10.01.1980
Sameinað þing: 9. fundur, 102. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

Umræður utan dagskrár

Dómsmrh. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið er reglan sú samkv. grunnskólalögunum frá 1974, að sveitarfélög eiga að greiða fyrir fasta yfirvinnu og stundakennslu í sambandi við grunnskóla, en ríkisvaldið greiðir eftir á þessa reikninga mánuði síðar. Að því er til menntmrn. tekur og menntamála varðar er það svo, eins og hér hefur raunar komið fram og eins og fram kemur í fréttatilkynningu sem rn. sendi út um þetta mál um hádegisbilið í dag, að að undanförnu hafa greiðslur sem þessar verið greiddar beint og án þess að til greiðslu frá sveitarfélögum kæmi. Eins og raunar kom fram hjá hæstv. fjmrh. námu slíkar greiðslur í desembermánuði tæpum 277 millj. kr., sem sagt þetta eru greiðslur sem ríkissjóður greiðir áður en þær eru gjaldfallnar samkv. lögum. Hins vegar hefur það farið svo, að þessi staða raskaðist nokkuð síðustu 2–3 mánuði ársins, m.a. vegna þess að greiðslum vegna stundakennslu og yfirvinnu var hraðað og á þessum mánuðum varð þess vegna að taka upp þann hátt að nýju að greiða sveitarfélögunum eftir á.

Ég vil aðeins undirstrika það, sem hér hefur raunar fram komið, að allar slíkar beiðnir, sem inn komu til fjármáladeildar menntmrn. fyrir 20. nóv., voru afgreiddar fyrir mánaðamótin nóv. – des. Beiðnir af sama tagi, sem komu á bilinu 20. nóv. – 13. des., voru afgreiddar frá rn. og til greiðslu fyrir áramót. En svo sem hér hefur enn fremur verið upplýst hagaði svo til, að það voru aðeins tveir vinnudagar milli jóla og nýárs, svo að þessar greiðslur voru inntar af hendi þegar í stað eftir áramót. Ég hygg að það hafi verið á þriðjudaginn var, 8. jan., sem þær voru endanlega afgreiddar.

Að því er varðar það sérstaka embætti, fræðsluembættið í Norðurl. e., var það svo, að þar höfðu safnast upp beiðnir fyrir eina 3–4 mánuði og þær komu ekki til rn. fyrr en um mánaðamótin nóv.-des. Þær voru afgreiddar eftir þeim reglum sem hér hefur verið lýst. Það er rétt, að orðið hefur nokkurra daga dráttur á nokkurri upphæð þarna, en á móti kemur að t.d. í desembermánuði voru nær 277 millj. kr. greiddar beint og án milligöngu sveitarfélaga. Ég held því að hér sé ekki um að ræða það stórmál sem úr þessu hefur verið gert.

Allt um það hefur nú verið lesin fréttatilkynning frá menntmrn. um þetta mál. Rn. er þar með orðið aðili að þessu fréttaskeytastríði.