10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti: Ég vil í upphafi máls míns gera þá aths. varðandi þau ræðuhöld sem farið hafa fram utan dagskrár, eftir að forseti óskaði sérstaklega að menn héldu sér að þingsköpum, að hæstv. fjmrh. hefur haldið ræðu um ríkisfjármálin sem hefur tekið góðan hálftíma. (Gripið fram í: 50 mínútur), 50 mínútur, sögðu þeir sem höfðu tímaúrið sitt í lagi. Því frekar er ég að gera því skóna að mér dugi ekki sá tími sem þingsköp ætla, því að vissulega er mjög margt í ræðu hæstv. fjmrh. sem gefur tilefni til þess að hér yrðu umr. um fjármál ríkisins í nokkuð langan tíma.

Tilefni þessarar umr. utan dagskrár eru fregnir í ríkisfjölmiðlum um stöðu sveitarfélaga og kröfu þeirra á ríkissjóð, sem hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttir, gerði að umræðuefni í upphafi fundar. Ég hef ekki í hyggju að koma þar við í ræðu minni nú, ég þekki málið ekki nægjanlega vel, en ég held að það sé nýmæli að ríkisfjölmiðlarnir séu dag eftir dag, eftir að hæstv, fjmrh. hefur látið í sér heyra, með leiðréttingar hinna ýmsu sveitarfélaga og stofnana við það sem frá honum hefur farið.

Vinnubrögð hæstv. ráðh. í sambandi við yfirlýsingar hans um stöðu ríkissjóðs hafa verið töluvert sérkennileg. Hann vék að því áðan að menn væru að vefengja upplýsingar úr rn. Ég hef ekki séð nein skjöl komin frá fjmrn. Ég hef hins vegar heyrt hæstv. fjmrh. segja ýmislegt og ég hef lesið í Alþýðublaðinu tölur um stöðu ríkissjóðs, en ég taldi ekki meðan ég gegndi fjmrh.-starfinu að það væri fréttamiðill fjmrn.

Þessi vinnubrögð hæstv. ráðh. minna mann dálítið á ævintýri sem allir þekkja, þ.e.a.s. um nýju fötin keisarans. Hann hafði ekki verið lengi í ráðherrastól þegar hann vildi sýna alþjóð hvernig Alþfl. hagaði ríkisfjármálunum þegar hann væri tekinn við þeim. Októbermánuður — eða sá hluti hans a.m.k. sem hæstv. fjmrh. réð ríkjum í fjmrn. — var með þeim hætti að þar fengu menn nánast ekki greidda reikninga. Menn héldu jafnvel að staða ríkissjóðs væri orðin mjög slæm. Forveri núv. fjmrh. var farinn að fá samúð, og menn veltu fyrir sér hvort ferill hans hefði endað svo, að ekki væri til ein einasta króna og ekki nokkur leið að greiða nokkurn reikning allan mánuðinn eftir að hann var farinn. En viti menn, það kom fljótt í ljós hver var ætlun hæstv. fjmrh., því að 31. okt. eða 1. nóv. kom hann í fjölmiðla og sagði: Jæja, í fyrsta skipti í fjögur ár hefur ríkissjóður átt inni á viðskiptareikningi sínum í Seðlabankanum.

En það snaraðist fljótt um á skepnunni, því að þegar komið var fram yfir miðnætti ... (Gripið fram í.) Ágætur, já. Hv. 4. þm. Norðurl. e. áttar sig kannske ekki á því, að ég var að tala um ríkissjóð. Hann vill e.t.v. heldur tala um fjmrh. sem slíkan. Það verður að vera hans mál. En strax í upphafi nóvembermánaðar var ríkissjóður kominn í margra milljarða kr. skuld á viðskiptareikningi sínum í Seðlabankanum. Nú biðu menn spenntir. Kosningar nálguðust. Hvernig skyldu nú mánaðamótin 30. nóv.—1. des. koma út? Jú, það var innistæða á viðskiptareikningi í Seðlabankanum. Ég lét þá gera athugun á hvort ríkissjóður hefði staðið við allar skuldbindingar sínar og þær upplýsingar, sem ég fékk, voru að tæpir 2 milljarðar kr. væru ógreiddir sem gjaldaáætlun fjmrn. hafði gert ráð fyrir. En til þess að fá þá stöðu að gjaldaáætlunin, sem gerð var í upphafi ársins, í tíð fyrrv. fjmrh., sýndi sig vera rétta, þ.e.a.s. sýndi innistæðu á viðskiptareikningi upp á 2.1 milljarð, frestaði núv. hæstv. fjmrh. greiðslum sem námu nákvæmlega sömu upphæð, þ. á m. greiðslum til Byggðasjóðs, og ég veit að báðir „kommissararnir“ sem nefndir hafa verið, m.a. er fyrrv. hæstv. fjmrh. annar framkvæmdastjórinn, geta að sjálfsögðu staðfest þetta. Það voru líka hundruð millj. ekki greiddar til annarra sjóða. Það, sem hér var um að ræða, var því að greiðslur voru dregnar fram yfir mánaðamótin til þess að hægt væri að sýna þessa mjög svo góðu stöðu.

