Haarde hagfræðingur hjá olíuviðskiptanefnd. Nefndin hefur safnað gögnum og kynnt sér þau. Viðskrh. sendi formanninn til Parísar í febr. Hann, ásamt Einari Benediktssyni sendiherra í París og fastafulltrúa Íslands hjá Efnahags- og framfarastofnuninni og Sveini Björnssyni viðskiptafulltrúa við sendiráðið í París, átti viðræður við forráðamenn Alþjóðaorkumálastofnunarinnar í Farís 25.–28. febr. s. l. Síðan hefur nefndin unnið að gerð ítarlegrar skýrslu um málið, m. a. með hliðsjón af hugsanlegri aðild Íslands. Verður þessi skýrsla væntanlega lögð fyrir ríkisstj. innan skamms.

Hv. síðasta ræðumanni, hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni, þótti, að mér skildist, heldur magur kafli um Evrópuráðið í þessari skýrslu. (ÞK: Ég sagði það ekki.) Nei. Ég hef líklega lesið það eða heyrt á milli línanna. En það má út af fyrir sig til sanns vegar færa. Það eru þarna kaflar um ýmsar alþjóðastofnanir og það er takmarkað hvað hægt er að segja um hverja. Kaflinn um Evrópuráðið er ekki styttri en t. d. kaflinn um Atlantshafsbandalagið, um Norðurlandaráð o. s. frv. En ég vil hins vegar segja að það komu ekki fram í máli mínu og höfðu ekki komið og ég held örugglega ekki í þessari skýrslu neinar efasemdir um gagnsemi Evrópuráðsins. (ÞK: Nei, það et rétt.) Ég þakka hv. þm. fyrir þá ágætu ræðu sem hann flutti áðan um Evrópuráðið, þar sem gerð var grein fyrir því.

Það komu nokkrar aths. síðast fram frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni við þessa skýrslu. Tíminn leyfir ekki að það sé farið ítarlega út í þær aths. (Gripið fram í.) Áhuginn hjá hv. þm. virðist nú í takmarkaðra lagi ef dæma má eftir fundarsókn. (StJ: Það er beðið eftir því að komast að með að tala í þessu máli. — Gripið fram í: Hvað finnst hæstv. utanrrh. um áhuga samráðh. sinna?) Ég skal þó e. t. v. drepa á þrjú atriði.

Hv. þm. Ólafur Ragnar lét orð falla um að það væri ekki tekið á málefnum Palestínumanna, að mér skildist, það væri gengið nokkuð fram hjá þeim. (ÓRG: Réttur þeirra væri ekki viðurkenndur.) Réttur þeirra væri ekki viðurkenndur. En ég vil í þessu sambandi benda honum á bls. 8 í skýrslunni og vildi mega — með leyfi hæstv. forseta — lesa það upp sem þar stendur:

„Ályktanir Öryggisráðsins nr. 242 og 338 eru sá grundvöllur, sem heildarlausn deilumála í miðausturlöndum verður að hvíla á. Nauðsynlegt er að allir aðilar á þessu svæði fallist á ákvæði þessara ályktana, þ. á m. um rétt allra ríkja á svæðinu til að fá að lifa í friði innan viðurkenndra landamæra. Jafnframt þurfa þeir allir að taka þátt í umræðum um slíka heildarlausn, sem einnig taki tillit til lögmætra þjóðarréttinda Palestínumanna. Fyrr en síðar hlýtur að koma að því að lausn verði að fást á þessu máli, ef unnt á að vera að koma í veg fyrir að sáttaumleitan Egypta og Ísraelsmanna sigli í strand. Olíusala Arabaríkja til vesturlanda hefur verið áhrifaríkt vopn í höndum Palestínumanna, en jafnframt sýnist ljóst, að málstaður þeirra hefur fengið aukinn meðbyr vegna stefnu Ísraels í málefnum herteknu svæðanna, ekki síst stofnun nýrra byggða Ísraelsmanna þar.“

Ég get því ekki fallist á að gengið sé fram hjá þessu efni, en vera má að ég hafi misskilið hv. þm. að þessu leyti.

Um þá fullyrðingu, sem fram kom hjá honum, að kjarnorkuvopn væru geymd á Keflavíkurflugvelli, vil ég segja það, að að mínum dómi hefur ekki tekist að renna neinum stoðum undir þá fullyrðingu. Það er ekki gert í þeim viðtölum sem fram hafa farið við tiltekna stofnun í Bandaríkjunum, vegna þess að. ekki er um neinar fullyrðingar að ræða hjá þeim aðilum. Þrátt fyrir að þessu sé þannig háttað tel ég sjálfsagt að rannsaka málið svo vel sem kostur er og reyna að koma í veg fyrir þá tortryggni og þær getsakir sem hafa komið upp í þessu máli. Að því er unnið af hálfu utanrrn. og um það verða utanrmn. gefnar skýrslur og fyrir hana lögð þau gögn sem aflað er.

Ég skal ekki fara út í deilur um hvort það sé réttmætt í þessari skýrslu að það megi jafnvel kalla Keflavíkurstöðina eftirlitsstöð. Ég verð þó að segja að í þeirri ræðu, sem hv. þm. flutti, var á ýmsan hátt greinargóð lýsing á því, sem þar fer fram, og ég sá þar í gegn að hann hefur kynnt sér þessi mál allrækilega í tengslum við starf sitt í öryggismálanefnd. Það kom fram hjá honum að hlutverk stöðvarinnar væri einmitt fyrst og fremst eftirlitið með kafbátum, kafbátaleit og flugvéla. Ég held því að við þurfum ekki að deila mjög mikið um það efni.

Að sjálfsögðu væri ástæða til að ræða nánar ýmsar aths. sem hafa komið fram hjá hv. þm., en tíminn leyfir það ekki.

Auðvitað ber að harma að hv. þm. Stefán Jónsson skuli ekki hafa komist að, því ég er viss um að í orðaskiptum milli okkar hefðu komist að ýmsar gagnlegar upplýsingar, en tíminn er þrotinn.