29.05.1980
Sameinað þing: 70. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 3252 í B-deild Alþingistíðinda. (3239)

Þinglausnir

Forseti Íslands (Kristján Eldjárn):

Hæstv. ríkisstjórn og alþingisforsetar. Hv. alþingismenn. Hratt flýgur stund, það er gamall og nýr sannleikur. Á þessum þinglausnadegi er sú hugsun áleitin, þegar ég tala til yðar úr þessum ræðustóli í síðasta sinn, að því er ætla verður. Á þessum vettvangi er þetta kveðjustund. Ég hef sagt að tólf ár séu drjúgur hluti úr starfsævi manns, en nú finnst mér þau stundum eins og svipur einn. Allir kannast við þvílíkar sjónhverfingar, en almanakið segir sína sögu.

Hver sá, sem býðst til að vera forseti Íslands ef landsmenn vildu svo hafa, mun gera sér grein fyrir því, að hann tekst á hendur mikla ábyrgð. Í þeirri ábyrgð felst meðal annars það að stuðla að stöðugleika í þjóðfélaginu með því að hverfa ekki á brott af neinni skyndingu ef ekkert óviðráðanlegt knýr til þess og ástæða er til að ætla að þorri landsmanna æski þess helst, að ekki sé breyting á gerð. Sú stund hlýtur þó alltaf að koma að einn leysi annan af hólmi. Nú finn ég og veit með sjálfum mér að nógu lengi er setið. Allt síðastliðið ár hef ég styrkst í þeirri vissu að ég ætti ekki að vera í framboði við forsetakosningarnar í sumar. Ég finn að persónulega er sú ákvörðun rétt, en hitt skiptir þó meira máli að ekki verður séð að hún gæti valdið neinu því sem þjóðinni stafaði hætta af. Tíð forsetaskipti eru ekki æskileg og ber margt til þess. Aldrei hefðum við hjón boðist til að vera húsbændur á Bessastöðum nema með þeim fasta ásetningi að skiljast ekki við þann vanda á neinn þann hátt sem kenna mætti við brotthlaup í ótíma. Nú þegar hillir undir eðlileg leiðarlok er mér það hugfró að okkur hefur auðnast að standa við þetta, og ég met það mikils að landsmenn hafa ekki látið annað á sér skilja. Um það er að vísu engin einhlít regla, hversu lengi forseti gegnir embætti, en mér er nær að halda að sannast muni að fáir gerist til að vera lengur en þrjú kjörtímabil.

Hér er ekki staður né stund til að fjölyrða um embætti forseta Íslands, hvorki almennt né hvernig það blasir við þegar litið er yfir þessi síðast liðnu tólf ár. Ég hygg þó að hvort tveggja sé nokkuð til umræðu manna á meðal einmitt nú, og það ekki eingöngu vegna þess að forsetakosningar eru á næsta leiti. Slík umræða er ekki nema eðlileg, hún er eins og hvert annað lífsmark í lýðræðisríki. Ef til vill er hvati hennar nú að einhverju leyti sú spurning, hversu til hefur tekist um aðdraganda og framvindu þeirra tiltölulega mörgu stjórnarmyndunarviðræðna sem orðið hafa í minni tíð. Vafasöm háttvísi væri það af minni hálfu að fara mörgum orðum um slíkt. Vel fer á að forseti sé opinskátt þakklátur fyrir viðurkenningarorð, ef eitthvað þykir hafa vel tekist, en hins vegar hafi hann sem fæst orð um ef á kreik kemst einhver slæðingur sem til gagnrýni mætti meta.

Þegar ég lít yfir farinn veg finn ég það glöggt að ég á margt að þakka. Ég er forsjóninni þakklátur fyrir að geta skilist við embætti forseta Íslands í friði við samvisku míns sjálfs. Ég þakka löndum mínum fyrir alla elskusemi við okkur hjón og alveg sérstaklega þeim mönnum sem verið hafa mér hollráðir í vanda.

Í ávarpi mínu við fyrstu þingsetninguna 1968 komst ég þannig að orði, að ég vænti mér góðs af samstarfi við alþm., enda væru þeir mér allir að góðu kunnir. Sú von mín hefur ræst, og mér er ljúft að minnast þess nú að tólf árum liðnum. Hún hefur ræst og það eins fyrir því þótt mikil mannaskipti hafi orðið á þingliði á þessum tíma, því tiltölulega fáir af þeim, sem þá voru á þingi, eiga þar sæti enn, en nýir menn komnir í stað þeirra sem horfið hafa. Ég minnist samskipta minna við alla þessa menn með óblandinni gleði.

Um ríkisstjórnir hef ég sömu sögu að segja, enda ráðherrar allir alþingismenn. Í minni tíð hafa alls 35 menn setið í ríkisstj., þar af 6 verið forsætisráðherrar. Samstarf mitt við þá alla hefur verið ánægjulegt og kynni mín við þá persónulegur ávinningur. Á þessari stundu hugsa ég til allra þessara manna, lífs og liðinna, með vinarþeli.

Að svo mæltu færi ég yður öllum, alþingismenn, þakkir fyrir hollustu og vinsemd í minn garð. Ég óska yður farsældar í mikilvægum störfum yðar. Megi hamingjan fylgja Alþingi Íslendinga í öllum þess athöfnum.

Landsmönnum öllum sendi ég þakkarkveðjur og velfarnaðaróskir.