Nú liðu kosningar og nálgaðist næstu mánaðamót. Það voru áramót. Mönnum datt í hug að nú væri leiknum lokið og hæstv. fjmrh. léti sér þetta nægja, hann færi úr nýju fötunum keisarans. Nei, þá gerist það enn á ný að hæstv. fjmrh. kemur fyrir alþjóð og skýrir frá hver sé staða ríkissjóðs um þessi áramót. Og það er Alþýðublaðið sem er látið flytja boðskapinn eftir að ráðh. treysti sér ekki í fjölmiðlum til þess að segja hver hafi orðið skuldaaukning ríkisins í Seðlabankanum á árinu 1979. Ég hef ekki séð neina fréttatilkynningu frá fjmrn. Ég vonaðist eftir að hæstv. ráðh. héldi þeirri reglu, sem þar hefur verið tíðkuð um nokkur ár, að gefa út hlutlausa fréttatilkynningu og þm. fengju þá að sjá, hver væri raunveruleg staða ríkissjóðs við Seðlabankann, og síðar yrði gefin út skýrsla til Alþ. byggð á bráðabirgðatölum ríkisbókhalds, eins og upp var tekið á árinu 1976 um ríkisfjármálin árið 1975. Nei, hæstv. ráðh. kom í fjölmiðla til þess að gera enn grein fyrir því, hversu vel hann hefði stjórnað fjármálunum í þá 2112 mánuð sem hann hefði setið í ráðherrastólnum, og gerði grein fyrir hver væri skuldastaðan við Seðlabankann: nú ætti ríkissjóður inni um áramótin 6 milljarða, skuldin hefði ekkert aukist að ráði og allir reikningar greiddir sem ríkissjóði bar að greiða.

Við skulum fara yfir þetta dæmi. Ég aflaði mér í morgun upplýsinga í Seðlabankanum um stöðu ríkissjóðs þar 31. des., og ég fæ aðrar tölur en hæstv.fjmrh. kom með áðan.

Skuldabréfalán ríkissjóðs við Seðlabankann eru 26.1 milljarður kr. Reikningslán, sem á að greiðast 20. mars, er 4 milljarðar. Skammtímalán samkv. brbl., sem á að greiðast 1. mars, 1. maí og 1. júlí, er 4.5 milljarðar. Og síðan eru ríkisvíxlar í eigu innlánsstofnana 300 millj. Á móti þessu eru á viðskiptareikningi ríkissjóðs 6 milljarðar. Útkoman úr þessu dæmi er 28.3 milljarðar.

Hæstv. fjmrh. las upp áðan töluna 26.7 milljarðar. Það er sú tala sem Alþýðublaðið gaf upp. Mér er alveg ljóst í hverju þessi talnaleikur er fólginn.

Á s.l. ári voru gerðar breytingar á lánum ríkissjóðs við Seðlabankann. Lánunum var breytt úr gengistryggðum lánum í lán með verðbótagreiðslum. Gengistryggðu lánin hafa verið og eru samkv. bókhaldi færð upp um hver áramót miðað við það gengi sem þá gildir. Verðbótaþátt viðkomandi skuldabréfa ber að færa upp nákvæmlega með sama hætti, enda gerir Seðlabankinn það í þessari tölu. Hæstv. fjmrh. er ekki á því að þetta eigi að gerast, enda sýnir hann dæmi sitt miklu betra með því að fara í bókhaldsleik.

Reikningslán upp á 4 milljarða á ríkissjóður að greiða á þessu ári, eftir rúma tvo mánuði. Þar að auki á hann að borga þriðjunginn af skammtímaláninu, sem er 4.5 milljarðar, þannig að greiðsla hans á árinu 1980 er upp á 5.5 milljarða á fyrstu mánuðum þess árs. Við getum gert okkur grein fyrir því, hvernig ríkissjóður hefur bolmagn á þeim mánuðum til að greiða lánin sem tekin voru árið 1978 vegna rekstrarhalla ríkissjóðs þá.

Til þess að sýna betri stöðu ríkissjóðs kemur í ljós að reikningar eru ekki greiddir, að kröfur stofnana á ríkissjóð eru ekki greiddar svo nemur milljörðum kr. Þar ber hæst Tryggingastofnun ríkisins, en mér er tjáð að ríkið skuldi Tryggingastofnun ríkisins tæpa 5 milljarða, og skuldaaukningin á þessu ári er upp á 2.5 milljarða. Það er ósköp auðvelt að bæta stöðuna við Seðlabankann með því að skulda Tryggingastofnun ríkisins. Við skulum líka átta okkur á að lánin við Seðlabankann jukust ekki bara um 300 millj., eins og ráðh. vildi láta líta út áðan, heldur um 2.2 milljarða. Hér er um að ræða upphæð sem nemur 4.7 milljörðum kr. Nú erum við að heyra um allar þær greiðslur sem ríkissjóður skuldar sveitarfélögunum. Mér er einnig ljóst að Olíusjóður á inni stórar upphæðir frá árinu 1979 og olíufélögin voru látin taka lán til þess að létta á greiðslum hans á s.l. ári. Allt er þetta gert til þess að láta stöðuna líta betur út um áramót en efni standa til.

