10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

Umræður utan dagskrár

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er kostulega sem þessa umr. ber að, og til að fjalla um hina kostulegu ræðu hæstv. fjmrh., sem hann flutti á nokkrum mínútum áðan, þyrfti að tala langt mál. Ég mun þó verða við ósk forseta og vera stuttorður.

Mér finnst eðlilegt að hæstv. fjmrh. sé ofurlítið raupsamur og grobbinn í vanmætti sínum. En það er ótrúlegt að jafnréttorður maður og hæstv. ráðh. er skuli láta það henda sig að fara jafnónákvæmt með staðreyndir og hann hefur gert í þessu máli. Það er til fyrirmyndar hjá fjmrh. að sýna aðhald og aðgát í meðferð ríkissjóðs, en góð staða ríkissjóðs að þessu sinni er, eins og rækilega hefur komið fram í þessum umr., fengin með því að borga ekki áfallnar skuldir. Og í Prédikaranum segir að hinn óguðlegi taki lán, en borgi það ekki.

Það voru milli 1400 og 1500 millj. ógreiddar í útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir vegna verðábyrgðar á 10% búvöruframleiðslunnar. Þetta stóð inni um áramót og lögum samkv. átti náttúrlega að greiða það. Ráðh. skaut sér á bak við það, að áætlunartalan í fjárlögum hafi ekki verið nógu há, þrátt fyrir að venjan hafi verið að láta gilda framleiðslumagnið.

Það stappar nærri forherðingu hvernig hæstv. ráðh. hefur kastað steinum að fjárhaldsmönnum skóla og námsstjórum í landinu í þeim umr. sem orðið hafa um málið. Þetta er nú búið að vera framhaldssaga í nokkra daga í útvarpinu. Venjulega hafa námsstjórar og fjárhaldsmenn skóla haft hádegisfréttatímann. Þá hefur hæstv. ráðh. sperrt eyrun og svo hefur hann fengið kvöldfréttatímann til að svara fyrir sig.

Það hefur borið hér á góma hvernig þessi mál standa í Norðurlandskjördæmi vestra. Af því að þar var ekki farið ítarlega yfir sögu langar mig til að gera það ofurlítið nánar en gert var í upphafsræðu fyrirspyrjanda.

Raunveruleg skuld ríkissjóðs við skóla í Norðurlandskjördæmi vestra um áramót var í kringum 60 millj. Þar af voru 30 millj. vegna áfallins kostnaðar í nóv. og þær átti alveg tvímælalaust að greiða í des. Greiðslubeiðnir fyrir 21 millj. af þessum 30 millj. frá nóv. voru sendar af stað frá Blönduósi 3. des., þ.e.a.s. fyrsta virkan vinnudag í desembermánuði, og greiðslubeiðni fyrir þær 9 millj., sem eftir stóðu, fyrir miðjan mánuðinn, nokkrum dögum seinna. Afrit af þessum greiðslubeiðnum voru send beint til oddvita og fjárhaldsmanna skóla. Þeir geta náttúrlega sem hægast sannað mál fræðslustjórans.

Það eru að vísu komnir af stað, líklega í gær eða fyrradag, peningar fyrir þessar beiðnir sem áttu að koma alveg tvímælalaust fyrir áramót. Þeir eru farnir af stað héðan úr Reykjavík, gerðu það líklega í gær eða fyrradag. En þar fyrir utan stendur svo náttúrlega desemberkostnaður.

Ráðh. er að hæla sér af úrbótum sem hann lætur í skína að hann hafi verið að gera á greiðslum til kennara. Það er nú ekki aldeilis að hæstv. ráðh. geti hælt sér af því. Þetta fyrirkomulag hefur líklega verið í sumum fræðsluumdæmum upp undir tvö ár. Ég hygg að ég fari rétt með að það hafi fyrst verið tekið upp í Reykjanesfræðsluumdæmi fyrir svona tveim árum, svo um svipað leyti í Reykjavík. Dreifbýlið fékk jafnrétti, en það var ekki fyrir neina forgöngu hæstv. fjmrh. Eyðublöðin að þessu, vinnuskýrslueyðublöð kennaranna, voru prentuð í sumar og fræðslustjórarnir höfðu knúið á um þetta í langan tíma.

Sökin er e.t.v. ekki alfarið hjá fjmrh. eða í fjmrn. um þann óhæfilega drátt sem orðið hefur. Greiðslubeiðnirnar þurfa að ganga um garða í menntmrn. líka. En ég ætla ekkert að blanda mér í það hvort greiðslubeiðnirnar hafi stoppað hjá Heródesi eða Pílatusi. Fyrir mér er sami rassinn undir þeim báðum. Hv. síðasti ræðumaður, Matthías Á, Mathiesen, líkti þessu við nýju fötin keisarans. Hann átti von á því að hæstv. fjmrh. færi úr nýju fötum keisarans. Ég hygg að það mundi verða allt of sárt fyrir hæstv. ráðh. að fara úr nýju fötunum keisarans, og guð forði okkur frá því að sjá hann þannig. Ég vildi hins vegar mælast til þess við hæstv. ráðh. að hann hyldi nekt sína.