10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

Umræður utan dagskrár

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Einnig ég mun reyna að verða við sanngjörnum fyrirmælum um að takmarka ræðutíma minn.

Ég ætla mér ekki þá dul að fara að ræða greiðslustöðu ríkissjóðs nú um þessi áramót. Ég vil vegna eðlislegrar sanngirni reyna að trúa því, að hæstv. fjmrh. kunni e.t.v. að vera ekki líkt því eins ósannsögull og flestir virðast halda. Ég mun trúa því, að hann hafi haft það rétt eftir sem flokksbróðir hans Björn Friðfinnsson sagði við hann prívat og persónulega í símtali í dag varðandi greiðslustöðu ríkissjóðs gagnvart Reykjavíkurborg, aðeins vekja athygli á því, að e.t.v. kunni ástæðan fyrir því, að Tryggingastofnun ríkisins gat ekki hlaupið undir bagga með borgarsjóði, að vera sú, að það er satt, hvað sem öðru líður, að ríkissjóður skuldar Tryggingastofnun ríkisins rösklega 4.5 milljarða og þessi skuld kunni að valda einhverju um skort á sjálfsagðri greiðasemi af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins við borgarsjóð Reykjavíkur.

Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst vegna þess að það mál, sem reifað var hér af hv. 4. landsk. þm., Salome Þorkelsdóttur, snertir mjög mikið fræðsluskrifstofu í kjördæmi mínu, Norðurl. e., þar sem ríkissjóður skuldaði, að vísu í gegnum sveitarsjóði, 91.9 millj. kr., fyrst og fremst í vinnulaun. Það er gersamlega ómögulegt fyrir hæstv. fjmrh. að tala sig burt frá þeim skuldum, þær eru vottfestar og reikningar, sem hér er um að ræða, löglegir. Hér er um að ræða skuld við 27 sveitarfélög sem sent hafa inn reikninga á tilsettum tíma, í tæka tíð, og í sumum tilfellum er þar um að ræða allan kostnað skólanna frá upphafi skólaársins, þannig að í þeim tilfellum hefur þó tæpast verið farið fram yfir fjárveitingar sem ætlaðar voru á fjárlögum.

Ég tel það ákaflega ómaklegt — og ég vil trúa því að hæstv. ráðh. hafi gert það óvart — að sneiða að fræðslustjórum og fjárhaldsmönnum skóla í hinum ýmsu kjördæmum fyrir óvarlega meðferð fjár, þar sem þeir hafi farið fram yfir fjárveitingar á fjárl. Hæstv. fjmrh. hefur sjálfur starfað í fjvn. og honum er fullkunnugt um með hvaða hætti kostnaðaráætlanir eru gerðar. Þar er ekki eingöngu um að ræða störf fræðslustjóranna eða fjárhaldsmanna skólanna, heldur fara þessar áætlanir í gegnum hendurnar á skólayfirvöldum og fræðsluyfirvöldum, sem gera þær breytingar sem þau telja eðlilegt og nauðsynlegt til þess að hægt sé að framfylgja lögum sem hv. alþm. hafa samþ. um fyrirkomulag fræðslustarfsemi og rekstur þessara skóla. Síðan kemur til fyrirbæri sem hagsýsla heitir og breytir stundum þessum niðurstöðum án rökstuðnings, án þess að gefa nokkur fyrirmæli um hvaða lögum á þá ekki að framfylgja, hvaða starfsmenn það eru sem ekki eiga að fá laun sín greidd, því að það er ætlast til þess að störf þeirra séu af hendi leyst.

Það má vel vera, það hefur frést, að í einu fræðsluumdæminu, á Vestfjörðum, hafi allir reikningar verið greiddir fyrir áramótin, enginn þeirra frystur. Hæstv. ráðh. gefur þá skýringu að ekki hafi verið farið fram yfir fjárveitingu. En þá vil ég biðja hæstv. fjmrh. eða — ef hann skyldi bresta til þess viskuna og náðina að geta veitt þær upplýsingar — þá hæstv. menntmrh. að upplýsa okkur með hvaða hætti þeir Vestfirðingar hafa getað innt af hendi þessi nauðsynlegu störf miklu ódýrar en þau hafa verið leyst af hendi annars staðar. Ég vænti þess, að ástæðan sé ekki sú, að þeir þar vestra hafi skorið við nögl sér nauðsynlegar fjárveitingar til eðlilegrar fræðslu eða kristilegs uppeldis.

En hvað sem því líður vil ég fara fram á það við hæstv. fjmrh., að hann sjái til þess nú þegar, að inntar verði af hendi nauðsynlegar greiðslur til þess að ekki verði að loka skólum á grunnskólastigi í Norðurl. e., og huga e.t.v. að því, hvort fjárhaldsmenn einstakra skóla, sem hafa orðið að taka yfirdráttarlán með 4% vöxtum á mánuði til þess að halda skólunum gangandi, til þess að inna af hendi launagreiðslur, borga drengskaparskuldir, þeir fái tjón sitt og sveitarfélaga bætt af hálfu þess aðila þar sem ríkissjóður er, sem gjarnan gengur nokkuð strangt eftir greiðslum dráttarvaxta, þó honum séu þeir aftur á móti fremur í hendi fastir við þá sem hafa orðið að eiga sitt inni hjá honum.