Ef við tökum stöðu ríkissjóðs samanborið við fjárlögin sem samþ. voru, kemur í ljós það sem við í stjórnarandstöðunni á s.l. ári sögðum þegar þau fjárlög voru samþ., að um óraunhæf fjárlög væri að ræða. Það þýðir lítið fyrir hæstv. fjmrh. að koma upp nú og fjargviðrast yfir því, að ríkissjóður hafi ekki peninga til að greiða það sem honum bar að greiða. Hann hefði átt að standa að því með stjórnarandstöðunni í desembermánuði 1978 að afgreiða raunhæf fjárlög svo að fjmrh. gæti staðið við þær skuldbindingar sem lög gera ráð fyrir.

Við margbentum á það úr þessum ræðustól, fleiri en einn, fleiri en tveir, að það skorti um 10 milljarða og yfir 10 milljarða til þess að um væri að ræða raunhæf fjárlög. Fjárl. voru látin skila, ef ég man rétt, 7.5 milljörðum í greiðsluafgang. Það átti að nota 5 milljarða til þess að borga niður lán í Seðlabankanum og greiðsluafgangurinn átti að nema 2.5 milljörðum. Í staðinn fyrir þetta, þ.e.a.s. greiðsluafgang upp á 7.5 milljarða, aukast skuldirnar við Seðlabankann um 2.2 milljarða. Ef ég kann að leggja saman er hér um að ræða tæpa 10 milljarða. Auk þess nemur skuldaaukningin við Tryggingastofnun ríkisins 2.5 milljörðum. Hér erum við því komnir með 12.5 milljarða, og síðan koma þær skuldir sem hér hefur verið vikið að og voru tilefni þessara umr. utan dagskrár, ásamt öðrum skuldum sem ríkissjóður hefur ekki getað staðið við. Staða ríkissjóðs er því um 15 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir við setningu fjárlaga.

Það hefði vissulega verið fagnaðarefni ef hæstv. fjmrh. hefði getað komið hér og gert grein fyrir mun betri stöðu ríkissjóðs en hún hefur oft verið áður. Ég veit að ég hefði fagnað því, og ég veit að hv. 1. þm. Austurl., fyrrv. hæstv. fjmrh., hefði fagnað því líka. Annað mál er að koma upp í ræðustól og vera steinhissa á því að mönnum finnist slíkur málflutningur sem hæstv. fjmrh. hefur viðhaft frá því að hann tók við ekki fagnaðarefni. Hann er steinhissa á að það skuli ekki vera fagnaðarefni alþm.hæstv. fjmrh. gangi fram fyrir skjöldu í því að hagræða tölum vísvitandi og blekkja til þess að sýna að hans dómi betri árangur í eigin störfum.

Ég held að með því, sem ég hef sagt, hafi ég getað gert mönnum grein fyrir hver í raun og veru er staða ríkissjóðs. Það staðfestir, eins og ég sagði áðan, það sem við sjálfstæðismenn sögðum þegar fjárlög voru sett í desembermánuði 1978. Það hefur allt gengið fram eftir því sem þar var á bent. Ég held að menn ættu heldur að draga af því lærdóm, hvernig þeir stóðu að málum, fremur en koma hér upp í ræðustólinn eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. að því, hvort Alþ. megi ekki búast við að á næstunni verði gefin út af fjmrn. óhlutdræg fréttatilkynning um stöðu ríkissjóðs 31. des., eins og gert hefur verið, og þá hefur það verið staða ríkissjóðs eins og hún hefur verið við Seðlabankann. Síðan er spurt: Má ekki gera ráð fyrir að fjmrh. gefi Alþ. skýrslu um þróun ríkisfjármála árið 1979, — hlutlausa skýrslu byggða á bráðabirgðatölum ríkisbókhaldsins þegar þær verða til? Eða er ætlunin sú upplýsingamiðlun og allur tilbúningur hennar, sem hæstv. fjmrh. hefur stundað að undanförnu, verði sú upplýsingamiðlun sem Alþ. og þjóðin á að fá á næstu dögum? Og þá er spurt: Er þetta sú upplýsingamiðlun hins opinbera sem Alþfl. hefur talið að þyrfti að koma? Við höfum stundum heyrt þá tala fyrir því að auka þurfi upplýsingamiðlun og opna stjórnkerfið. Spurningin er: Er það þetta sem við eigum við að búa og fá kannske framan í okkur þegar við spyrjum: Óviðkomandi bannaður aðgangur?